Vinnumarkaður - 

05. júlí 2001

Tíðindalítið af vinnumarkaði

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Tíðindalítið af vinnumarkaði

Samkvæmt könnun Samtaka atvinnulífsins virðast íslensk fyrirtæki hvorki ætla að fjölga né fækka starfsfólki næstu tvo til þrjá mánuði. Á höfuðborgarsvæðinu er litlar breytingar að sjá í bráð á fjölda starfsfólks, en á landsbyggðinni vilja fyrirtæki fjölga starfsmönnum lítilsháttar.

Samkvæmt könnun Samtaka atvinnulífsins virðast íslensk fyrirtæki hvorki ætla að fjölga né fækka starfsfólki næstu tvo til þrjá mánuði.  Á höfuðborgarsvæðinu er litlar breytingar að sjá í bráð á fjölda starfsfólks, en á landsbyggðinni vilja fyrirtæki fjölga starfsmönnum lítilsháttar.

Tólf hundruð fyrirtæki í Samtökum atvinnulífsins voru spurð í netpósti á síðustu tveimur vikum hvort þau hygðust fjölga eða fækka starfsfólki næstu 2-3 mánuði.  Tekið var fram að hér væri ekki verið að fjalla um sumarafleysingafólk.  Svör bárust frá 466 fyrirtækjum, eða rúmum þriðjungi.  Þar af ætla 67 að fjölga starfsmönnum, 72 hyggjast fækka hjá sér og 327 ætla að halda óbreyttum fjölda.  Ekki munar jafn miklu á svörum eftir aðildarfélögum samtakanna og í svipaðri könnun sem gerð var í desember sl.  Enn er verið að leita að fólki í mannvirkjagerð (SART), en auk þess vantar starfsfólk í verslun og þjónustu (SVÞ).  Í fiskvinnslu (SF) búa atvinnurekendur sig undir að fjölga fólki þegar nýtt kvótaár hefst í haust og í ferðaþjónustu (SAF) er gert ráð fyrir að starfsfólki fækki eins og jafnan á haustin.  Séð er fram á lítils háttar fækkun í iðnaði (SI).

Stór fyrirtæki svöruðu fyrirspurninni betur en lítil.  Dregið er úr áhrifum þess með því að láta fyrirtæki með færri en 60 starfsmenn vega fjórfalt á við stærri fyrirtæki (svipuð leiðrétting var gerð í desemberkönnuninni).  Þessi breyting er mikilvæg, því að lítil fyrirtæki virðast sjá fram á vöxt um þessar mundir, en stór fyrirtæki ráðgera mörg hver að fækka fólki. Ákvarðanir stærri fyrirtækja kunna hins vegar að hafa keðjuverkandi áhrif.

Niðurstaðan er svipuð og í atvinnukönnun Þjóðhagsstofnunar í apríl, en þá vildu atvinnurekendur ekki bæta við sig starfsfólki í fyrsta sinn í þeim mánuði síðan 1996.  Í vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar í apríl mældist svipað atvinnuleysi og árið áður, eða um 2%.  Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar var skráð atvinnuleysi svipað í maí og fyrir ári.  Mun fleiri atvinnuleyfi hafa verið veitt á þessu ári en árið á undan fyrir fólk utan Evrópska efnahagssvæðisins, flest í fiskvinnslu, en einnig við þrif, verksmiðjustörf og í byggingarvinnu.  Undanfarnar vikur hefur heldur slaknað á þenslunni á vinnumarkaði í Reykjavík og nágrenni samkvæmt fréttum frá Vinnumiðlun höfuðborgarsvæðisins

Miklar sviptingar hafa orðið í starfsumhverfi fyrirtækja að undanförnu.  Gengislækkun krónunnar gerir það að verkum að rekstrarstaða þeirra hefur batnað sem keppa við erlenda framleiðslu, þótt mörg hafi orðið fyrir búsifjum af gengistapi.  Þau gætu viljað bæta við sig vinnuafli á næstunni.  Þau fyrirtæki sem keppa ekki við erlenda framleiðslu og hafa tekið erlend lán tapa aftur á móti á gengisfellingunni.  Líklegt er að sum þeirra séu núna að fækka fólki.  Mörgum byggingarframkvæmdum lýkur áður en árið er úti, en margt fólk mun vinna í nýreistum húsum.  Samkvæmt könnun SA breytist spurn eftir vinnuafli lítið á næstu mánuðum, en líklegt er þó að stjórnendur taki ákvarðanir um aðhaldsaðgerðir að loknum sumarleyfum.  Þróunin skiptir miklu máli, því að þensla á vinnumarkaði veldur miklu um verðbólguna sem Íslendingar glíma við um þessar mundir.

Samtök atvinnulífsins