Efnahagsmál - 

07. Júlí 2005

Þúsundir starfa horfin í sjávarútvegi og iðnaði

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Þúsundir starfa horfin í sjávarútvegi og iðnaði

Hátt gengi krónunnar undanfarin ár og þar með hár framleiðslukostnaður innlendra fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni hefur valdið því að ýmis framleiðslustarfsemi sem áður var ábatasöm er það ekki lengur. Þar sem innlendur framleiðslukostnaður er beint og óbeint að mestu leyti launakostnaður er hlutfallslega hátt gengi íslensku krónunnar miðað við aðra gjaldmiðla og hlutfallslega há laun á Íslandi því tvær hliðar á sama peningnum. Hár og hækkandi launakostnaður undanfarin ár hefur valdið því að framleiðslustörfum og öðrum störfum sem hátt gengi krónunnar bitnar á hefur farið fækkandi.

Hátt gengi krónunnar undanfarin ár og þar með hár framleiðslukostnaður innlendra fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni hefur valdið því að ýmis framleiðslustarfsemi sem áður var ábatasöm er það ekki lengur. Þar sem innlendur framleiðslukostnaður er beint og óbeint að mestu leyti launakostnaður er hlutfallslega hátt gengi íslensku krónunnar miðað við aðra gjaldmiðla og hlutfallslega há laun á Íslandi því tvær hliðar á sama peningnum. Hár og hækkandi launakostnaður undanfarin ár hefur valdið því að framleiðslustörfum og öðrum störfum sem hátt gengi krónunnar bitnar á hefur farið fækkandi.

Frá árinu 1998 hefur störfum í sjávarútvegi og iðnaði (byggingarstarfsemi og veitur ekki meðtaldar) fækkað frá ári til árs. Árið 1998 voru störf í þessum atvinnugreinum tæplega 33 þúsund en hafði fækkað niður í 28.600 á síðasta ári eða um rúmlega fjögur þúsund störf. Á þessu sex ára bili fjölgaði störfum hins vegar um 12 þúsund á öllum vinnumarkaðnum og nam því fjölgunin um tvö þúsund störfum á ári að jafnaði. Aðrir hlutar atvinnulífsins og hið opinbera sköpuðu þannig nægilega mörg störf bæði til að vega upp fækkun starfa í sjávarútvegi og iðnaði og til þess að mæta náttúrulegri fjölgun, þannig að nægilegt framboð var af störfum fyrir vinnufúsar hendur.

Minni hlutdeild iðnaðar og sjávarútvegs
Þar sem störfum hefur fjölgað í landinu en þeim fækkað í sjávarútvegi og iðnaði þá hefur hlutdeild þessara greina minnkað hratt á vinnumarkaði. Árið 1998 voru tæp 23% starfa í landinu í þessum greinum en árið 2004 var hlutdeildin komin niður í rúm 18%. Í bæði Svíþjóð og Danmörku er hlutdeild þessara greina tæplega 17%, svo dæmi séu tekin.

Smellið á myndina

Hátt gengi krónunnar bitnar ekki einungis á samkeppnishæfni hefðbundinna útflutnings- og samkeppnisgreina. Samkeppnisstaða t.d. vöru- og fólksflutninga til og frá landinu og hótela og veitingahúsa gagnvart erlendum keppinautum er ekki síður háð gengi krónunnar. Á þessu tímabili fjölgaði störfum bæði á hótelum og veitingahúsum annars vegar og í samgöngum og flutningum hins vegar. Fjölgunin var þó ekki mjög mikil, eða tæplega eitt þúsund störf, þannig að hún vó ekki upp fækkunina í sjávarútvegi og iðnaði. Sé þessum greinum bætt við hefðbundnar útflutnings- og samkeppnisgreinar, og þessi hluti atvinnulífsins skilgreindur sem gengisháðar atvinnugreinar í alþjóðlegri samkeppni, þá er niðurstaðan sú sama, þ.e. að störfum fækkaði umtalsvert á tímabilinu.

Fækkunin einkum á landsbyggðinni
Það er hins vegar athyglisvert að skoða skiptinguna eftir svæðum en hún sýnir að störfum í gengisháðum atvinnugreinum sem starfa í alþjóðlegri samkeppni fjölgaði nokkuð á höfuðborgarsvæðinu en fækkaði hins vegar verulega á landsbyggðinni. Þessi mynd endurspeglar þá gríðarlegu starfsmannafækkun og hagræðingu sem átt hefur sér í sjávarútveginum á undanförnum árum.

Starfsmannafjöldi í atvinnugreinum sem starfa í alþjóðlegri samkeppni

1998

2004

Breyting

Höfuðborgarsvæðið

Landsbyggðin

27.900

25.120

28.500

22.010

600

-3.110

Samtals

53.020

50.510

-2.510Forsenda jafnvægis í utanríkisviðskiptum
Það er áhyggjuefni hversu lítill hlutur hinna hefðbundnu útflutnings- og samkeppnisgreina er orðinn í atvinnulífinu, eða 18%. Hlutur þeirra atvinnugreina, sem lúta aga alþjóðlegrar samkeppni, er þó mun stærri í vinnumarkaðnum í heild en þó innan við þriðjungur. Áhyggjuefnið lýtur fyrst og fremst að því að öflugur útflutningsgeiri og kraftmikil samkeppni við innfluttar vörur og þjónustu er forsenda jafnvægis í utanríkisviðskiptum og forsenda áframhaldandi hagvaxtar. Hátt gengi krónunnar undanfarin ár hefur, ásamt með hagræðingu o.fl., stuðlað að fækkun starfa í gengisháðum greinum í alþjóðlegri samkeppni og enn sér ekki fyrir endann á þeirri þróun þar sem raungengi krónunnar á þessu ári er mun hærra en það hefur áður verið. Við núverandi aðstæður er því hagstjórn sem byggist á miklu aðhaldi opinberra fjármála eina leiðin sem dugar til að sporna gegn þeirri öfugþróun sem hátt gengi krónunnar hefur í för með sér.

Samtök atvinnulífsins