Þríhliða viðræður?

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, segir í Fréttablaðinu í dag að viðbúið sé að aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld fari í samstarf um þríhliða viðræður um hvaða leiðir geti verið fyrir hendi til að forða því að launalið kjarasamninga verði sagt upp á næsta ári. Hann bendir þó á að þetta sé flókið mál þar sem engar skyndilausnir séu fyrir hendi, en telur að allir vilji sameinast um það að verðbólgan fari aftur niður á þolanlegt stig. Hannes segir að hækkun verðbólgunnar megi m.a. rekja til þeirrar miklu gengislækkunar sem orðið hefur á krónunni. Aðspurður hvort atvinnulífið geti brugðist við verðlagsþróuninni með frekari kauphækkunum segir Hannes verðbólguvandann m.a. endurspegla þær miklu kostnaðarhækkanir sem orðið hafa. Af þeim sökum telur hann það ekki mjög uppbyggilegt framlag til lækkunar verðbólgu að hækka kostnað fyrirtækja enn meira.