Treystum samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar

Verkefnisstjórn um breytingar og umbætur á skattkerfinu hefur skilað af sér tillögum sem birtar voru í vikunni. Þar er meðal annars fjallað um að gjald fyrir nýtingu auðlinda sé hagkvæm tekjuöflun fyrir ríki og sveitarfélög ef hún endurspeglar arðsemi greinarinnar umfram það sem eðlilegt megi teljast. Bent er á að ferðaþjónustan skili miklum gjaldeyristekjum og að þær leiðir sem helst komi til greina séu gjald fyrir bílastæði og gistináttagjald.

Lagt er til að gistináttagjaldið renni að stærstum hluta til sveitarfélaganna og má taka undir að þau njóta of lítils hluta þeirra tekna sem ferðamennirnir skilja eftir í landinu. Þær einskorðast nú nánast við útsvarstekjur vegna þeirra sem í sveitarfélaginu búa og starfa við ferðaþjónustuna. Sveitarfélögin verða hins vegar fyrir ýmsum kostnaði sem stafar af fjölgun ferðamanna og uppbyggingu sameiginlegrar þjónustu og aðstöðu auk þess sem ferðamannastaðir innan sveitarfélaganna verða fyrir álagi.

Yfir og allt um kring
Ríkið nýtur nú góðs af vexti ferðaþjónustunnar með hækkandi skatttekjum og situr eitt að tekjum vegna virðisaukaskatts, tryggingagjalds og fjölmargra annara gjalda sem renna í ríkissjóð. Ríkið er einnig langstærsti landeigandinn og í umsjón þess er nánast allt hálendi landsins með öllum sínum náttúruperlum og gríðarlegu aðdráttarafli. Það virðist blasa við að ríkissjóður beri nú þegar einna mest úr býtum vegna fjölgunar ferðamanna.

Ríkið hefur hins vegar ekki sinnt uppbyggingu og viðhaldi ferðamannastaðanna í neinu samræmi við auknar tekjur og þess sem nauðsynlegt virðist. Afleiðingin er sú að víða um land er kvartað yfir því að náttúruperlur láti á sjá og að upplifun ferðamanna sé jafnvel ekki í samræmi við væntingar.

Samvinna nauðsynleg
Nauðsynlegt er að ríkið og ferðaþjónustan móti sameiginlega stefnu um uppbyggingu og viðhald ferðamannastaða. Hluti af þeirri stefnu hlýtur að vera hvernig best sé að stýra aðgangi að helstu stöðum og ferðaleiðum. Í því sambandi koma til skoðunar tillögur fyrrnefndar verkefnisstjórnar um bílastæðagjöld sem geta verið mishá eftir árstímum, milli daga og jafnvel innan dags. Meginhlutverk þessara gjalda ætti að vera að stýra álagi á viðkomandi svæði bæði í verndarskyni og eins til að tryggja jákvæða upplifun gestanna. Það er þó óvíst að bílastæðagjöld nái  markmiði alls staðar þar sem þörf er á að stýra álaginu og þarf þá að skoða aðrar leiðir til þess.

Upplifun ferðamanna og jákvæð umsögn þeirra þegar heim er komið er nauðsynleg til að standa undir og viðhalda allri uppbyggingunni sem hefur átt sér stað í ferðaþjónustunni og er á döfinni. Þetta er því verkefni sem ekki getur beðið.

Eins þarf að gæta þess að tillögur um ný gjöld verði ekki til þess að hækka skattaálögur á atvinnulífið og til mótvægis við ný gjöld verði til dæmis tryggingagjaldið lækkað. Þannig mætti færa hluta af skattheimtunni frá ríkinu til sveitarfélaganna.

Samkeppnishæfni tryggð
Annar vandi sem steðjar að er aukinn launakostnaður í kjölfar mjög örlátra kjarasamninga og síhækkandi gengi krónunnar. Ísland verður því sífellt dýrari áfangastaður. Þetta þýðir að það dregur smám saman úr samkeppnishæfni Íslands í samanburði við aðra áfangastaði ferðamanna.

Lækkun gengis íslensku krónunnar á árunum 2008-9 gerði Ísland að mjög samkeppnishæfum áfangastað og leiddi smám saman til mikillar fjölgunar ferðamanna. Á sama hátt mun það taka nokkurn tíma að hátt gengi krónunnar og dýrtíð hafi neikvæð áhrif á ferðamannastrauminn.

Ferðaþjónustan, ekki síður en aðrar atvinnugreinar, verður að búa við stöðugleika og rekstrarumhverfi sem er fyrirsjáanlegt og tryggir samkeppnishæfni greinarinnar. Þegar horft er til gengis krónunnar, hækkandi launakostnaðar og hugmynda um ný gjöld er greinilegt að spyrna þarf við fótum til að viðhalda þeim mikla árangri sem náðst hefur í ferðaþjónustunni undanfarin ár.

Hannes G. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.     

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 8. september 2016.