Efnahagsmál - 

22. janúar 2008

Tími krónunnar liðinn

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Tími krónunnar liðinn

Það er hagstætt fyrir Íslendinga að taka upp evru og hægt er að gera slíkt án aðildar að ESB. Sjálfstæðum gjaldmiðli í jafn litlu landi og Íslandi fylgir umtalsverður fórnarkostnaður og ávinningur sjálfstæðrar peningastefnu er mun minni en kostnaðurinn sem henni fylgir. Upptaka evru er eðlilegt framhald af alþjóðavæðingu landsins og yki milliríkjaviðskipti, samkeppni og stöðugleika. Peningalegt sjálfstæði þjóðarinnar með íslensku krónuna er hins vegar skynvilla þar sem sveiflur koma að mestu að utan. Þetta kom fram á umræðufundi SA um gjaldmiðilsmál sem fram fór fimmtudaginn 17. janúar á Hótel Loftleiðum. Frummælendur voru Daniel Gros, framkvæmdastjóri Center for European Policy Studies, Arnór Sighvatsson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings og Guðmundur Magnússon, prófessor emeritus og fyrrverandi rektor Háskóla Íslands. Kynningar frummælenda má nú nálgast á vef Samtaka atvinnulífsins.

Það er hagstætt fyrir Íslendinga að taka upp evru og hægt er að gera slíkt án aðildar að ESB. Sjálfstæðum gjaldmiðli í jafn litlu landi og Íslandi fylgir umtalsverður fórnarkostnaður og ávinningur sjálfstæðrar peningastefnu er mun minni en kostnaðurinn sem henni fylgir. Upptaka evru er eðlilegt framhald af alþjóðavæðingu landsins og yki milliríkjaviðskipti, samkeppni og stöðugleika. Peningalegt sjálfstæði þjóðarinnar með íslensku krónuna er hins vegar skynvilla þar sem sveiflur koma að mestu að utan. Þetta kom fram á umræðufundi SA um gjaldmiðilsmál sem fram fór fimmtudaginn 17. janúar á Hótel Loftleiðum. Frummælendur voru Daniel Gros, framkvæmdastjóri Center for European Policy Studies, Arnór Sighvatsson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings og Guðmundur Magnússon, prófessor emeritus og fyrrverandi rektor Háskóla Íslands. Kynningar frummælenda má nú nálgast á vef Samtaka atvinnulífsins.

Hagstætt að taka upp evru

Fyrstur til máls tók Daniel Gros en í erindi hans kom m.a. fram að á þeim sex árum sem liðin eru frá því evran tók við sem sameiginleg mynt ESB landa hafi reynslan verið jákvæð fyrir aðildarlönd Efnahags- og myntbandalagsins (EMU). Evran hafi staðist vel alþjóðlegar sveiflur og lítil áföll verið innan evru-svæðisins. Einhliða upptaka Svartfjallalands á evru hafi tekist vel þó svo að stofnanir ESB hafi í byrjun verið henni mjög mótfallnar. Gros benti þó á að aðstæður á Íslandi væru með allt öðrum hætti og benti á tvennt sem aðgreindi Ísland frá flestum evru-löndum. Hér væri tiltölulega lokað hagkerfi og þátttaka Íslands í alþjóðlegu fjármálakerfi væri mikil. Af þessu tvennu leiddi að hagstætt væri fyrir Íslendinga að taka upp evru. Það myndi auka milliríkjaviðskipti, en með hliðsjón af smæð Íslands ættu utanríkisviðskipti að vera mun hærra hlutfall af landsframleiðslu. Jafnframt væri upptaka evru til þess fallin að auka stöðugleika. Ekki væri hægt að útiloka að einhliða upptaka evru væri fær á Íslandi.  

Daniel Gros

Núverandi fyrirkomulag verði bætt

Arnór Sighvatsson fór í ítarlegu máli yfir umræður og röksemdafærslu varðandi val á gjaldmiðlasvæðum og gengisfyrirkomulagi. Tilgreindi hann hina ýmsu fræðilegu kosti sem til staðar væru. Að hans mati væru þó raunhæfir kostir í peninga- og gjaldeyrismálum aðeins tveir þ.e. endurbætur á núverandi fyrirkomulagi eða upptaka evru með aðild að ESB og EMU. Þar sem litlar líkur væru á aðild að ESB í bráð, væri mikilvægt að bæta núverandi fyrirkomulag eftir því sem kostur væri. Arnór sagði þó jafnframt  að sjálfstæðum gjaldmiðli í jafn litlu landi og Íslandi fylgi umtalsverður fórnarkostnaður og þurfi sterk rök til þess halda því fyrirkomulagi ef annarra kosta er völ.

Minnsta myntsvæði í heimi óhagkvæmt

Í erindi sínu sagði Ásgeir Jónsson að Íslendingar ættu að hætta að hugsa í gengisvísitölu eða dollurum, og hugsa heldur í evrum. Krónan væri eins konar smástirni í kringum evruna. Hlutdeild evru í viðskiptum Íslendinga hefði farið stöðugt vaxandi á undanförnum árum og gengissveiflur krónu gagnvart evru væru minni en margir virtust ætla. Oft væri talað illa um krónuna, en hún hefði þó að mestu verið að styrkjast, einkum vegna vaxtamunarviðskipta og hefði dýpt og virkni gjaldeyrismarkaðar í krónum farið vaxandi. Staðan væri í rauninni sú að á Íslandi væri minnsta myntsvæði í heimi sem liggi að stærsta myntsvæði í heimi. Upptaka evru væri því augljós kostur fyrir Íslendinga. Einhliða upptaka evru væri vel möguleg og myndi ekki fela í sér álitshnekki fyrir hagstjórn Íslendinga.

Ásgeir komst í erindi sínu að þeim niðurstöðum að efnahagsleg rök mæli með því fyrir Ísland að ganga í EMU. Slíkt væri eðlilegt framhald af alþjóðavæðingu landsins, enda skrýtið að vera minnsta myntsvæði í heimi við hlið þess stærsta. Upptaka evru væri þó ekki lausn á skammtíma hagstjórnarvanda. Við upptöku evru myndi reyna á að tryggja jafnvægi í þjóðarbúskapnum og líklega yrði Íbúðalánasjóður gjaldþrota yrði ekkert að gert. Stjórnvöld eigi jafnframt að gera fyrirtækjum auðvelt fyrir að lifa í nálægð við evruna og ættu alls ekki að standa í vegi fyrirtækja sem vilja gera upp í evrum.  

Frummælendur á gjaldmiðilsfundi 

Peningalegt sjálfstæði skynvilla

Guðmundur Magnússon fjallaði í erindi sínu m.a. um flökt gjaldmiðla. Sagði hann að á árunum 2001-2007 hefði flökt gjaldmiðla gagnvart evru verið með þeim hætti að flökt stærri gjaldmiðla (GBP, USD) hafi verið meira en hinna smærri (NOK, SKR, DKR). Flökt íslensku krónunnar hafi þó verið mest miðað við þessa gjaldmiðla. Hér á landi hafi vaxtamunur við útlönd verið afar mikill og sveiflukenndur eða á bilinu 3 - 11% á árunum 1998-2007. Frá 2005 hafi skammtímavaxtamunur auk þess verið mjög ólíkur og langtum hærri en langtíma vaxtamunur. Benti hann á að evrópskum smáríkjum hafi vegnað vel bæði innan ESB (Lúxemborg, Írland, Finnland) og utan þess (Noregur, Ísland). Sama gildir ef litið er til þess hvort ríki eru innan eða utan EMU. Sagði Guðmundur ennfremur að peningalegt sjálfstæði smáríkja í hnattvæddum heimi væri  skynvilla og benti á Belgíu, Finnland, Írland, Noreg, Svíþjóð og Sviss í því sambandi. Sveiflurnar komi að mestu utan frá.

Liður í umræðu um stöðu Íslands

Fundur SA um gjaldmiðilsmál er liður í umræðu Samtaka atvinnulífsins og aðildarfélaga þeirra um stöðu krónunnar sem gjaldmiðils en innan stjórnarinnar hafa verið sterkar raddir um að æskilegt sé að Íslendingar taki upp evru sem gjaldmiðil. Um þetta hefur hins vegar ekki verið samstaða innan samtakanna og þau því ekki sett það fram sem stefnu sína. Í byrjun október beindi stjórn SA því hins vegar til allra aðildarsamtakanna að taka gjaldmiðilsmálið til umfjöllunar. Kannað yrði hvort þær breytingar sem hafa orðið á íslensku atvinnulífi og efnahagslífi leiði til endurmats á því hvort einstakar atvinnugreinar telji sér betur borgið með öðrum gjaldmiðli en íslensku krónunni.

Fimmtudaginn 31. janúar efna SA til umræðufundar um Ísland og ESB

Sjá nánar kynningar frummælanda:

Daniel Gros (PDF)

Arnór Sighvatsson (PPT)

Ásgeir Jónsson (PPT)

Guðmundur Magnússon (PPT)

Samtök atvinnulífsins