03. febrúar 2023

Tökum höndum saman gegn áreitni

Starfsumhverfi atvinnulífsins

Samstarf og samskipti

Starfsmannamál

Starfsumhverfi atvinnulífsins

Samstarf og samskipti

Starfsmannamál

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Tökum höndum saman gegn áreitni

Grípum til aðgerða gegn kynferðislegri áreitni

Kynferðisleg áreitni á ekki að þrífast á íslenskum vinnumarkaði. Samtök atvinnulífsins (SA) hafa haldið á lofti mikilvægi þess að atvinnulífið sé vakandi fyrir þessu og að atvinnurekendur stuðli að góðri vinnustaðamenningu á sínum vinnustað og þar með öruggu félagslegu vinnuumhverfi. SA hafa lagt áherslu á fræðslu og forvarnir ásamt því að atvinnurekendur meti og bregðist við áhættuþáttum tengdum félagslegu vinnuumhverfi til jafns við aðra áhættuþætti í vinnuverndarstarfi fyrirtækja.

Því miður sýna rannsóknir að ein af hverjum þremur konum hafa upplifað kynferðislega áreitni eða ofbeldi í sínu vinnuumhverfi. Kynferðisleg áreitni er skilgreind sem hvers kyns kynferðisleg hegðun sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu þess sem fyrir henni verður, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg. Sérhver einstaklingur verður sjálfur að meta hvaða framkomu hann umber og frá hverjum en það getur verið huglægt mat hvort framkoman telst kynferðisleg áreitni. Þar sem birtingarmyndir áreitni og ofbeldis eru margvíslegar þá getur verið erfitt fyrir stjórnendur að fá upplýsingar um áreitni á vinnustöðum.

Undanfarið ár hefur SA ásamt öðrum aðilum vinnumarkaðarins unnið með Vinnueftirlitinu að gerð fræðsluefnis og verkfærum fyrir stjórnendur og starfsfólk gegn einelti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Nú stendur Vinnueftirlitið fyrir herferð sem ber yfirskriftina „Tökum höndum saman“ þar sem vinnu­staðir eru hvattir til að gefa skýr skila­boð um að kyn­ferðis­leg á­reitni sé ekki liðin á vinnustöðum og að brugðist verði við gerist þess þörf. Lögð er áhersla á að það sé til mikils að vinna því kyn­ferðis­leg á­reitni getur valdið starfs­fólki heilsu­tjóni og haft nei­kvæð á­hrif á árangur, fram­leiðni og orð­spor vinnu­staða. Nýtt fræðsluefni og verkfæri hafa því verið þróuð með það að markmiði að styðja við vinnustaði landsins í að fyrirbygga og bregðast við kynferðislegri áreitni í vinnuumhverfinu.

Slæmt félagslegt vinnuumhverfi eykur hættu á kynferðislegri áreitni og ofbeldi en einnig aukast líkur á samskiptavanda, streitu, andlegri og líkamlegri vanheilsu, kulnun í starfi og einelti svo dæmi séu tekin. SA hafa bent á mikilvægi þess að stjórnendur og starfsfólk taki höndum saman og skapi góða vinnustaðamenningu t.d. með undirritun samskiptasáttmála þar sem fram eru dregin þau gildi sem geta minnkað hættu á að einelti, áreitni eða ofbeldi eigi sér stað á vinnustöðum.

Verkfæri sem ætlað er að styðja við bæði stjórnendur og starfsfólk í að vinna saman að heilbrigðu vinnuumhverfi og koma í veg fyrir kynferðislega áreitni eru nú aðgengileg á vef Vinnueftirlitsins. Gerð hafa verið upplýsingamyndbönd þeim til stuðnings ásamt fræðsluefni fyrir annars vegar atvinnurekendur og hins vegar starfsfólk .

SA hvetja vinnustaði landsins til að kynna sér efnið og gefa skýr skilaboð um að kynferðisleg áreitni sé ekki liðin. Sömuleiðis skilaboð um að brugðist verði við gerist þess þörf.

Nánar um aðgerðavakninguna

Auglýsingin: Tökum höndum saman : Grípum til aðgerða gegn kynferðislegri áreitni - YouTube

Tengt frétt

Tökum höndum saman gegn áreitni
Lesa meira

Samtök atvinnulífsins