Efnahagsmál - 

11. September 2002

Tímasetningin góð, en áskorun fyrir hagstjórn

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Tímasetningin góð, en áskorun fyrir hagstjórn

Á fundi SA um stöðugleika og stóriðjuframkvæmdir kom fram það sameiginlega mat fundarmanna að lítill hagvöxtur væri framundan á næstu árum ef ekki kæmi til stóriðjuframkvæmda. Ekki væri því veruleg hætta á ofþenslu vegna fyrirhugaðra framkvæmda, að því tilskildu að gripið yrði til tiltækra mótvægisaðgerða í opinberri hagstjórn. Stærð framkvæmdanna væri slík að ella væri hætta á óæskilegum "ruðningsáhrifum". Fram kom að atvinnuleysi væri vaxandi og yrði að óbreyttu rúm 3% á næsta ári að mati SA, að sveigjanleiki íslensks vinnumarkaðar væri oft vanmetinn, að nauðsynlegt væri að sýna ítrasta aðhald í fjármálum hins opinbera meðan á framkvæmdunum stæði og að vextir yrðu líklega tímabundið hærri en ella, jafnvel um sem næmi meira en 2,5% ef ekki kæmu til aðrar mótvægisaðgerðir.

Á fundi SA um stöðugleika og stóriðjuframkvæmdir kom fram það sameiginlega mat fundarmanna að lítill hagvöxtur væri framundan á næstu árum ef ekki kæmi til stóriðjuframkvæmda. Ekki væri því veruleg hætta á ofþenslu vegna fyrirhugaðra framkvæmda, að því tilskildu að gripið yrði til tiltækra mótvægisaðgerða í opinberri hagstjórn. Stærð framkvæmdanna væri slík að ella væri  hætta á óæskilegum "ruðningsáhrifum". Fram kom að atvinnuleysi væri vaxandi og yrði að óbreyttu rúm 3% á næsta ári að mati SA, að sveigjanleiki íslensks vinnumarkaðar væri oft vanmetinn, að nauðsynlegt væri að sýna ítrasta aðhald í fjármálum hins opinbera meðan á framkvæmdunum stæði og að vextir yrðu líklega tímabundið hærri en ella, jafnvel um sem næmi meira en 2,5% ef ekki kæmu til aðrar mótvægisaðgerðir.

"Stöðugleiki og stóriðjuframkvæmdir - er hætta á ofþenslu?" var yfirskrift morgunverðarfundar Samtaka atvinnulífsins. Var það sameiginlegt mat fundarmanna að lítill hagvöxtur væri framundan á næstu árum ef ekki kæmi til stóriðjuframkvæmda, en endanlegar ákvarðanir þess efnis liggja sem kunnugt er ekki fyrir. Það var ennfremur mat manna að slaki væri nú í hagkerfinu og því ekki veruleg hætta á ofþenslu við hugsanlegar framkvæmdir vegna Alcoa og stækkunar Norðuráls, að því tilskildu að gripið yrði til mótvægisaðgerða í opinberri hagstjórn. Stærð framkvæmdanna væri þó slík að hætta væri á óæskilegum "ruðningsáhrifum" og nauðsynlegt að grípa til tiltækra mótvægisaðgerða. Erindi fluttu þeir Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Bolli Þór Bollason, skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins og Þórarinn G. Pétursson, deildarstjóri á hagfræðisviði Seðlabanka Íslands.

Slaki í hagkerfinu
Í erindi sínu fjallaði Ari Edwald um stöðu efnahagsmála og sagði hann Samtök atvinnulífsins telja framleiðsluslaka að myndast í hagkerfinu og að hann færi vaxandi. Ari fjallaði m.a. um gríðarlega miklar skuldir heimilanna og að skýringar mætti að hluta rekja til stefnu hins opinbera, t.d. til lánareglna Íbúðalánasjóðs og til vaxtabótakerfisins. Stjórnvöld hlytu að velta fyrir sér þeim hvata til skuldsetningar sem þau stæðu fyrir. Þá hefðu skuldir fyrirtækja nánast þrefaldast að nafnvirði frá árinu 1995 og væru nú um 130% af landsframleiðslu. Erfitt væri því að sjá rökin fyrir þeim háu stýrivöxtum sem nú væru hérlendis, og sagði hann þá um 2% of háa. Þá fjallaði Ari um aukið atvinnuleysi og fækkun á vinnumarkaði. Hann sagði SA spá því að atvinnuleysi yrði rúm 3% á næsta ári, ef ekki kæmi til umræddra stóriðjuframkvæmda eða aðrar verulegar breytingar yrðu í efnahagslífinu. Ari fjallaði loks um aukið hlutfall erlends starfsfólks á síðasta þensluskeiði, miklar sveiflur í atvinnuþátttöku landsmanna og að sveigjanleiki íslensks vinnumarkaðar væri gjarnan vanmetinn. Erlent starfsfólk hefði gegnt mun stærra hlutverki á undanförnum árum en í uppsveiflunni 1987-8. Ella hefðu neikvæð áhrif þenslunnar orðið mun meiri hér.

Mikilvægi aðhalds í opinberum rekstri
Í ljósi þessa sagði Ari fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir koma á að mörgu leyti mjög góðum tíma fyrir íslenskt efnahagslíf. Ekki yrði þó horft framhjá gríðarlegu umfangi framkvæmdanna, sem yrði gróflega áætlað um 80 milljarðar á mesta framkvæmdaárinu. Þess vegna væri hætta á ruðningsáhrifum af framkvæmdunum í formi hærri vaxta, hærri launa og hærra gengis krónunnar. Ari minnti á að SA teldu vexti of háa, og þeir hefðu nú þegar veruleg ruðningsáhrif í för með sér. Hann lagði jafnframt mikla áherslu á að ríki og sveitarfélög yrðu að halda aftur af sínum útgjöldum á framkvæmdatímanum. Samneyslan hefði aukist mikið á undanförnum árum, en hún er nú um 24% af landsframleiðslu. Ari sagði loks að tímasetningin væri að mörgu leyti góð fyrir þessar framkvæmdir, en áskorunin mikil fyrir hagstjórn að öðru leyti.

Meginþunginn á peningastefnunni
Bolli Þór Bollason sagði ýmsa óvissuþætti til staðar, svo sem um framkvæmdahraða og fjármögnun verkefnanna. Hann fjallaði m.a. um samdrátt í þjóðarútgjöldum, minnkandi viðskiptahalla, aukið atvinnuleysi og lægri verðbólgu. Bolli sagði ýmis merki um hægfara efnahagsbata og ekki útlit fyrir kröftugan hagvöxt á næstunni. Hann sagði mikilvægt að fylgja aðhaldssamri efnahagsstefnu á öllum sviðum en að meginþunginn hvíldi á peningastefnunni. Mikilvægt væri einnig að beita ítrasta aðhaldi í ríkisfjármálum, þótt þar væri takmarkaðra svigrúm til aðgerða sem horfðu til skamms tíma. Fresta yrði vinnuaflsfrekum verkefnum og skapa rými fyrir stóriðjuframkvæmdir með samdrætti á öðrum sviðum. Hann sagði mikilvægt að greiða niður erlendar skuldir til að sporna gegn of mikilli hækkun gengis krónunnar, að framkvæmdunum yrði dreift yfir eins langt tímabil og hægt væri og að sveigjanleiki yrði tryggður hvað varðar aðgang erlends vinnuafls að íslenskum vinnumarkaði. Með þessu móti væri hægt að hamla gegn ofþenslu með tilheyrandi verðbólgu og vaxtahækkunum og koma þannig í veg fyrir óheppileg áhrif á stöðu annarra atvinnugreina.

Vextir tímabundið hærri en ella
Þórarinn G. Pétursson sagði Seðlabankann að óbreyttu greina frá nýju mati sínu á mögulegum viðbrögðum peningastefnu við stóriðjuframkvæmdum í nóvemberhefti Peningamála. Á grundvelli eldra mats sagði hann þó líkur til að framkvæmdirnar hefðu þau áhrif að stýrivextir hækkuðu tímabundið um 2-2,5%, að því tilskyldu að aðrar mótvægisaðgerðir kæmu ekki til. Sambærileg tala gæti orðið hærri í nýju mati, í ljósi aukins umfangs framkvæmdanna miðað við breyttar forsendur. Þarna er þó sem fyrr segir miðað við að ekki komi til annarra mótvægisaðgerða. Þórarinn sagði ýmsa óvissuþætti til staðar varðandi viðbrögð peningastefnunnar. Viðbrögðin yrðu þó líklega á þá leið að vextir yrðu tímabundið hærri en ella. Það þyrfti hins vegar hvorki að þýða að vextir ættu eftir að hækka, né að koma í veg fyrir áframhaldandi lækkunarferli nú.

Glærur Ara Edwald

Glærur Bolla Þórs Bollasonar

Glærur Þorsteins G. Péturssonar

Samtök atvinnulífsins