Samkeppnishæfni - 

03. október 2012

Tillögur SA að breytingum á samkeppnislögunum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Tillögur SA að breytingum á samkeppnislögunum

Í dag kom út nýtt rit SA þar sem farið er yfir stöðu samkeppnismála á Íslandi og lagðar fram tillögur að því sem betur má fara en aðildarfyrirtæki SA, bæði stór og smá, hafa kvartað yfir því að samkeppnislöggjöfin sé bæði flókin og óljós og erfitt sé að fá leiðbeiningar frá Samkeppniseftirlitinu um hvernig þau geti metið hvort þau teljist í svokallaðri markaðsráðandi stöðu. Einnig benda fyrirtækin á að erfitt sé að fá leiðbeinandi upplýsingar um hvernig þeim beri að haga markaðsstarfi þannig að það samrýmist stöðu þeirra og hvernig samkeppnisyfirvöld skilgreina einstaka markaði en það hefur lykilþýðingu fyrir fyrirtækin.

Í dag kom út nýtt rit SA þar sem farið er yfir stöðu samkeppnismála á Íslandi og lagðar fram tillögur að því sem betur má fara en aðildarfyrirtæki SA, bæði stór og smá, hafa kvartað yfir því að samkeppnislöggjöfin sé bæði flókin og óljós og erfitt sé að fá leiðbeiningar frá Samkeppniseftirlitinu um hvernig þau geti metið hvort þau teljist í svokallaðri markaðsráðandi stöðu. Einnig benda fyrirtækin á að erfitt sé að fá leiðbeinandi upplýsingar um hvernig þeim beri að haga markaðsstarfi þannig að það samrýmist stöðu þeirra og hvernig samkeppnisyfirvöld skilgreina einstaka markaði en það hefur lykilþýðingu fyrir fyrirtækin.

Óskað eftir viðræðum
Tillögur SA eru hógværar og miða að því að samkeppnislög og framkvæmd þeirra verði sambærileg og í samkeppnisríkjum Íslands. Tillögurnar voru kynntar á opnum fundi SA í morgun þar sem Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins flutti erindi og tók m.a. þátt í umræðum. Pétur Reimarsson, forstöðumaður hjá SA kynnti tillögur samtakanna og má nálgast glærukynningu hans hér að neðan ásamt glærukynningu Páls.

Í kjölfar fundarins munu SA óska eftir viðræðum við stjórnvöld um breytingar á samkeppnislögunum og fylgja tillögunum eftir.

Fundur SA um samkeppnismálin var mjög vel sóttur.
Samkeppnisreglur mikilvægar fyrirtækjum

Rétt er að árétta að samstaða ríkir í atvinnulífinu um mikilvægi samkeppnisreglna til að tryggja virka og heilbrigða samkeppni á markaði og koma í veg fyrir ólögmætt samráð, misnotkun á markaðsráðandi stöðu og mismunun á markaði t.d. vegna opinberra afskipta. Hins vegar getur það ekki verið hlutverk samkeppnisyfirvalda að stýra uppbyggingu atvinnulífsins og hamla hagræðingu og aukinni framleiðni. Hafa verður í huga að vegna smæðar íslensks atvinnulífs er fákeppni algengari en á mörkuðum stærri ríkja og því verður að haga reglum og beitingu þeirra þannig að ekki verði dregið óhóflega úr hagkvæmni og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.

Það er hagur allra þátttakenda í atvinnulífinu að leikreglur séu skýrar, sanngjarnar og að eftir þeim sé farið.

Samkeppnismálin í betri farveg
Tillögur SA má nálgast hér að neðan ásamt riti SA um samkeppnismál í heild. Samtök atvinnulífsins óska eftir auknu samstarfi við Samkeppniseftirlitið og telja mikilvægt að samkeppnismálunum verði komið í betri farveg með reglulegu samráði, skoðanaskiptum og upplýsingamiðlun. Samkeppniseftirlitið hlýtur að fagna því að heyra viðhorf atvinnulífsins en aðild að Samtökum atvinnulífsins eiga um um 2.000 smá og stór fyrirtæki í fjölmörgum atvinnugreinum þar sem starfa u.þ.b. 50.000 starfsmenn eða um helmingur launamanna á almennum vinnumarkaði á Íslandi.

Innan SA er að finna allt frá einyrkjum til stærstu fyrirtækja landsins en flest aðildarfyrirtæki SA, rúmur helmingur, eru með 1-10 starfsmenn í vinnu. Samtök atvinnulífsins tala máli allra fyrirtækja.

TILLÖGUR SAMTAKA ATVINNULÍFSINS

  • Píluspjald

    Bætt verði í samkeppnislögin ákvæði sem skyldar Samkeppniseftirlitið til að gefa reglulega út almennar leiðbeiningar um markaði, mat á stöðu á markaði og hvað fyrirtæki í markaðsráðandi stöðu beri að varast. (Sjá kafla 4.1.)

  • Fjárhæðamörk vegna samruna verði hækkuð þannig að heildarvelta fyrirtækjanna sem að samrunanum standa verði að lágmarki fjórir milljarðar króna í stað tveggja nú og að ársvelta einstakra fyrirtækja verði að lágmarki 400 milljónir króna. (Sjá kafla 4.2.)

  • Heimild samkeppnisyfirvalda til breytinga á skipulagi fyrirtækja verði takmörkuð sem allra fyrst og háð því að um brot á bannákvæðum samkeppnislaga hafi verið að ræða. Ákvæði samkeppnislaganna verði færð í það horf sem var á árunum 2005 -2011 og verði í samræmi við lagaákvæði í nálægum löndum. (Sjá kafla 4.3.)

  • Fellt verði brott úr samkeppnislögum ákvæði sem heimilar Samkeppniseftirlitinu að taka samrunamál upp að nýju hafi áfrýjunarnefnd eða dómstólar fellt ákvörðun um bann við samruna úr gildi vegna formgalla. Slíkt ákvæði er ekki að finna í lögum nágrannalandanna. (Sjá kafla 4.4.)

  • Lagaákvæði um að Samkeppniseftirlitinu sé heimilt að skjóta úrskurðum áfrýjunarnefndar samkeppnismála til dómstóla verði fellt úr gildi. (Sjá kafla 4.4.)

  • Sett verði sérstök ákvæði í samkeppnislögin sem færa heimildir samkeppnisyfirvalda til að leggja hald á gögn í sambærilegt horf og gildir í Danmörku. Meginreglan verði sú að lagt sé hald á afrit gagna en ekki frumrit. Settar verði reglur um vettvangsrannsóknir. (Sjá kafla 4.5.)

  • Samkeppniseftirlitið leggi áherslu á mál sem tengjast misnotkun á markaðsráðandi stöðu og samráði ásamt afskiptum af opinberum rekstri. Það er nauðsynlegt að stytta þann tíma sem rannsókn mála tekur. Það má m.a. gera með því að hækka fjárhæðamörk samruna. (Sjá kafla 5.1.)

  • Samstarf verði aukið milli samtaka í atvinnulífinu og Samkeppniseftirlitsins t.d. með reglulegu samráði, skoðanaskiptum og upplýsingamiðlun. (Sjá kafla 5.1.)

  • Samkeppniseftirlitið fari afar varlega í beitingu lagaákvæðis um að breyta skipulagi eða uppbyggingu fyrirtækja. Varað er við því að gengið verði hart fram gegn fyrirtækjum sem ekki hafa brotið samkeppnislög. (Sjá kafla 5.3.)

  • Skipuð verði nefnd stjórnvalda og fulltrúa atvinnulífsins þar sem stefnt verði að sameiginlegri niðurstöðu um breytingar á samkeppnislögunum þannig að þau samræmist betur löggjöf í nálægum ríkjum.

Sjá nánar:


Viðhorf atvinnulífsins. Samkeppnislögin og framkvæmd þeirra (PDF)

Glærukynning Péturs Reimarssonar (PDF)

Glærukynning Páls Gunnars Pálssonar (PDF)

Formaður SA: Samkeppnisreglur eru mikilvægar

Tengt efni:

Umfjöllun VB - Sjónvarps um fundinn

Samtök atvinnulífsins