Vinnumarkaður - 

18. Maí 2011

Um forsendur kjarasamninga á almennum vinnumarkaði

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Um forsendur kjarasamninga á almennum vinnumarkaði

Samtök atvinnulífsins vilja í ljósi umræðu í fjölmiðlum um nýja kjarasamninga á almennum vinnumarkaði taka fram að SA geta ekki rift samningunum einhliða fyrir 22. júní næstkomandi. Samtök atvinnulífsins skrifuðu undir kjarasamninga til þriggja ára við ASÍ og flest aðildarsamtök þess þann 5. maí. Margir fyrirvarar eru í samningunum sem verður að uppfylla til að þeir haldi til þriggja ára.

Samtök atvinnulífsins vilja í ljósi umræðu í fjölmiðlum um nýja kjarasamninga á almennum vinnumarkaði taka fram að SA geta ekki rift samningunum einhliða fyrir 22. júní næstkomandi. Samtök atvinnulífsins skrifuðu undir kjarasamninga til þriggja ára við ASÍ og flest aðildarsamtök þess þann 5. maí. Margir fyrirvarar eru í samningunum sem verður að uppfylla til að þeir haldi til þriggja ára.

Gerður var sérstakur aðfararsamningur sem framlengdi alla kjarasamninga aðila til 22. júní. Til þess tíma hefur ríkisstjórn Íslands frest til að efna tiltekin mál í samræmi við yfirlýsingu sem gefin var út í tengslum við samningana. Forsendur þess að samningar haldi til þriggja ára eru að stjórnvöld standi við gefin fyrirheit í efnahags-, atvinnu- og félagsmálum.

Ef samningsaðilar komast að þeirri niðurstöðu fyrir 22. júní 2011 að ekki séu forsendur fyrir þriggja ára kjarasamningum getur hvor aðili fyrir sig framlengt fyrrgreindan aðfararsamning til 31. janúar 2012. Þær breytingar á kjarasamningunum sem samið var um að tækju gildi 1. júní koma þá að fullu til framkvæmda, þ.m.t. ný og breytt ákvæði kjarasamninga og bókanir. Þó taka ekki gildi sérstakt 15.000.- kr. álag á desemberuppbót 2011 og sérstakt 10.000.- kr. álag á orlofsuppbót 2011, ákveði ASÍ einhliða framlengingu þessa aðfararsamnings til 31. janúar 2012.

Það er því ekki tilefni til að tala um mögulega einhliða riftun SA á samningunum eða að samtökin hafi látið setja slíkt ákvæði í samningana. Hins vegar getur komið í ljós fram til 22. júní að ekki hafi reynst forsendur fyrir þriggja ára samningi og geta þá SA eða ASÍ framlengt fyrrgreindan aðfararsamning til loka janúar 2012.

Það er von SA að ríkisstjórnin muni standa við gefin fyrirheit í tengslum við undirritun kjarasamninganna þann 5. maí, (sjá yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar hér að neðan), enda hafa SA stefnt að því allt frá síðastliðnu hausti að gera kjarasamninga til þriggja ára sem byggja á svokallaðri atvinnuleið, þar sem áhersla er lögð á hagvöxt, öruggt og tryggt starfsumhverfi fyrir allar atvinnugreinar, aukningu kaupmáttar og minna atvinnuleysi.

Nú er það hlutverk ríkisstjórnarinnar að tryggja að hagkerfið komist af stað og atvinnuvegirnir geti eflst þannig að forsendur samninganna standist.

Sjá nánar:

Upplýsingavefur SA um kjarasamningana frá 5. maí

Samantekt SA um helstu atriði samninganna

Yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands í tengslum við samningana

Niðurstaða atkvæðagreiðslu SA um kjarasamningana frá 5. maí

Samtök atvinnulífsins