Covid-19 - 

27. Apríl 2020

Þögnin

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Þögnin

Fimmti hver launamaður á Íslandi fær nú bætur úr atvinnuleysistryggingasjóði. 50 þúsund manns eru atvinnulausir eða í skertu starfshlutfalli. Um er að ræða sexföldun á fjórum mánuðum. Samdrátturinn í ár verður í besta falli svipaður og í bankahruninu, en líklega meiri.

Fimmti hver launamaður á Íslandi fær nú bætur úr atvinnuleysistryggingasjóði. 50 þúsund manns eru atvinnulausir eða í skertu starfshlutfalli. Um er að ræða sexföldun á fjórum mánuðum. Samdrátturinn í ár verður í besta falli svipaður og í bankahruninu, en líklega meiri.

Með hverri viku sem líður teiknast upp efnahagsmynd sem er engri annarri lík. Þjóðríki heims stíga fram og tilkynna skref sem áður þóttu óhugsandi að stíga, seðlabankar heims lækka vexti og kynna aðgerðir sem ganga lengra en nokkru sinni fyrr.

Ljóst er að fjárhagslegt tjón COVID 19 verður meira en nokkurn óraði fyrir í upphafi. Landsframleiðsla á síðasta ári var 2.966 milljarðar króna. Ef við gefum okkur 10 prósenta samdrátt á árinu glatast hátt í 300 milljarðar króna, hærri fjárhæð en ríkissjóður leggur til heilbrigðismála á heilu ári.

Staðan er snúin. Fyrir liggur að halli ríkissjóðs mun hlaupa á hundruðum milljarða króna og úr takmörkuðum fjármunum er að spila. Auk hlutabótaleiðarinnar eru aðrar aðgerðir stjórnvalda fyrst og fremst lánafyrirgreiðslur til fyrirtækja. Seðlabankinn hefur aukið útlánagetu bankakerfisins til að mæta útlánaþörfinni sem blasir við.

Nú er rúmur mánuður liðinn frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi Seðlabankans. Fjórar vikur eru langur tími þegar ein versta efnahagsdýfa í heila öld gengur yfir. Verðbólguhorfur og væntur framleiðsluslaki gefa ekki tilefni til annars en að stýrivextir á Íslandi lækki áfram og erfitt er að finna rök fyrir því að vaxtastig hér þurfi að vera 125-150 punktum hærra en í nær öllum öðrum vestrænum ríkjum.

Fyrirtæki sem horfa fram á verulegt tekjufall verða skuldsettari eftir COVID 19, fyrirtæki bera flest breytilega vexti og það sama á við um sífellt fleiri heimili. Frekari vaxtalækkun er almenn aðgerð sem nær til allra, bæði fyrirtækja og heimila. Þögnin fer að verða ærandi.

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA. Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu fimmtudaginn 23. apríl.

Samtök atvinnulífsins