1 MIN
Tímabært að lækka vexti
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, segir í samtali við fréttavef Viðskiptablaðsins löngu tímabært að lækka stýrivexti Seðlabankans. Enginn rekstur standi undir 12% stýrivöxtum. Hann segir rök Seðlabankans fyrir háum stýrivöxtum haldi ekki þar sem sú verðbólga sem Íslendingar upplifi nú skapist ekki af umframeftirspurn og þenslu eða kostnaðarhækkunum innanlands. Hún stafi fyrst og fremst af aðlögun að lágu gengi krónunnar.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, segir í samtali við fréttavef Viðskiptablaðsins löngu tímabært að lækka stýrivexti Seðlabankans. Enginn rekstur standi undir 12% stýrivöxtum. Hann segir rök Seðlabankans fyrir háum stýrivöxtum haldi ekki þar sem sú verðbólga sem Íslendingar upplifi nú skapist ekki af umframeftirspurn og þenslu eða kostnaðarhækkunum innanlands. Hún stafi fyrst og fremst af aðlögun að lágu gengi krónunnar.
Í frétt vb.is segist Vilhjálmur ekki bjartsýnn á að Seðlabankinn lækki vexti sína en næsta ákvörðun peningastefnunefndar um vexti verður 13. ágúst næstkomandi. Vilhjálmur segir Seðlabankann hafa verið á villigötum og ekki sé útlit fyrir að það sé að breytast.
Vilhjálmur segir fyrirtæki ekki taka lán þeim lánskjörum sem bjóðist og haldi að sér höndum í fjárfestingum. Bankarnir séu með fullar hendur fjár sem enginn vilji taka að láni. "Það er ekkert óeðlilegt að vextir yrðu eitthvað í námunda við það sem er á evrusvæðinu. Þegar þeir eru orðnir meiri en sem nemur um 3-4% umfram það sem ríkir á evrusvæðinu eru þeir orðnir allt of háir."
"Þetta snýst um samkeppnishæfni. Þó gengið sé mjög lágt og útflutningsgreinar mjög samkeppnishæfar í verði, þá eru menn líka að keppa um aðgang að fjármagni og vexti," segir Vilhjálmur á vb.is.
Aðspurður um endurreisn atvinnulífsins á Íslandi segir Vilhjálmur: "Annars hefur sú uppstokkun og endurskipulagning á fyrirtækjum sem blasað hefur við alveg frá hruninu í haust að þörf væri á, ekki enn átt sér stað nema í litlu mæli. Sú vinna er að miklu leyti eftir. Það er bara vonandi að sú vinna geti farið fram án þess að það verði allt of mikil röskun þannig að störf tapist ekki."