Efnahagsmál - 

06. desember 2001

Tilraunarinnar virði

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Tilraunarinnar virði

Við upphaf síðustu heildarsamninga á almennum vinnumarkaði stóðu samningsaðilar frammi fyrir því að ólíklegt væri að kaupmáttur gæti haldið áfram að vaxa með viðlíka hætti og verið hafði árin á undan frá 1995. Framan af var slaki í efnahagslífinu, en vorið 2000 var verðbólga farin að láta á sér kræla. Samanburður og ólga vegna launaþróunar ýmissa hópa opinberra starfsmanna, sérstaklega frá árinu 1998, skapaði þó mikla erfiðleika við það að ná niður væntingum um prósentubreytingar launa.

Við upphaf síðustu heildarsamninga á almennum vinnumarkaði stóðu samningsaðilar frammi fyrir því að ólíklegt væri að kaupmáttur gæti haldið áfram að vaxa með viðlíka hætti og verið hafði árin á undan frá 1995. Framan af var slaki í efnahagslífinu, en vorið 2000 var verðbólga farin að láta á sér kræla. Samanburður og ólga vegna launaþróunar ýmissa hópa opinberra starfsmanna, sérstaklega frá árinu 1998,  skapaði þó mikla erfiðleika við það að ná niður væntingum um prósentubreytingar launa.

Niðurstaðan varð þó samningar um það sem menn töldu vera hóflegar launabreytingar, þar sem árleg kostnaðarhækkun vinnuveitenda færi lækkandi er liði á samningstímann. Launahækkun upp á 3% árlega seinni ár samningsins er þó enn miklu meiri hækkun heldur en í samkeppnislöndum okkar, enda bætist við þá tölu 1-2% launaskrið og hækkun annarra liða á borð við mótframlag í lífeyrissjóð.  Árleg heildarkostnaðarbreyting fyrirtækja í OECD löndum er innan við 3% að meðaltali, þegar allt er talið með.

Lykillinn að þessari samningsniðurstöðu var að uppbygging samningsins væri þannig að lægri laun myndu hækka meira en þau hærri og að samningurinn hvíldi á þeirri forsendu að verðbólga færi lækkandi á samningstímanum. Vegna reynslunnar af launaþróun hjá hinu opinbera reyndist einnig nauðsynlegt til að ná samningum að setja varnagla gagnvart því að aðrir stórir hópar sæktu sér meiri kostnaðarhækkanir í sínum samningum. Byggja flestir samningar á því að fjögurra manna nefnd ASÍ  og SA meti í febrúar ár hvert hvort forsendur hafi staðist varðandi verðlagsþróun og samninga annarra. Standist samningsforsendur ekki er launaliður samninganna uppsegjanlegur með þriggja mánaða fyrirvara.

Því má halda fram að SA hafi tekið mikla áhættu með þeirri uppbyggingu samninga sem varð fyrir valinu. Fallist var á mjög miklar kostnaðarhækkanir á fyrsta samningsárinu í trausti þess að samningarnir myndu gilda um óvenju langan tíma og meðalkostnaður gæti því verið viðunandi. Ef samningunum hefði verið sagt upp eftir eitt ár hefði verið um mjög dýra samninga að ræða. Árleg janúarhækkun kemur líka til framkvæmda þótt launalið yrði sagt upp í febrúar á eftir og hann þar með í gildi í aðeins hálft ár til viðbótar í stað eins, þótt samningar um viðbrögð kæmust kannski ekki praktískt á skrið fyrr en með haustinu. Þetta sýnir að vinnuveitendur hafa verið tilbúnir til að leggja mikið af mörkum til að freista þess að samningar eigi þátt í að leggja drög að áframhaldandi stöðugleika í efnahagslífinu. Ekkert annað skapar betri forsendur fyrir aukinni framleiðni og raunverulegum lífskjarabótum. Slíkar niðurstöður nást ekki nema samningsaðilar séu báðir tilbúnir til að skulbinda sig gagnvart sameiginlegum markmiðum í þá veru, eins og raunin varð í kjarasamningunum vorið 2000.

Nú stöndum við frammi fyrir því að verðbólga ógnar gildi kjarasamninga í framhaldi af gengisfalli krónunnar, sem er orðið meira en nokkur hefur spáð fyrir um, og flestir telja að sé meira en efnahagsleg rök eru fyrir. Margt bendir því til að um tímabundið ástand sé að ræða. Slíkt tímabundið ástand getur þó hæglega leitt til stórfelldra vandræða ef rangt er brugðist við.

Að sumu leyti mætti ætla að auðveldara sé að glíma við neikvæð áhrif verðbólgu á lífskjör almennings heldur en samanburð og óánægju vegna misgengis í kjaraþróun tiltekinna hópa, því verðbólgan fer ekki í manngreinarálit og kemur niður á öllum. Því hlýtur að skipta miklu máli við skoðun samninga á almennum vinnumarkaði að horfa til þess hvernig markmið samninganna hafa staðist áhlaup verðbólgunnar.

Ítarleg skoðun á gögnum Kjarararannsóknarnefndar, sem fjallað er um í þessu fréttabréfi sýnir að markmið síðustu kjarasamninga hafa haldið betur í verðbólgu undangenginna mánuða en margir óttuðust. Lægri laun hafa hækkað meira en þau hærri, þó kaupmáttur hafi raunar einnig vaxið að jafnaði. Það hlýtur að benda til þess að það sé tilraunarinnar virði að treysta undirstöður þessara samninga og forða því að uppúr slitni með hörmulegum afleiðingum fyrir alla.

Ari Edwald.

Samtök atvinnulífsins