Efnahagsmál - 

17. Desember 2003

Þörf áætlana um góða virkni innri markaðarins

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Þörf áætlana um góða virkni innri markaðarins

Ráðgjafarnefnd EFTA hefur samþykkt álit um áætlun Evrópusambandsins (ESB) um virkni hins sameiginlega innri markaðar til ársins 2006, og um mikilvægi þess að EFTA/EES-ríkin leggi aukna áherslu á góða virkni hans. Mikilvægt sé að tryggja að fyrirtæki og borgarar í EFTA-ríkjunum njóti kosta innri markaðarins til jafns við það sem gerist í aðildarríkjum ESB.

Ráðgjafarnefnd EFTA hefur samþykkt álit um áætlun Evrópusambandsins (ESB) um virkni hins sameiginlega innri markaðar til ársins 2006, og um mikilvægi þess að EFTA/EES-ríkin leggi aukna áherslu á góða virkni hans. Mikilvægt sé að tryggja að fyrirtæki og borgarar í EFTA-ríkjunum njóti kosta innri markaðarins til jafns við það sem gerist í aðildarríkjum ESB.

EFTA-ríkin setji sér áætlanir
Nefndin hvetur EFTA/EES-ríkin til að gera áætlanir í þessu efni, líkt og gert er innan ESB, þar sem áhersla verði lögð á samkeppnishæfni, hagvöxt, félagslega samleitni og sjálfbæra þróun. Nefndin leggur m.a. áherslu á mikilvægi góðs samstarfs eftirlitsstofnana ríkjanna til að tryggja samræmi í túlkun á reglum innri markaðarins. Gagnkvæm viðurkenning er lykilforsenda góðrar virkni hins innri markaðar að mati nefndarinnar.

Einföldun regluumhverfis
Í álitinu bendir ráðgjafarnefnd EFTA á mikilvægi einfalds regluumhverfis atvinnulífsins og leggur áherslu á að áhrif nýrra reglna verði vandlega metin á reglusetningarstiginu hverju sinni, með lágmörkun reglubyrði og kostnaðar, auk samræmis innan EES að leiðarljósi.

Kynningarátak
Þá telur nefndin mjög mikilvægt að EFTA og stjórnvöld aðildarríkjanna efni til kynningarátaks innan aðildarríkjanna um tækifæri innri markaðarins, en ekki síður að efnt verði til kynningarátaks um EFTA og EES-samninginn gagnvart núverandi og væntanlegum aðildarríkjum ESB.

Opinber útboð, gagnkvæm viðurkenning...
Í álitinu er m.a. fjallað um gagnkvæma viðurkenningu staðla, vöruprófana, starfsréttinda, afnám skattahindrana og um aukna áherslu á opinber útboð, auk þess sem nefndin fagnar umræðu um aukið hlutverk einkaaðila við framkvæmd verkefna á sviði almannaþjónustu.

Sjá álit nefndarinnar á vef EFTA.

Ráðgjafarnefnd EFTA er skipuð fulltrúum aðila vinnumarkaðarins o.fl. aðila í aðildarríkjum samtakanna.

Samtök atvinnulífsins