Tími óbreyttrar vaxtastefnu er liðinn

Í erindi sínu á fundi Verslunarráðs um hvort lækka bæri vexti sagði Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, að framleiðsluspennan sem hefði verið væri ekki lengur fyrir hendi og sú verðbólga sem mælst hefði uppá síðkastið vegna hækkunar innflutningsverðs út af gengisbreytingum væri allt annars eðlis en sú eftirspurnarþensla sem við hefði verið að glíma.

Í umfjöllun um nokkur atriði sem færð hafa verið fram gegn vaxtalækkun benti hann m.a. á óáreiðanleika hagvaxtarmælinga fyrir einstaka ársfjórðunga og varaði við að of miklar ályktanir væru dregnar af mælingum uppá tæplega 8% hagvöxt á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Þá fjallaði hann um samdrátt í útlánum, í notkun greiðslumiðla og í útgáfu nýrra tímabundinna atvinnuleyfa. Loks fjallaði Ari um þróun atvinnuleysistalna og sagðist telja varlegt að spá því að mælt atvinnuleysi yrði yfir 2% í desember, eða hið hæsta síðan 1998.

Ari sagði ekkert atvinnulíf til lengdar geta staðið undir þeim vöxtum sem nú væru á Íslandi og að lækkun vaxta nú um t.d. 3 prósentustig myndi ekki breyta því að hér hægði á í efnahagslífinu og viðsnúningur yrði væntanlega ekki mjög snöggur. Hann sagði afskaplega mikilvægt að auk vaxtalækkunar kæmu til önnur atriði nú á haustmánuðum sem bættu starfsskilyrði fyrirtækja sem hér eru staðsett. Þar væru mikilvægastar þær skattalækkanir á fyrirtæki sem Samtök atvinnulífsins hafa sett á oddinn.

Lækkun vaxta myndi hins vegar ein og sér gefa trúverðugri mynd af efnahagslífinu til lengri tíma. Ari sagði erfitt að hafa trú á framtíð efnahagslífs í landi þar sem slíkri stefnu væri haldið óbreyttri þegar aðstæður krefðust þess ekki lengur. "Sú ofþensla sem kallaði á vaxtahækkanir Seðlabankans á sínum tíma er ekki lengur fyrir hendi. Tími óbreyttrar vaxtastefnu er liðinn," sagði Ari að lokum.

Sjá erindi og glærur Ara (pdf-snið):