Samkeppnishæfni - 

30. nóvember 2009

Tíðindi af loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Tíðindi af loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn

Næstkomandi mánudag hefst í Kaupmannahöfn loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna. Samtök atvinnulífsins munu eiga fulltrúa á ráðstefnunni, Pétur Reimarsson forstöðumann hjá SA, sem hefur fylgst náið með samningaviðræðum á sviði loftslagsmála undanfarin ár. Á vef SA verður greint frá því helsta sem gerist í Kaupmannahöfn auk þess sem gerð verður grein fyrir niðurstöðum ráðstefnunnar. Í þessari viku birtir Pétur daglega pistla um hvað loftslagsmálin snúast og af hverju þjóðir eigi erfitt með að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Einnig fjallar hann um þá íslensku hagsmuni sem eru í húfi og greinir frá viðhorfi atvinnulífsins til samningaviðræðnanna.

Næstkomandi mánudag hefst í Kaupmannahöfn loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna. Samtök atvinnulífsins munu eiga fulltrúa á ráðstefnunni, Pétur Reimarsson forstöðumann hjá SA, sem hefur fylgst náið með samningaviðræðum á sviði loftslagsmála undanfarin ár. Á vef SA verður greint frá því helsta sem gerist í Kaupmannahöfn auk þess sem gerð verður grein fyrir niðurstöðum ráðstefnunnar. Í þessari viku birtir Pétur daglega pistla um hvað loftslagsmálin snúast og af hverju þjóðir eigi erfitt með að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Einnig fjallar hann um þá íslensku hagsmuni sem eru í húfi og greinir frá viðhorfi atvinnulífsins til samningaviðræðnanna.

Árlegur fundur aðildarríkja loftslagssamnings SÞ

Ráðstefnan í Kaupmannahöfn (COP-15) er árlegur fundur aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og er 15. í röðinni en samningurinn tók gildi árið 2004. Einnig er þetta 5. fundur aðildarríkja Kyoto-bókunarinnar en hún tók gildi árið 2005 þegar nægilega mörg ríki höfðu staðfest hana.

Loftslagssamningurinn leggur almennar kvaðir á öll ríki samningsins í samræmi við aðstæður þeirra og getu til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Meðal annars er kveðið á um upplýsingaskyldu, hvatt til þróunar loftslagsvænnar tækni, aðlögunar að loftslagsbreytingum og hvatt til samvinnu ríkja.

Sérstakur viðauki við samninginn (Annex 1 / Viðauki 1) leggur ríkari kvaðir á þau ríki sem talin eru þar upp m.a. um að almennt skuli þau móta stefnu til að draga úr útstreymi og skila skýrslum um þær aðgerðir sem gripið hefur verið til. Ríkin í viðauka 1 eru um 40 talsins og eru flest þau sem talin voru iðnríki þegar samningurinn var gerður auk fyrrum austantjaldsríkja. Ísland er í hópi ríkja í viðauka 1 auk allra aðildarríkja ESB, Bandaríkjanna, Ástralíu, Kanada, Rússlands og Nýja Sjálands.

Kyoto-bókunin setur svo ákveðin markmið þar sem ríkin í viðauka 1 skuldbinda sig til að draga úr útstreymi um ákveðið hlutfall á tímabilinu 2008-12 miðað við útstreymi 1990. Í heild skuldbundu ríkin sig til að draga úr útstreymi um 5% á tímabilinu en misjafnt er hversu miklar kröfur eru gerðar til einstakra ríkja. Á Íslandi er heimilt að auka útstreymi um 10% á tímabilinu en ESB ríkin þurfa að draga úr útstreymi um 8% og Bandaríkin um 7%. Öll ríkin í viðauka 1 hafa staðfest Kyoto-bókunina nema Bandaríkin. Samdráttarmarkmiðin gilda því ekki um Bandaríkin og þau taka einungis þátt í fundum um Kyoto-bókunina sem áheyrendur.

Í Kyoto-bókuninni er ákveðið að hefja skuli viðræður um skuldbindingar eftir 2012 eigi síðar en 2005. Það starf hófst samkvæmt áætlun en þegar komið var að aðildarríkjaþinginu 2007 var ljóst að vart myndi nást niðurstaða um að einungis ríkin í viðauka 1 verði með tölulegar skuldbindingar eftir 2012. Nauðsynlegt væri að öll helstu ríki heims yrðu að vera með í nýju samkomulagi þar með talin stór þróunarríki. Aðildarríkjaþingið 2007 samþykkti því svokallaða Balí-áætlun eftir fundarstaðnum. Samkvæmt henni átti að ná víðtæku samkomulagi sem taki til allra ríkja og setja markmið um að draga verulega úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda til langs tíma. Setja á töluleg markmið um minnkun útstreymis fyrir iðnríki og einnig eiga þróunarríki að semja aðgerðaráætlanir.  Fjalla á um aukna áherslu á aðlögun að loftslagsbreytingum, tækniþróun og tækniyfirfærslu og fjárhagslegan stuðning við þróunarríki.

Á Balí-fundinum var ákveðið að viðræðum um víðtækt samkomulag auk viðræðna um framhald Kyoto-bókunarinnar skyldi ljúka á sama tíma þ.e. á ríkjaráðstefnunni í Kaupmannahöfn 2009. Frá því fundunum á Balí lauk hafa aðildarríkin haldið marga fundi, víða um heim og fyrir liggja tillögur frá þeim um nýjar bókanir við loftslagssamninginn í stíl við Kyoto-bókunina, heildarsamningsskjalið er rúmar 200 bls. en þar er tekið á öllum þáttum Balí-áætlunarinnar og tillögur um breytingar á Kyoto-bókunninni. Þrátt fyrir marga fundi eru öll ágreiningsmál enn óleyst og engar tillögur hafa verið slegnar út af borðinu.

Af ummælum stjórnmálamanna að undanförnu má ráða að þeir hafi gefið upp von um að ná niðurstöðu um lagalega bindandi samkomulag nú í desember. Með lagalega bindandi samkomulagi er átt við samningstexta sem farið getur til staðfestingar í þjóðþingum aðildarríkjanna. Þess í stað er nú rætt um pólitískt bindandi samkomulag. Ekki ljóst hvað í því felst annað en vilyrði um að halda áfram að reyna að ná samkomulagi og kannski verða valmöguleikarnir þrengdir eitthvað. En samningamenn aðildarríkjanna munu svo halda áfram að funda og reyna að ná niðurstöðu næstu 1, 2 eða 3 árin eftir því hvernig gengur.

Hverjir verða í Kaupmannahöfn?
Búast má við að skráðir þátttakendur verði allt að 20 þúsund. Þar af 3-4 þúsund fulltrúar ríkisstjórna, 1000 blaðamenn og 14 þúsund umhverfisverndarsinnar, fulltrúar atvinnulífs og annara hópa. Auk þess er búist við mótmælagöngum og ýmsum viðburðum til hliðar við loftslagsráðstefnuna sjálfa. Athygli vekur að í Danmörku er þátttakendum í mótmælagöngum og á opnum fundum bannað að hylja andlit sitt að hluta eða í heild.

Pétur Reimarsson

Samtök atvinnulífsins