Tryggingagjald hækkað um milljarða

Nú hafa fjárlög ársins 2015 verið samþykkt. Þar með er staðfest stefna undanfarinna ára þar sem ríkisvaldið tekur til sín sífellt stærri hluta af tryggingagjaldi, sem lagt er á öll greidd laun í landinu. Gjaldinu er meðal annars ætlað að standa straum af kostnaði vegna atvinnuleysis. Frá 2008 hefur þessi skattur hækkað um 3,015% af launum eða um 30 milljarða króna á ári. Frá síðustu alþingiskosningum er hækkun gjaldsins um 9 milljarðar króna á ári þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi farið minnkandi. Ríkisstjórnin eykur því skattheimtu á atvinnulífið verulega og heldur áfram á sömu braut og fyrri ríkisstjórn sem núverandi stjórnarflokkar gagnrýndu harkalega fyrir skattpíningu.

Það hefur verið samkomulag milli stjórnvalda og aðila á vinnumarkaði að launagreiðendur standi skil á ýmsum kostnaði sem tengist vinnumarkaðnum. Þannig hefur atvinnutryggingagjaldið staðið undir greiðslu atvinnuleysisbóta sem margfölduðust í kjölfar hrunsins 2008. Einnig fellur þarna undir kostnaður vegna ábyrgðasjóðs launa sem ábyrgist að starfsmenn fái sitt við gjaldþrot fyrirtækja. Fæðingarorlof er sömuleiðis fjármagnað með hluta af tryggingagjaldi. Með minnkandi greiðslum atvinnuleysisbóta hefði tryggingagjaldið átt að lækka að sama marki, enda segir svo í lögum um tryggingagjald. Svo hefur ekki orðið. Atvinnuleysi náði hámarki árið 2009 og var 8,0% af mannafla en verður 3,2% á næsta ári samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar. Minna atvinnuleysi gefur tilefni til rúmlega 2%  lækkunar tryggingagjaldsins sem ekki hefur orðið af.

Hækkun tryggingagjaldsins og aukin skattheimta ríkisins hefur bein áhrif á svigrúm atvinnulífsins til að hækka laun. Sama krónan verður ekki greidd tvisvar.

Skattur á launagreiðslur fyrirtækja er slæmur gjaldstofn til að fjármagna opinber útgjöld. Eftir því sem tryggingagjaldið hækkar dregur úr getu og vilja fyrirtækjanna til að ráða nýtt fólk. Geta þeirra til að stunda rannsóknir og nýsköpun minnkar. Markaðssókn líður fyrir. Hærra tryggingagjald dregur úr hagnaði fyrirtækja og tekjuskattsgreiðslur fyrirtækjanna dragast saman.

Hátt tryggingagjald hefur sérstaklega slæm áhrif á lítil fyrirtæki þar sem ráðning hvers nýs starfsmanns er stórt mál. Á einfaldan hátt má segja að fyrirtæki með tíu starfsmenn borgi ríkinu laun þess ellefta í formi tryggingagjalds. Á meðan það er eins hátt eins og raun ber vitni munu fyrirtækin vaxa hægar en ella og verðmætasköpunin verður minni.  Þannig bítur hækkun tryggingagjaldsins í skottið á sér og minnkar aðrar tekjur ríkisins – bæði beint og óbeint.

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að nýta ekki tækifærið nú og lækka tryggingagjaldið í samræmi við minna atvinnuleysi er mikil vonbrigði fyrir atvinnulífið. Fyrir síðustu alþingiskosningar var algjör samstaða meðal stjórnmálaflokkanna um að lækka þyrfti tryggingargjaldið. Atvinnulífið bíður eftir því að það verði gert.