Efnahagsmál - 

10. september 2013

Þurfum að fjárfesta meira til að fjölga störfum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Þurfum að fjárfesta meira til að fjölga störfum

Fjárfestingar í atvinnulífinu á Íslandi hafa verið í sögulegu lágmarki síðustu fjögur árin og lítil merki virðast vera um að breyting sé að verða þar á. Á fyrstu sex mánuðum ársins dróst fjárfesting t.d. saman um 13% að raungildi borið saman við fyrstu sex mánuði seinasta árs, samkvæmt tölum Hagstofunnar sem birtar voru nýverið. Til að skapa ný störf á Íslandi, minnka atvinnuleysi og styrkja kaupmátt er ljóst að auka þarf fjárfestingar í atvinnulífinu verulega á næstu árum.

Fjárfestingar í atvinnulífinu á Íslandi hafa verið í sögulegu lágmarki síðustu fjögur árin og lítil merki virðast vera um að breyting sé að verða þar á. Á fyrstu sex mánuðum ársins dróst fjárfesting t.d. saman um 13% að raungildi borið saman við fyrstu sex mánuði seinasta árs, samkvæmt tölum Hagstofunnar sem birtar voru nýverið. Til að skapa ný störf á Íslandi, minnka atvinnuleysi og styrkja kaupmátt er ljóst að auka þarf fjárfestingar í atvinnulífinu verulega á næstu árum.

Fjallað er um málið í helgarútgáfu Morgunblaðsins en þar kemur fram að samdrátt í fjárfestingum miðað við fyrri helming síðasta árs megi að miklu leyti rekja til mikils innflutnings á skipum og flugvélum sem þá átti sér stað. Staðan sé því ekki eins slæm eins og tölurnar gefi til kynna, en þó er ljóst að hún er alvarleg. Ef horft er framhjá fjárfestingu í skipum og flugvélum, jókst fjárfesting hér á landi aðeins um 4,1% á fyrstu sex mánuðum ársins.

Morgunblaðið bendir á að fjárfestingar á Íslandi hafi verið langt undir því sem gengur og gerist í samanburðarlöndunum frá því að kreppan skall á. "Að raungildi var heildarfjárfesting á síðasta ári svipuð og árið 1997," segir í úttekt Hagstofunnar.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við Morgunblaðið áhyggjuefni hversu veik fjárfestingin er og skelfilegt sé að horfa upp á samdrátt í fjárfestingu á þessu ári. "Við náum aldrei viðvarandi hagvexti á Íslandi þegar fjárfestingin er svona veik. Það er algert lykilatriði að örva hana," segir hann.

Þorsteinn segist óttast að fjárfesting verði áfram lítil á síðari hluta ársins úr því sem komið er. ,,Tilfinningin hefur því miður verið sú það sem af er ári að hagvaxtarforsendurnar séu fremur að veikjast en hitt og ekkert sem bendir til mikilla breytinga þar á," segir hann.

Jákvæðar fréttir hafa þó borist úr einstökum atvinnugreinum. Ferðaþjónustan hefur verið ljósið í myrkrinu.

,,Þar erum við að sjá þó nokkur áform um fjárfestingar en aðrar atvinnugreinar virðast ennþá vera talsvert veikar. Vonandi sjáum við þó eitthvað birta yfir í sjávarútveginum. Bæði virðist verðþróun vera hagstæðari en menn höfðu óttast og kvótinn hefur verið aukinn. Ef stjórnvöld ná að aflétta óvissunni sem hefur hangið yfir greininni vegna fyrirkomulags við stjórnun fiskveiða, þá ætla ég að við sæjum nokkra innspýtingu í fjárfestingu enda nokkur uppsöfnuð þörf til staðar."

Tölur Hagstofunnar sýna að hagvöxtur mælist 2,2% á fyrri helmingi ársins. Þorsteinn segir það jákvæðar fréttir þar sem vöxturinn sé nokkru sterkari en menn þorðu að vona en mun meira þurfi að koma til svo efnahagslífið taki við sér.

Tengt efni frá Hagstofu Íslands:

Landsframleiðslan á 2. ársfjórðungi 2013

Landsframleiðslan 2012 - endurskoðun 

Samtök atvinnulífsins