Efnahagsmál - 

08. nóvember 2012

Tvítollun á fatnaði hækkar verð til neytenda

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Tvítollun á fatnaði hækkar verð til neytenda

Samtök atvinnulífsins leggja til að komið verði í veg fyrir tvítollun á fatnaði sem fluttur er til landsins. Reynist það ekki hægt með góðu móti verði tollar á fatnaði sem fluttur er inn frá löndum ESB, með upprunaland utan þess felldir niður. Þetta er meðal fjölmargra tillagna SA í skattamálum sem kynntar verða í Hörpu á morgun.

Samtök atvinnulífsins leggja til að komið verði í veg fyrir tvítollun á fatnaði sem fluttur er til landsins. Reynist það ekki hægt með góðu móti verði tollar á fatnaði sem fluttur er inn frá löndum ESB, með upprunaland utan þess felldir niður. Þetta er meðal fjölmargra tillagna SA í skattamálum sem kynntar verða í Hörpu á morgun.


Almennur tollur á fatnað er 15%. Það segir þó ekki alla söguna vegna þess að mjög stór hluti þess fatnaðar sem er til sölu á íslenskum markaði er framleiddur í "þriðju ríkjum" (að jafnaði í ríkjum Suðaustur Asíu). Hann er fluttur inn frá birgjum í einhverju aðildarríkja Evrópusambandsins, en Evrópusambandið leggur 15% toll á allan fatnað sem framleiddur er utan þess. Þegar vara sem ber slíkan toll er flutt aftur út úr Evrópusambandinu fæst þessi tollur endurgreiddur. Það gerist hins vegar nær aldrei vegna þess að umsókn um endurgreiðslu er mjög flókin í framkvæmd og kallar á mikla skriffinnsku. Af þeim ástæðum fást birgjar íslenskra fatainnflytjenda ekki til þess að sækja um þessa endurgreiðslu og vegur smæð íslenska markaðarins þungt í því efni.


Stór hluti (u.þ.b. 80%) þess fatnaðar sem er til sölu á íslenskum markaði ber þannig tvöfaldan toll, hinn 15% almenna toll sem lagður er á allan innfluttan fatnað og 15% ytri toll sem Evrópusambandið leggur á við innflutning til aðildarríkja þess. Stór hluti innflutts fatnaðar ber því ríflega 30% toll (þ.e. íslenska tollinn ofan á ytri toll ESB). Þar við bætist 25,5% virðisaukaskattur.


Stór hluti fatainnkaupa landsmanna fer fram erlendis, m.a. vegna tolla og hás VSK. Íslendingar kaupa fatnað erlendis einkum í Bretlandi og Bandaríkjunum. Í Bretlandi ber barnafatnaður (upp að 14 ára aldri) engan virðisaukaskatt. Víða í Bandaríkjunum, m.a. í Boston, er söluskattur 8%. Samkeppnisstaða íslenskrar fataverslunar er því ekki góð hvað þetta varðar enda sýna nýlegar kannanir að um 35% fatainnkaupa Íslendinga fara fram í útlöndum. Ef 15% tollur á fatnað innfluttum frá ESB, með upprunaland utan þess, yrði felldur niður myndi það stuðla að því að hluti fataverslunar landsmanna flyttist til landsins og auknar tekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti myndu vega upp á móti tekjutapi vegna niðurfellingar tollsins.

Tengt efni:

Opinn fundur SA um skattamál atvinnulífsins 9.11. í Hörpu

Samtök atvinnulífsins