Efnahagsmál - 

14. ágúst 2003

Þörf á hagræðingu í heilbrigðiskerfinu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Þörf á hagræðingu í heilbrigðiskerfinu

Samtök atvinnulífsins hafa bent á að umfang og vöxtur heilbrigðiskerfisins er þvílíkur að ekki mun takast að ná stjórn á þróun ríkisútgjalda öðru vísi en að ná tökum á útgjaldaþróun heilbrigðisþjónustunnar. Hægt er að nýta kosti samkeppni og einkarekstrar til hagræðingar í málaflokknum, án þess að hlutur hins opinbera í kostnaði við hvern sjúkling minnki, né heldur gæði þjónustunnar. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Ara Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, á málþingi Landspítala-háskólasjúkrahúss um rekstur sjúkrahúsa, starfsumhverfi og gæði þjónustunnar.

Samtök atvinnulífsins hafa bent á að umfang og vöxtur heilbrigðiskerfisins er þvílíkur að ekki mun takast að ná stjórn á þróun ríkisútgjalda öðru vísi en að ná tökum á útgjaldaþróun heilbrigðisþjónustunnar. Hægt er að nýta kosti samkeppni og einkarekstrar til hagræðingar í málaflokknum, án þess að hlutur hins opinbera í kostnaði við hvern sjúkling minnki, né heldur gæði þjónustunnar. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Ara Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, á málþingi Landspítala-háskólasjúkrahúss um rekstur sjúkrahúsa, starfsumhverfi og gæði þjónustunnar.

Ört vaxandi umfang
Í erindi sínu studdist Ari að mestu við skýrsluna Bætum lífskjörin! sem SA gáfu út sl. vor, en þar er m.a. fjallað um heilbrigðiskerfið og um samspil opinbers og almenns vinnumarkaðar. Ari rakti m.a. hvernig útgjöld heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins (að útgjöldum Tryggingastofnunar meðtöldum) hefðu vaxið úr 65 milljörðum króna árið 1995 á núvirði í áætlaða rúmlega 100 milljarða í ár. Þetta er aukning úr 11% í 12,6% af vergri landsframleiðslu, auk þess sem reynsla undanfarinna ára kennir að verulegrar aukningar er að vænta með fjáraukalögum. Fyrir árið 2002 námu útgjöld heilbrigðis- og tryggingaráðuneytisins 5,6 af 11,9 milljörðum króna fjáraukalaga, eða 47%.

Annað hæsta hlutfall opinberra útgjalda af landsframleiðslu
Ari benti einnig á að þrátt fyrir einn lægsta meðalaldur OECD-ríkja eru opinber útgjöld hérlendis til heilbrigðismála annað hæsta hlutfallið innan OECD, næst á eftir Þýskalandi. Jafnframt er fjöldi lækna og hjúkrunarfræðinga á hvern íbúa með hæsta móti hérlendis og heildarútgjöld þjóðarinnar til heilbrigðismála hafa aukist um 4% af landsframleiðslu síðustu 30 ár, á sama tíma og meðaltalshækkunin innan OECD hefur verið 2,5%.

Endurskoðunar þörf
Ari sagði því alveg ljóst að umfang og vöxtur heilbrigðiskerfisins væri þvílíkur að leiðir til sparnaðar og hagræðingar í kerfinu hlytu að vera í brennidepli. Hann sagði hægt að nýta kosti samkeppni og einkarekstrar til lækkunar á kostnaði, án þess að hlutur hins opinbera í kostnaði við hvern sjúkling færi minnkandi, né heldur gæði þjónustunnar.

Fjölga vinnuveitendum
Ari fjallaði ennfremur um hamlandi starfsumhverfi stjórnenda hjá hinu opinbera og kerfi fastra fjárframlaga, sem heilbrigðisþjónustan byggir að mestu á hér á landi, sem ekki er mjög framleiðnihvetjandi kerfi. Hlutfall samneyslunnar af vergri landsframleiðslu hefur farið vaxandi undanfarin ár, ekki síst vegna örari launahækkana hjá hinu opinbera en á almennum markaði, sem Ari sagði óviðunandi og þá ekki síst fyrir fyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni. Hann fjallaði jafnframt um mun tíðari verkfallsaðgerðir hjá hinu opinbera en á almennum markaði og sagði raunhæfustu lausnina fólgna í því að fjölga vinnuveitendum á þessu sviði, með auknu vægi þjónustusamninga við aðila á markaði.

Leiðir til kostnaðarlækkunar
Þá fjallaði Ari um ágætan árangur sem náðst hefur víða í nágrannalöndunum, m.a. í Svíþjóð, þar sem samhliða föstum fjárlögum er greitt fyrir afmarkaða þætti kerfisins á grundvelli kostnaðargreiningar einstakra sjúkdómstilvika. Slík kerfi eru framleiðnihvetjandi, auðvelda útboð á tiltekinni þjónustu og hafa sem fyrr segir skilað góðum árangri víða í nágrannalöndunum.

Stefnumörkun ábótavant
Að lokum sagði Ari stefnumörkun stjórnvalda á þessu sviði ábótavant. Hann sagði stjórnvöld þurfa að láta fara fram gagngera endurskoðun á fjármögnunarleiðum heilbrigðisþjónustunnar, með jákvæða reynslu nágrannalandanna að leiðarljósi. Ari sagði gríðarlega hagsmuni í húfi, hvað varðaði hagkvæmni í rekstri, skattbyrði og þar með lífskjör þjóðarinnar.

Samtök atvinnulífsins