Til hamingju með daginn

Samtök atvinnulífsins óska Íslendingum til hamingju með daginn en í dag, 19. júní, eru 100 ár frá því konur öðluðust kosningarétt. Þetta er merkur áfangi í sögu þjóðarinnar og rétt að minnast hans en í dag verður boðið upp á fjölbreytta hátíðardagskrá út um land allt. Það er mikilvægt að karlar og konur hafi jöfn tækifæri því það er lykill að betra þjóðfélagi og lífskjörum. 

Konur sem börðust fyrir jafnrétti kynjanna fyrir rúmri öld áttuðu sig á þessu eins og kom glöggt fram í hátíðarræðu Bríetar Bjarnhéðinsdóttur á Austurvelli 7. júlí 1915.

„Vér heilsum glaðar framtíðinni, þar sem karlar og konur vinna í bróðerni saman að öllum landsmálum, bæði á heimilunum og á alþingi.“

Fyrir einni öld staðfesti konungur lög frá Alþingi sem færðu um 12.000 íslenskum konum, sem voru 40 ára og eldri, kosningarétt. Lögin færðu einnig kosningarétt um 1.500 vinnumönnum, sem voru 40 ára og eldri,  og líka um 1.000 karlmönnum sem áður höfðu ekki haft réttinn vegna skilyrða um útsvarsgreiðslu.

Samtök atvinnulífsins leggja ríka áherslu á jafnrétti kynjanna og samfélagsábyrgð í atvinnulífinu. SA hafa t.d. beitt sér fyrir því að kynjahlutföll í stjórnum lífeyrissjóða hafa verið jöfnuð og samtökin tóku þátt í samstarfi heildarsamtaka launafólks, atvinnurekenda og stjórnvalda um innleiðingu jafnlaunastaðals á vinnumarkaði. Markmið jafnlaunastaðalsins er að auka gagnsæi og gæði í launaákvörðunum og auðvelda atvinnurekendum að viðhalda launajafnrétti kynja á vinnustað sínum. Um er að ræða framtak sem er einstakt á heimsvísu. Samtök atvinnulífsins eru einnig tengiliður á Íslandi við Global Compact – sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð en þar skipa jafnréttismál mikilvægan sess.

Samtök atvinnulífsins munu gefa starfsfólki sínu frí eftir hádegi í dag til að fagna 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Skrifstofu samtakanna verður því lokað kl. 12 en svarað verður í síma og brugðist við áríðandi erindum. Það sama á við um önnur félagasamtök í Húsi atvinnulífsins og fjölda fyrirtækja sem veita starfsfólki sínu tækifæri til að minnast þessara merku tímamóta í dag eftir því sem aðstæður fyrirtækjanna leyfa. Gleðilega hátíð.

Sjá nánar:

Vefur 100 ára kosningaréttar kvenna á Íslandi