Vinnumarkaður - 

06. Janúar 2005

Tíu milljónir á mann

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Tíu milljónir á mann

Munur á greiðslu lífeyris til opinberra starfsmanna og launþega á almennum vinnumarkaði er mikill. Lágmarksiðgjald launamanna og atvinnurekenda til lífeyrissjóða á almennum markaði er nú 11%, en ríkið tryggir sínum starfsmönnum fyrirfram ákveðin réttindi, sem áætlað er að 15,5% framlag í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR) standi undir. Þetta veitir opinberum starfsmönnum umtalsvert forskot.

Munur á greiðslu lífeyris til opinberra starfsmanna og launþega á almennum vinnumarkaði er mikill. Lágmarksiðgjald launamanna og atvinnurekenda til lífeyrissjóða á almennum markaði er nú 11%, en ríkið tryggir sínum starfsmönnum fyrirfram ákveðin réttindi, sem áætlað er að 15,5% framlag í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR) standi undir. Þetta veitir opinberum starfsmönnum umtalsvert forskot.

Á meðan opinber starfsmaður sem hefur töku lífeyris við 67 ára aldur að loknu 42 ára starfi fær 93,5% af meðaltals mánaðarlaunum greiddar í mánaðarlegan ellilífeyri, fær sjóðsfélagi í Lífeyrissjóði verslunarmanna aðeins 69,3% miðað við sömu forsendur. Reynist 15,5% framlag ríkis og opinberra starfsmanna í LSR ekki nóg til að standa undir skuldbind-ingum sjóðsins, eykur ríkið einfaldlega framlag sitt á meðan aðrir lífeyrissjóðir þurfa að bregða á það ráð að skerða réttindi sjóðfélaga.

Ævilíkur 67 ára einstaklings eru 84 ár að meðaltali um þessar mundir þannig að áætlað er að lífeyrisgreiðslur standi yfir í 17 ár. Þetta er þó mjög mismunandi eftir kynjum þar sem ævilíkur karla eru 82,7 ár en kvenna 85,5.


Ígildi góðs starfslokasamnings
Til að skýra þann mismun sem ríkir má taka dæmi af 250 þúsund króna mánaðarlaunum og 3,5% vöxtum, en miðað við þessar forsendur má jafna umframrétti sjóðfélaga í LSR við 10 milljóna króna starfslokagreiðslu hjá opinberum starfs-mönnum samanborið við sjóðfélaga í Lífeyrissjóði verslunarmanna - svo dæmi sé tekið af stórum og öflugum lífeyrissjóði á almennum markaði. Ef miðað er við 500 þúsund króna mánaðarlaun er umframrétturinn ígildi 20 milljóna króna starfslokagreiðslu.

Þessum umframrétti til ellilífeyris má einnig jafna við 3,6% í viðbótarframlag í lífeyrissjóð (eða laun eftir greiðslu tekjuskatts) alla starfsævina miðað við 3,5% vexti eða tæplega 6% hærri laun fyrir greiðslu tekjuskatts.

Aukið framlag atvinnurekenda
Um áramótin hækkaði iðgjald atvinnurekenda í lífeyrissjóði úr 6% í 7% samkvæmt kjarasamningum SA við flesta viðsemjendur sína og er því lágmarksiðgjald, að viðbættu 4% iðgjaldi launamanna, samtals 11%. Staða sjóðanna er almennt þannig að hækkunin gefur ekki færi á auknum réttindum í formi hærri mánaðarlegs lífeyris. Samhliða hækkun iðgjaldsgreiðslna hafa sumir lífeyrissjóðir endurskoðað réttindamyndun sjóðfélaganna þannig að eignir og skuldbindingar standist á, eins og lög um lífeyrissjóði mæla fyrir um að gera skuli. Staða sjóðanna er þó misjöfn og þar af leiðandi þurfa þeir að ganga mislangt í endurskoðun réttinda, en vegna aukinnar ævilengdar og fjölgunar öryrkja hafa skuldbindingar þeirra aukist verulega. Sjóðirnir eiga því flestir ekki annars úrkosti en að skerða þau réttindi sem hver greidd króna í sjóðina veitir til þess að jöfnuður náist á milli eigna sjóðanna og væntanlegra lífeyrisgreiðslna.

Lágmarksréttindi samkvæmt lögum
Lífeyrissjóðir, fyrir aðra en ríkisstarfsmenn, starfa samkvæmt lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Lögin skylda alla launamenn og sjálfstætt starfandi menn til þess að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði og skal lágmarksiðgjald vera 10% af heildarlaunum. Fyrir þetta iðgjald ber sjóðunum að lágmarki að bjóða ævilangan, mánaðarlegan ellilífeyri sem nemur 56% af þeim mánaðarlaunum sem greitt er af, miðað við iðgjaldagreiðslur í 40 ár. Iðgjaldagreiðslur í eitt ár skulu þannig veita rétt til 1,4% af meðaltals mánaðarlaunum í lífeyri (56% deilt með 40). Ennfremur skal lágmarkstryggingavernd fela í sér að jafnað sé milli sjóðfélaga kostnaði vegna örorku-, maka- og barnalífeyris.

Réttindi endurskoðuð
Flestir lífeyrissjóðirnir grundvalla réttindi sjóðfélaganna á stigum sem safnast saman á starfsævinni. Nokkrir sjóðir hafa þó tekið upp tengingu réttindamyndunar við aldur og eru Lífeyrissjóðurinn Lífiðn, Sameinaði lífeyrissjóðurinn og Samvinnulífeyrissjóðurinn í þeim hópi. Í stigasjóðunum er upphæð ellilífeyris ákvörðuð sem hundraðshluti af ákveðinni grundvallarfjárhæð og nemur hundraðshluti þessi samanlögðum stigafjölda, sem sjóðfélaginn hefur áunnið sér, margfölduðum með ákveðnum margföldunarstuðli, sem skv. lögum er 1,4 að lágmarki. Sumir sjóðirnir nota lágmarkið 1,4 við ákvörðun lífeyris en aðrir liggja þar fyrir ofan, yfirleitt á bilinu 1,5-1,65. Þessir margföldunarstuðlar hafa þegar komið til endurskoðunar hjá ákveðnum lífeyrissjóðum og þar sem það hefur ekki verið gert benda líkur til þess að það verði óhjákvæmilegt á næstunni.

Lífeyrisréttindi í Lífeyrissjóði verslunarmanna breyttust þannig frá 1. janúar 2005 að réttindastuðull til útreiknings ellilífeyris og örorkulífeyris var lækkaður úr 1,65 í 1,50. Breytingar voru einnig gerðar á rétti til maka- og örorkulífeyris. Á móti þessari lækkun voru áunnin stig hækkuð um 7% og lækkuðu þannig þau réttindi sem sjóðfélagar hafa þegar áunnið sér um tæplega 3%. Réttindi þeirra sem eru nú þegar á lífeyri helst óbreyttur. Á grundvelli hins nýja réttindastuðuls og hækkunar iðgjalds veita 42 ára iðgjaldagreiðslur, frá 25 til 67 ára aldurs, rétt til mánaðarlegs ellilífeyris sem nemur 69,3% af meðaltals mánaðarlaunum á starfsævinni.

Yfir 100 milljarðar á skattgreiðendur
Lífeyrisréttindi ríkisstarfsmanna eru ákveðin með lögum nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Sjóðurinn starfar í tveimur deildum, A-deild og B-deild. Allir ríkisstarfsmenn sem ráðnir hafa verið frá árinu 1997 eiga aðild að A-deild, en B-deildinni var lokað frá sama tíma. Þeir sem greiddu til sjóðsins árið 1996 eða fyrr gátu valið um það hvorri deildinni þeir tilheyrðu.

Lífeyrisréttindi skv. B-deild byggjast á dagvinnulaunum eftirmanns í starfi og er iðgjaldið 10% af þeim stofni (og vaktaálagi þar sem það á við). Samkvæmt lögunum er ekki gert ráð fyrir því að iðgjöld og ávöxtun þeirra standi undir lífeyrisgreiðslum og hefur skuldbinding af þeim sökum vaxið óðfluga á undanförnum árum. Skuldbinding vegna B-deildar nam 304 milljörðum króna í árslok 2003 og hafði hún aukist úr 135 milljörðum króna árið 1996 eða um 125%. Eignirnar námu 117 milljörðum króna í árslok 2003 þannig að skuldbindingar sem falla á ríkissjóð og aðra opinbera aðila námu þá 187 milljörðum króna. Á móti kemur að ríkissjóður hefur undanfarin ár greitt umtalsverðar fjárhæðir umfram skyldu til sjóðsins upp í þessa skuldbindingu og námu þær greiðslur samtals 61 milljarði króna á þessum tíma. Að teknu tilliti til þeirra stóð eftir skuldbinding vegna B-deildar, í árslok 2003, sem nam 126 milljörðum króna og vísað er á skattgreiðendur næstu áratuga. Þar sem um 40 þúsund manns eiga réttindi í B-deildinni þá nemur þessi skuldbinding 3 milljónum  króna á hvern þeirra að meðaltali.

Réttindi í A-deild LSR byggjast á stigum eins og í flestum lífeyrissjóðum á almennum vinnumarkaði. Sá munur er þó á að réttindin í LSR eru fyrirfram ákveðin og er iðgjald ríkisins breytilegt eftir því sem þörf krefur. Iðgjald ríkisins hefur verið 11,5% frá upphafi á móti 4% iðgjaldi launamanns og hefur það verið talið standa undir lífeyrisloforðunum. Komi í ljós að það dugi ekki til vegna aukinna ævi- eða örorkulíkna mun iðgjald ríkisins einfaldlega hækka. Réttindastuðull til útreiknings ellilífeyris og örorkulífeyris er mun hærri en í almennu lífeyrissjóðunum eða 1,9, samanborið við lágmarkið 1,4 skv. lögum og 1,5 hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna. Réttindastuðullinn er þannig 35,7% hærri en lágmarkið er skv. lögum og 26,7% hærri en stuðullinn er nú hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna. Þá hefst lífeyristaka miðað við óskertan lífeyri við 65 ára aldur hjá LSR en við 67 ára aldur í almennu lífeyrissjóðunum. Lífeyrir hækkar um 9% fyrir hvert ár sem lífeyristöku er frestað fram yfir 65 ára aldur. Starfsmaður sem hefur töku lífeyris 67 ára að loknu 42 ára starfi fær þannig 93,5% af meðaltals mánaðarlaunum sínum yfir starfsævina í mánaðarlegan ellilífeyri.

Samtök atvinnulífsins