Efnahagsmál - 

08. mars 2012

Um forsendur kjarasamninga

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Um forsendur kjarasamninga

Hagstofa Íslands gaf út nú í dag að landsframleiðslan á árinu 2011 hefði aukist um 3,1% frá fyrra ári. Þetta er í samræmi við væntingar Seðlabankans í síðustu spá hans um framgang efnahagsmála. Seðlabankinn spáir því að hagvöxtur á þessu ári og hinu næsta verði 2,5% hvort árið um sig. Samtök atvinnulífsins hafa viljað líta á árin 2011 - 2013 sem eina heild. Þessi þrjú ár ná yfir gildistíma núverandi kjarasamninga en þau voru líka undir í spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins haustið 2008 um framvindu efnahagsmála með hliðsjón af efnahagsáætlun hans og ríkisstjórnarinnar. Í spá AGS var gert ráð fyrir 13,8% hagvexti á þessum þremur árum 2011 - 2013. Fyrirliggjandi spá Seðlabankans í ljósi nýjustu upplýsinga Hagstofunnar um 2011 gerir hins vegar ráð fyrir 8,3% hagvexti á þessu þriggja ára tímabili.

Hagstofa Íslands gaf út nú í dag að landsframleiðslan á árinu 2011 hefði aukist um 3,1% frá fyrra ári. Þetta er í samræmi við væntingar Seðlabankans í síðustu spá hans um framgang efnahagsmála. Seðlabankinn spáir því að hagvöxtur á þessu ári og hinu næsta verði 2,5% hvort árið um sig. Samtök atvinnulífsins hafa viljað líta á árin 2011 - 2013 sem eina heild. Þessi þrjú ár ná yfir gildistíma núverandi kjarasamninga en þau voru líka undir í spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins haustið 2008 um framvindu efnahagsmála með hliðsjón af efnahagsáætlun hans og ríkisstjórnarinnar. Í spá AGS var gert ráð fyrir 13,8% hagvexti á þessum þremur árum 2011 - 2013. Fyrirliggjandi spá Seðlabankans í ljósi nýjustu upplýsinga Hagstofunnar um 2011 gerir hins vegar ráð fyrir 8,3% hagvexti á þessu þriggja ára tímabili.

Kjarasamningar Samtaka atvinnulífsins og ASÍ koma til endurmats í janúar á næsta ári. Samkvæmt forsendum kjarasamninganna þarf kaupmáttur að hafa aukist á mælikvarða launavísitölu, verðbólgan (des - des) að hafa verið 2,5% í mesta lagi og gengi krónunnar að hafa hækkað umtalsvert þannig að gengisvísitalan hafi komist niður í 190. Auk þess eru fyrirvarar vegna efnda stjórnvalda á þeirri yfirlýsingu sem ríkisstjórnin gaf í tengslum við kjarasamningana.

Gengi krónunnar hækkaði heldur frá undirritun kjarasamninganna í maí og fram í nóvember þegar það tók að síga á nýjan leik. Nú stendur viðmiðunarvísitalan í 227 og þarf gengi krónunnar því að hækka um fimmtung til þess að markmið um vísitölu 190 í desember næstkomandi náist. Ekki var sett tölusett verðbólgumarkmið fyrir árið 2011 í kjarasamningunum. Verðbólguforsendurnar í fyrra gengu þó eftir þar sem hafa verður í huga að verðhækkanir voru að stórum hluta komnar fram áður en kjarasamningarnir voru gerðir. Þannig var ársverðbólga miðað við mánuðina júní til desember 3,5% en á þeim tíma voru kostnaðarhækkanir vegna kjarasamninganna að koma fram og stöðugt gengi krónunnar helt innflutningsverðlagi í skefjum .

Kostnaðarhækkanir vegna kjarasamninganna á árinu 2012 verða um 4,2% en á móti þeim kemur 0,9% lækkun á tryggingagjaldi. Ef forsendur kjarasamninganna væru að ganga eftir ætti hækkun á gengi krónunnar að tryggja að markmið þeirra um kaupmátt og verðlag næðist auðveldlega í janúar 2013.

Gengi krónunnar er mikill útgangspunktur í forsendum kjarasamninganna. Ástæðan fyrir því að SA og ASÍ töldu gengi krónunnar geta hækkað var væntanlegt innstreymi gjaldeyris í tengslum við erlendar fjárfestingar í stóriðju og tilheyrandi virkjanaframkvæmdir. Þau verkefni hafa ýmist tafist eða aldrei farið af stað þannig að forsendur fyrir hækkandi gengi hafa ekki staðist. Fjárfestingarnar eru reyndar ennþá í mikilli lægð. Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru fjárfestingar í heild 14% af landsframleiðslu á árinu 2011 sem er lítil hækkun þeim 13% sem þær voru 2011. Ekkert bendir til þess að fjárfestingar á þessu ári muni aukast í þeim mæli sem þarf til að gengi krónunnar styrkist svo um muni.

Afgerandi líkur eru á því að verðbólgan á árinu 2012 verði vel yfir 2,5% viðmiðinu sem sett var. Hversu mikil verðbólgan verður í reynd fer eftir mörgum þáttum en þar skipta gengisþróun og launahækkanir umfram kjarasamninga eða launaskrið mestu máli. Í öllu falli má reikna með því að hvorug forsenda kjarasamninganna um verðbólgu eða gengi standist.

Þá stendur eftir spurningin um kaupmátt launa. Eykst hann þrátt fyrir að verðbólga verði meiri en gengið er út frá? Þar skiptir launaskriðið höfuðmáli. Á síðasta ári varð umtalsvert launaskrið. Launavísitalan hækkaði um 9,2% frá desember 2010 til sama tíma 2011 en kostnaðarauki atvinnulífsins vegna kjarasamninganna var áætlaður 5,0%. Kaupmáttarþróunin er væntanlega veigamesta forsenda kjarasamninganna af sjónarhóli verkalýðshreyfingarinnar. Byggi kaupmáttaraukning hins vegar fyrst og fremst á miklu launaskriði er það hugsanleg vísbending um ákveðið ójafnvægi á vinnumarkaðnum sem getur haft afleiðingar fyrir kjarasamninga.

Það vakti athygli að launavísitalan hækkaði um 0,3% í nóvember og aftur í desember sl. þrátt fyrir að afar litlar samningsbundnar hækkanir féllu til í þeim mánuðum. Slík hækkun á launavísitölu umfram kjarasamninga mánuð eftir mánuð er ávísun á vandræði. Því var það ákveðinn léttir að launavísitalan hækkaði ekki í janúar á þessu ári. Svo skammt er liðið á árið að of snemmt er að spá nákvæmlega um það hvort kaupmáttarforsenda kjarasamninganna standist þrátt fyrir allt. Tilfinningin núna er þó sú að kaupmáttarforsendan muni standast en hvorki verðbólguforsendan né gengisforsendan.

Samtök atvinnulífsins munu tæplega telja það atvinnulífinu eða nokkrum öðrum í hag að slíta kjarasamningum í upphafi næsta árs í aðdraganda kosninga til Alþingis. Sú atburðarás sem þá gæti hafist er með öllu ófyrirsjáanleg. Fyrir liggur að kjarasamningarnir voru atvinnulífinu dýrir og byggðu á væntingum um hagvöxt sem ekki eru að rætast. Ekki er við því að búast að fyrirtækin hafi vilja eða getu til þess að hækka launakostnað enn frekar þrátt fyrir að verkalýðshreyfingin hafni framlengingu kjarasamninganna.

Sú mynd sem hér er dregin upp mun skýrast smám saman eftir því sem líður á árið. Fyrir mitt ár á að vera hægt að sjá með afgerandi líkum hvaða forsendur kjarasamninganna eru að standast og hverjar ekki. Vonandi verður þróunin í átt til aukins stöðugleika þrátt fyrir að allt gangi ekki eins og til stóð.

Vilhjálmur Egilsson

Af vettvangi í mars 2012

Samtök atvinnulífsins