Tvíhöfði: Íslenskir hagsmunir í Brexit og brokkgengur Alþjóðagjaldeyrissjóður

Formlegar viðræður milli Bretlands og Evrópusambandsins um útgöngu Breta úr ESB (Brexit) eru hafnar. Mikilvægt er að tryggja íslenska viðskiptahagsmuni í kjölfar samninga Bretlands við ESB.

Markaðsaðgangur Íslands að Bretlandi hefur byggst á aðild Íslands að innri markaði EES. Óljóst er hvernig samskiptum ríkjanna verður háttað í kjölfar útgöngu Breta. Um verulega hagsmuni er að ræða fyrir íslenskt atvinnulíf enda er Bretland einn mikilvægasti útflutningsmarkaður Íslendinga og náin viðskiptatengsl eru á milli ríkjanna.

Íslensk stjórnvöld verða að taka málið föstum tökum og tryggja að íslenskir hagsmunir verði í forgrunni allra samninga.

Mikilvægt er að íslensk fyrirtæki leggi mat á stöðu sína og séu meðvituð um þá þætti sem breytt viðskiptaumhverfi kann að hafa á  sinn rekstur. Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök munu leitast við að veita upplýsingar til sinna félagsmanna til að auðvelda slíka greiningarvinnu en lítið hefur verið um aðgengilegar upplýsingar sem draga saman áhrif Brexit á íslenska hagsmuni.

SA hafa birt greiningu sem er ætlað að varpa ljósi á þá hagsmuni sem í húfi eru, hugsanlegar sviðsmyndir og vekja athygli á áhrifaþáttum sem íslensk fyrirtæki í viðskiptum á Bretlandsmarkaði þurfa að vera meðvituð um.

Jafnframt bjóða samtökin félagsmönnum upp á að skrá sig á sérstakan Brexit póstlista en SA munu leitast við að veita reglulega upplýsingar um framvindu mála og þýðingu atburða fyrir íslenska hagsmuni. Eitt er víst: Íslensk stjórnvöld verða að taka málið föstum tökum og tryggja að íslenskir hagsmunir verði í forgrunni allra samninga.

-----

Meira af erlendum vettvangi. Það stendur skrifað að upphefðin komi að utan. Nýlega birti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn skýrslur um stöðu efnahagsmála hér á landi. Eins og gengur er þar margt ágætt en annað sem missir marks. Eitt af því sem vekur athygli er að sjóðurinn heldur því fram að nauðsynlegt sé að efla Fjármálaeftirlitið og auka reglubyrði og eftirlit. Þar er sjóðurinn á villigötum. Fyrir því eru nokkrar ástæður.

Augljóst er að allur kostnaður við eftirlitið lendir á viðskiptavinum banka og annarra fjármálastofnana. Það eru þeir sem skulda sem bera stærsta hlutann af kostnaðinum.

Ekki er auðvelt að átta sig á því hverju AGS telur ábótavant í íslenskum lögum um fjármálamarkaði sem á síðustu árum hefur tekið grundvallarbreytingum í samræmi við breytingar á evrópskri löggjöf. Valdheimildir eftirlitsins hafa verið auknar, starfsmönnum hefur fjölgað, pappírs- og skýrsluflóðið margfaldast og kostnaðurinn sömuleiðis.

Í alþjóðlegum samanburði er Fjármálaeftirlitið hlutfallslega mjög stórt hvort sem litið er til fjölda starfsmanna, kostnaðar eða annarra mælikvarða þegar tekið er mið af umfangi fjármálageirans hér á landi í samanburði við önnur lönd. Til dæmis er kostnaður á hvert eftirlitsskylt fyrirtæki hér um helmingi hærri en í Svíþjóð á árinu 2016 eins og kemur fram í nýlegri samantekt Samtaka fjármálafyrirtækja.

Augljóst er að allur kostnaður við eftirlitið lendir á viðskiptavinum banka og annarra fjármálastofnana. Það eru þeir sem skulda sem bera stærsta hlutann af kostnaðinum.

Það er vonandi að stjórnvöld taki ofangreinda þætti til skoðunar áður en af stað er farið og eftirlitið aukið enn frekar í takt við órökstudd tilmæli AGS. Þá væri gott að fram fari almenn úttekt á útblásnu og ofvöxnu eftirliti með fjármálageiranum og líta bæði til Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins og þá má gjarnan hafa í huga að stærstur hluti bankakerfisins er í eigu ríkisins.

-----

Það er með öllu óskiljanlegt að ekki hafi farið fram umfangsmikil endurskipulagning og hagræðing gjaldeyriseftirlitsins þar sem gjaldeyrishöftin hafa að mestu leyti verið afnumin. 

Athugasemdir AGS varðandi innflæðishöft Seðlabanka Íslands eru allrar athygli verðar. Það er með öllu óskiljanlegt að ekki hafi farið fram umfangsmikil endurskipulagning og hagræðing gjaldeyriseftirlitsins þar sem gjaldeyrishöftin hafa að mestu leyti verið afnumin. Nýjar reglur um hert innflæðishöft eru órækur vitnisburður þess að stjórnendur bankans ætli að halda áfram - enn eina ferðina - á fleygiferð í ranga átt.

Herðing innflæðishaftanna er í miklu ósamræmi við álit AGS sem tekur fram í skýrslu sinni að það hafi verið misráðið að koma á innflæðishöftum. Auk þess bendir AGS á að samfara lækkandi nafnvöxtum á Íslandi og hækkandi vöxtum erlendis séu varla nokkur rök til að viðhalda innflæðishöftunum, hvað þá herða þau eins og Seðlabankinn hefur nú gert.

Að mati AGS eiga innflæðishöftin ekki að leika lykilhlutverk í íslenskri hagstjórn. Þvert á móti eiga  þau fremur að vera til skamms tíma, tryggja að gagnsæi ríki og bankinn á að tryggja eins og kostur er að þau mismuni ekki fjárfestum.

Í þessu samhengi kemur fram í skýrslu AGS að samfara því sem innflæðishöftin voru innleidd þá eru vísbendingar þess efnis að fjármagnsinnflæði hafi í auknum mæli farið inn á hlutabréfamarkaðinn í stað skuldabréfa, en fjárfestingar í hlutabréfum eru undanskilin höftunum. Innflæðishöft eru að mati sjóðsins ekki lausn til langs tíma heldur neyðarúrræði. Það væri óskandi að Seðlabankinn myndi hlusta á álit AGS og losa innflæðishöftin í stórum skrefum í stað þess að herða þau.

-----

Það er leikur einn að ganga of langt. Raunveruleg list er fólgin í því að ganga nægjanlega langt. Þar eru Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands ekki undanskilin.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.

Leiðari fréttabréfsins Af vettvangi.

Tengt efni:

Brexit: Íslenskir hagsmunir í forgrunni