Efnahagsmál - 

02. júní 2009

Tryggja verður útstreymisheimildir til orkufreks iðnaðar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Tryggja verður útstreymisheimildir til orkufreks iðnaðar

Umhverfisráðuneytið tilkynnti á föstudag að ríkisstjórnin hafi samþykkt að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi um 15% frá árinu 1990 til ársins 2020. Þetta hefur nú verið kynnt sem markmið Íslands í viðræðum um nýtt alþjóðlegt samkomulag til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Yfirlýst markmið nær til alls útstreymis á Íslandi nema því sem tengist orkufrekum iðnaði. Þess misskilnings virðist gæta að ekki sé þörf á að viðhalda íslenska ákvæðinu svokallaða.

Umhverfisráðuneytið tilkynnti á föstudag að ríkisstjórnin hafi samþykkt að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi um 15% frá árinu 1990 til ársins 2020. Þetta hefur nú verið kynnt sem markmið Íslands í viðræðum um nýtt alþjóðlegt samkomulag til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Yfirlýst markmið nær til alls útstreymis á Íslandi nema því sem tengist orkufrekum iðnaði. Þess misskilnings virðist gæta að ekki sé þörf á að viðhalda íslenska ákvæðinu svokallaða.

Viðskiptakerfi ESB hluti af EES - mikil breyting 2013
Orkufrekur iðnaður sem tekið hefur til starfa á Íslandi eftir 1990 hefur fengið úthlutað heimildum til útstreymis frá stjórnvöldum og má rekja þær til þess sem kallað hefur verið íslenska ákvæðið við Kyoto-bókunina. Í frétt ráðuneytisins er talað um að ákvæðið falli brott þegar þessi iðnaður fellur undir ESB-reglur sem taka gildi 2013. Þess vegna verði engin þörf að halda við íslenska ákvæðinu. Í þessu virðist felast misskilningur.

Viðskiptakerfi ESB með útstreymisheimildir, sem verulegur hluti útstreymis í Evrópu fellur undir, byggir á heimildum sem fylgt hafa fyrirtækjunum sem undir það falla og koma frá almennum útstreymisheimildum aðildarríkjanna. Eins og er fá fyrirtækin úthlutað eftir ákveðnum áætlunum aðildarríkja ESB og byggir úthlutunin fyrst og fremst á sögulegu útstreymi. Þetta kerfi hefur þegar verið tekið inn í EES-samninginn en vegna þess að ekkert fyrirtæki hér á landi fellur undir kerfið á tímabilinu til 2012 hafa íslensk stjórnvöld ekki þurft að gera áætlanir um úthlutun. Á kerfinu verður mikil breyting árið 2013.

Reglur um úthlutun heimilda
Þrenns konar reglur munu gilda um úthlutun útstreymisheimilda. Í fyrsta lagi munu orkufyrirtæki sem nota jarðefnaeldsneyti verða að kaupa allar heimildir á uppboðum.

Í öðru lagi þurfa almenn iðnfyrirtæki, sem ekki eiga við að etja alþjóðlega samkeppni, að kaupa sívaxandi hluta af heimildum en fá úthlutað 80% án endurgjalds í upphafi. Þetta hlutfall verður síðan lækkað jafnt og þétt og verða fyrirtækin að kaupa allar heimildir frá árinu 2027.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að iðnaður sem er í alþjóðlegri samkeppni fái allar sínar heimildir án endurgjalds m.v. frammistöðu þeirra sem ná bestum árangri í Evrópu. Þetta er gert meðal annars til að koma í veg fyrir að framleiðsla fyrirtækjanna flytjist annað þar sem sambærilegar kröfur eru ekki gerðar. Enginn vafi er á að orkufrekur iðnaður á Íslandi muni falla undir þessi ákvæði og þurfi því ekki að kaupa sínar heimildir á markaði nema að því leyti sem fyrirtæki hér á landi standi sig verr en þau sem fremst standa.

Samkeppnisstaða Íslands verði tryggð
Til þess að orkufrekur iðnaður á Íslandi standi jafnfætis keppinautum sínum í Evrópu verða íslensk stjórnvöld því að tryggja að þau hafi nægan aðgang að útstreymisheimildum. Til dæmis með því að þær heimildir sem felast í íslenska ákvæðinu haldi gildi sínu og að íslensk stjórnvöld haldi áfram virkri baráttu sinni til að viðhalda ákvæðinu. Engin tengsl eru milli íslenska ákvæðisins og viðskiptakerfis ESB. Önnur leið er að samið verði við ESB um að íslensk fyrirtæki fái hluta af heildarkvóta Evrópuríkja án þess að íslensk stjórnvöld leggi inn í kerfið heimildir sem svara til útstreymis fyrirtækjanna og að íslenska ákvæðið falli niður.

Hvor leiðin er vænlegri til árangurs er erfitt að segja til um á þessu stigi. Undir lok árs getur komið í ljós hvort alþjóðlegar samningaviðræður um loftslagsmál skili árangri og hvort íslenska ákvæðið fái brautargengi eftir 2012. Ef ætlunin er að semja um málið við ESB er nauðsynlegt að formlegar viðræður hefjist sem fyrst. Hvort unnt verður að ljúka slíkum viðræðum fyrir áramót og fá formlega staðfestingu niðurstöðunnar er hins vegar alveg óljóst. Allt eins getur verið að íslensk stjórnvöld þurfi bæði að tryggja tilvist íslenska ákvæðisins og semja við ESB um að þær heimildir geti orðið hluti af viðskiptakerfi sambandsins.

Íslensk stjórnvöld eiga engan kost annan en að halda fram ítrustu hagsmunum lands og þjóðar á þessu sviði og tryggja að áfram verði unnt að nýta endurnýjanlegar orkulindir hér á landi til fjölbreyttrar atvinnustarfsemi hvort sem um er að ræða til framleiðslu áls, járnblendis, sólarkísils eða í annarri hátæknistarfsemi. 

Fjölmargt þarf að gera til að draga úr útstreymi
Útstreymi hér landi var 3.368 þúsund tonn árið 1990 og í Kyoto-bókuninni felst heimild til að það aukist um 10% á tímabilinu 2008 til 2012 og verði 3.705 þúsund tonn. Í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar, þar sem talað er annars vegar um 15% samdrátt frá 1990 eða 25% samdrátt frá heimildum áranna 2008-12, felst að draga verður úr útstreymi um 842 til 926 þúsund tonn, eftir því hvort markmiðið er miðað við, til ársins 2020. Enginn vafi er á að í þessu felast mjög metnaðarfull áform og að grípa verður til aðgerða á fjölmörgum sviðum til að ná því sem að er stefnt. Þess má geta að heildarútstreymi allra samgangna var 979 þúsund tonn árið 2006 og útstreymi sjávarútvegs var 619 þúsund tonn sama ár.

Unnt er með aukinni landgræðslu og skógrækt ásamt hóflegum og skynsamlegum aðgerðum sem tengjast samgöngum og ýmsum atvinnugreinum að ná töluverðum árangri í þá átt sem að er stefnt. Eins geta íslensk orkufyrirtæki sem taka þátt í uppbyggingu orkuvera sem byggja á endurnýjanlegum orkulindum í þróunarríkjum skapað útstreymisheimildir sem geta hjálpað til við að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar.

Þó er alls ekki ljóst hvaða áhrif efnahagsþrengingar hér á landi hafa á þessu sviði. Víst er að verulega hefur dregið úr mætti íslenskra fyrirtækja og þau hafa lítið svigrúm til  nýsköpunar og tækniframfara eins og er. Nauðsynlegt er að stjórnvöld hafi náið samstarf við atvinnulífið þegar kemur að því að útfæra markmið ríkisstjórnarinnar til að raska ekki samkeppnisstöðu fyrirtækjanna og bæta ekki á þá erfiðleika sem þau eiga þegar við að etja.

Frétt umhverfisráðuneytis 29. maí 2009

Samtök atvinnulífsins