Efnahagsmál - 

27. mars 2010

Traustið er brostið

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Traustið er brostið

"Samtök atvinnulífsins harma þá stöðu sem upp er komin. Mikið var reynt til að halda lífi í stöðugleikasáttmálanum en þegar stjórnarmeirihlutinn greip til beinna aðgerða gegn honum var traustið endanlega farið og sáttmálinn þar með að því er Samtök atvinnulífsins varðar." Þetta segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, í grein sem birtist í morgunblaðinu í dag.

"Samtök atvinnulífsins harma þá stöðu sem upp er komin. Mikið var reynt til að halda lífi í stöðugleikasáttmálanum en þegar stjórnarmeirihlutinn greip til beinna aðgerða gegn honum var traustið endanlega farið og sáttmálinn þar með að því er Samtök atvinnulífsins varðar." Þetta segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, í grein sem birtist í morgunblaðinu í dag.

Greinina í heild má lesa hér að neðan:

Traustið er brostið

Samtök atvinnulífsins líta svo á að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn hafi með aðgerðum sínum og aðgerðaleysi vísað SA frá stöðugleikasáttmálanum sem undirritaður var 25. júní 2009. Kornið sem fyllti mælinn var samþykkt skötuselsfrumvarpsins svokallaða en áður hafði byggst upp mikil þreyta innan samtakanna vegna hægagangs í mörgum málum.

Það er mjög miður að til þessa skyldi koma en við samþykkt frumvarpsins brast endanlega það traust sem er nauðsynlegt milli aðila sem telja sig vera að vinna að sameiginlegum markmiðum. Markmið stöðugleikasáttmálans eru þjóðinni og atvinnulífinu til mikils framdráttar og því ekki tregalaust sem SA hrekjast frá sáttmálanum.

Samskipti við forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa verið með ágætum og Samtök atvinnulífsins hafa trúað því að bæði forsætis- og fjármálaráðherra ynnu af heilindum að málum. SA hafa því ekki skorast undan því að taka á sig óþægindi vegna óvinsælla en nauðsynlegra aðgerða s.s. skattahækkana.

Ráðherrar vinna gegn sáttmálanum

Það hefur grafið undan trausti milli SA og stjórnvalda að einstakir ráðherrar í ríkisstjórninni og stjórnarþingmenn hafa ekki álitið sig bundna af því sem forystumenn þeirra hafa skrifað undir eða sammælst um við aðila vinnumarkaðarins.

Á þetta hefur reynt með ýmsum hætti. Fyrst skal frægt telja skötuselsfrumvarpið. Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar frá 28. október sl. var gefin að undangengnum samtölum við forystumenn ríkisstjórnarinnar um að áform varðandi skötuselinn færu í ákveðinn sáttafarveg. Sjávarútvegsráðherra taldi sig ekki bundinn af þessu og setti fram frumvarp þvert á það sem um var rætt. Í framhaldi af því var oft reynt að ná málinu inn í sáttafarveginn en sjávarútvegsráðherra og stjórnarmeirihlutinn keyrðu málið áfram til enda.

Næst má nefna ákvörðun umhverfisráðherra vegna SV-línu í september sl. sem tafði málið þrátt fyrir ákvæði stöðugleikasáttmálans um annað. Fátt sýnir betur viðhorf ráðherrans en þegar hún svarar blaðamanni: "Þeir sem gerðu stöðugleikasáttmálann..." eins og hann sé ráðherranum óviðkomandi þrátt fyrir að hafa verið gerður í nafni ríkisstjórnarinnar. Aðfarir ráðherrans vegna skipulagsmála við Neðri-Þjórsá sýna svo hvaða hugur borinn er til orkuframkvæmda og fjárfestinga þeim tengdum.

Síðast en ekki síst má nefna uppbyggingu Starfsendurhæfingarsjóðs. Samtök atvinnulífsins og ASÍ tóku höndum saman við gerð kjarasamninga í febrúar 2008 og hófu uppbyggingu sjóðsins til að standa undir fyrirbyggjandi aðgerðum gegn óhóflegri fjölgun öryrkja. Markmiðið er að ná til fólks sem er að hrekjast út af vinnumarkaði og veita því þjónustu og úrræði til þess að halda því virku á vinnumarkaðnum. Var gert sérstakt samkomulag við þáverandi ríkisstjórn um uppbyggingu sjóðsins til þess að tryggja almenna greiðsluskyldu, aðild lífeyrissjóða og fjárframlög úr ríkissjóði. Aðilar opinbera vinnumarkaðarins gengu síðan til liðs við Starfsendurhæfingarsjóð sem jók enn umfang hans. Við gerð stöðugleikasáttmálans var samið að nýju við forystumenn ríkisstjórnarinnar að lögbinda almenna greiðsluskyldu á vinnumarkaði til sjóðsins og aðkomu lífeyrissjóða. Ennfremur var samið um hægari aðkomu ríkissjóðs en upphaflega var reiknað með í ljósi aðstæðna.

En þá gerist það enn að einstakir ráðherrar telja sig ekki bundna af málinu og þar gengur félagsmálaráðherra fram fyrir skjöldu. Hann lýsir því yfir á fundi með aðilum vinnumarkaðarins að ekki sé meirihluti á Alþingi fyrir því sem samið var um. Þannig hefur þetta einfalda en frábæra mál, uppbygging Starfsendurhæfingarsjóðs, verið tafið misseri eftir misseri og þótt forystumenn ríkisstjórnarinnar lýsi yfir góðum vilja til að standa við samninga virðist við ofurefli að etja.

Erfiðir kjarasamningar í haust

Allt þetta og meira til hefur leitt til þess að traust í garð ríkisstjórnarinnar vegna stöðugleikasáttmálans hefur þorrið. Stjórnarliðið ber ekki virðingu fyrir því að samninga þurfi að halda og forystumenn ríkisstjórnarinnar virðast ekki njóta þess trausts sem þarf.

Lærdómurinn sem Samtök atvinnulífsins draga af þessu er að ganga þarf mun fastar frá málum í næstu kjarasamningalotu sem hefst þegar sumri hallar. Í nóvember eru stóru samningarnir á almenna vinnumarkaðnum lausir og samningar á opinbera vinnumarkaðnum verða líka lausir. Samningalotan verður því flókin og erfið. Það er mjög bagalegt að leggja upp í þá vegferð án þess að traust ríki um samninga milli ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins. Það gerir alla vinnu erfiðari. Málum sem áður hefði lokið með hefðbundum yfirlýsingum verður nú að ganga frá með fyrirliggjandi frumvarpi eða jafnvel lögum fyrir undirskrift samninga.

Samtök atvinnulífsins harma þá stöðu sem upp er komin. Mikið var reynt til að halda lífi í stöðugleikasáttmálanum en þegar stjórnarmeirihlutinn greip til beinna aðgerða gegn honum var traustið endanlega farið og sáttmálinn þar með að því er Samtök atvinnulífsins varðar.

Vilhjálmur Egilsson

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins

Samtök atvinnulífsins