Efnahagsmál - 

13. Nóvember 2008

Þörf á breiðri samstöðu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Þörf á breiðri samstöðu

Ná þarf breiðri samstöðu um aðgerðir sem horfa til framtíðar til að bregðast við núverandi ástandi. Aðilar vinnumarkaðarins hafa rétt út hönd og boðið ríkisstjórninni til víðtæks samstarfs um leiðir út úr krísunni. Þetta sagði Þór Sigfússon, formaður SA á opnum fundi samtakanna í morgun. "Við vorum boðin og búin í byrjun október þegar krísunni var aflýst í rúman sólarhring en nú erum við aftur reiðubúin að stíga fram." Þór sagði mikilvægt að leggja allt kapp á að undirbúa nýja tíma fyrir Ísland og lagði fram lista yfir sex lykilverkefni sem vinna þurfi að á næstu vikum.

Ná þarf breiðri samstöðu um aðgerðir sem horfa til framtíðar til að bregðast við núverandi ástandi. Aðilar vinnumarkaðarins hafa rétt út hönd og boðið ríkisstjórninni til víðtæks samstarfs um leiðir út úr krísunni. Þetta sagði Þór Sigfússon, formaður SA á opnum fundi samtakanna í morgun. "Við vorum boðin og búin í byrjun október þegar krísunni var aflýst í rúman sólarhring en nú erum við aftur reiðubúin að stíga fram." Þór sagði mikilvægt að leggja allt kapp á að undirbúa nýja tíma fyrir Ísland og lagði fram lista yfir sex lykilverkefni sem vinna þurfi að á næstu vikum.

Verkefnin að mati Þórs snúa að því að ná samkomulagi við nágrannaþjóðir Íslands um frágang á innlánsreikningum íslensku bankanna, að stefnt verði að því að núverandi lánadrottnar íslensku bankanna eignist hluti í nýju ríkisbönkunum og að áhersla verði lögð á að tryggja aðkomu IMF að málefnum Íslands. Gangi það ekki upp verði stjórnvöld að skoða strax einhliða upptöku annarrar myntar, evru eða jafnvel dollars.

Þá þurfi ríkisstjórnin að vinna af krafti í hagsmunamati í tengslum við mögulega inngöngu okkar í Evrópusambandið, tryggja verði að nýju bankarnir hlúi að fólki og fyrirtækjum þannig að menn haldi eigum sínum þótt ekki sé greitt af lánum um nokkurn tíma og tileinka eigi árið 2009 nýsköpun og skapandi hugsun. Þannig megi sýna þann þrótt sem býr í íslensku atvinnulífi, einstaklingum, fyrirtækjum og menntakerfi og sanna að þjóðin geti á skömmum tíma rifið sig upp úr mikilli lægð og horft bjartsýn til framtíðar.

Í ræðunni, sem má nálgast í heild hér að neðan, sagði Þór um verkefnin sex:

1.   Við viljum ná samkomulagi við nágrannaþjóðir okkar um frágang á innlánsreikningum íslensku bankanna. Íslendingar þurfa að taka á sig einhverjar skuldbindingar þeirra vegna en fráleitt er að ætla annað en að umtalsverðar eignir séu til á móti þeim skuldbindingum. Það þarf alla vega sérstakan klaufagang til ef það tekst ekki.  Þótt við tökum í þessum efnum áhættu þá er áhættan meiri að samskipti okkar við Evrópuþjóðir skaðist til langframa ef við uppfyllum ekki skuldbindingar okkar.

2.   Með sama hætti verði stefnt að því að núverandi lánadrottnar íslensku bankanna eignist hluti í nýju ríkisbönkunum og með því verði lagður grunnur að áframhaldandi samstarfi Íslands við erlendar lánastofnanir sem eru lykill að efnahagsuppbyggingu Íslands á komandi árum. Með þessu tvennu leggjum við grunn að sátt milli okkar og nágrannaþjóða. Með því tryggjum við orku fyrir Íslandsvélina til næstu ára og áratuga því erfitt er að byggja hér upp án erlends fjármagns á komandi árum. Pössum okkur á því að taka ekki upp einangrunarstefnu og reyna að koma því inn hjá fólki að allar þjóðir vilji fyrir einskæran skepnuskap koma illa fram við okkur. Það er alls ekki svo og besta leiðin út úr núverandi vanda er með samstarfi við aðrar þjóðir og að efla vináttu og viðskipti við þær.

3.   Við leggjum áherslu á að IMF-prógrammið verði klárað en ef umtalsvert hik verður á láni IMF þá þurfa stjórnvöld strax skoða einhliða upptöku annarrar myntar. Óska þarf eftir því við IMF, ESB og ECB (Evróspka seðlabankann) að fá að taka einhliða upp evru og biðja um gott veður þannig að það hindri ekki aðildarviðræður. Þetta má ekki líta á sem enn eitt "shortcut" Íslendinga heldur neyðarráðstöfun sem unnin er í samráði við vinaþjóðir.   Um leið sé óskað eftir því að ECB ásamt IMF komi með lánalínur til íslensku bankanna sem tryggi þeim nægt lausafé.  Verði mótstaða við þessa málaleitan er eðlilegt að Ísland skoði með upptöku myntar Obamas, bandaríska dalinn, en Bandaríkjamenn hafa ekki verið mótfallnir slíkri leið.

4.   Ríkisstjórnin þarf að vinna af krafti í hagsmunamati í tengslum við mögulega inngöngu okkar í Evrópusambandið og ná víðtækri samstöðu við stjórnarandstöðuna og aðila vinnumarkaðarins um að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið og undirbúa þátttöku Íslands í ERM2 og Myntbandalagi Evrópu. Hvatt verður til þess að þessar viðræður geti hafist sem fyrst og málinu verði flýtt eins og kostur er. Þrátt fyrir erfiða aðstöðu mun þjóðin ekki hvika frá því að hagsmunir sjávarútvegs á Íslandi verði ekki fyrir borð bornir í aðildarviðræðum.

5.   Nýju bankarnir hlúi að fólki og fyrirtækjum þannig að þau haldi eignum sínum þótt ekki sé greitt af lánum um nokkurn tíma og hlúð sé að fyrirtækjum með til dæmis því að lengja í skuldum og breyta skuldum í hlutafé sem verði selt á markaði með gegnsæjum hætti.  Við þurfum að horfa sérstaklega til þess að heil kynslóð ungra Íslendinga, sem nýverið hefur stofnað til fjölskyldu, stendur líklega veikast. Framtíð Íslands verðum við að huga að sérstaklega og við verðum að búa svo um hnútana að þessari kynslóð sé gert kleift að koma sér aftur af stað.

6.   Loks þarf ríkisstjórnin að tileinka árið 2009 nýsköpun og skapandi hugsun. Við viljum sýna þann þrótt sem býr í íslensku atvinnulífi, einstaklingum og fyrirtækjum og menntakerfi og sanna að þjóðin getur á skömmum tíma rifið sig upp úr mikilli lægð og horft bjartsýn til framtíðar. Sköpum stemmingu fyrir nýsköpun í sinni víðustu mynd og komum á breytingum sem geta bætt samkeppnisstöðu Íslands á komandi árum. Íslenskt efnahagslíf getur orðið þekkt fyrir það innan fárra ára hvernig það reif af sér fjötra kreppu og náði undraverðum árangri við að bæta lífskjör hérlendis eitt er ljóst að það gerir enginn annar en vel rekin íslensk fyrirtæki.

Sjá nánar:

Ræða Þórs Sigfússonar á Grand Hótel, 13. nóvember (PDF)

Samtök atvinnulífsins