Fréttir - 

26. júní 2015

Þjóðin sem valdi Vigdísi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Þjóðin sem valdi Vigdísi

Í dag eru 35 ár liðin frá sögulegu kjöri Vigdísar Finnbogadóttur í embætti forseta Íslands en hún var fyrst kvenna í heiminum sem kosin var í lýðræðislegum kosningum til að gegna hlutverki þjóðhöfðingja. Af því tilefni verður efnt til hátíðardagskrár á Arnarhóli sunnudaginn 28. júní kl. 19.40-21.10.

Í dag eru 35 ár liðin frá sögulegu kjöri Vigdísar Finnbogadóttur í embætti forseta Íslands en hún var fyrst kvenna í heiminum sem kosin var í lýðræðislegum kosningum til að gegna hlutverki þjóðhöfðingja. Af því tilefni verður efnt til hátíðardagskrár á Arnarhóli sunnudaginn 28. júní kl. 19.40-21.10.

Að dagskránni standa Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Háskóli Íslands í samvinnu við Alþingi, ríkisstjórn Íslands, Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitarfélaga, Skógræktarfélag Íslands, Samtök atvinnulífsins og Samtök ferðaþjónustunnar ásamt tugum stofnana og félagasamtaka, sem beita sér fyrir málefnum, sem Vigdísi eru hugleikin.

Fjöldi listamanna kemur fram, en dagskránni er ætlað að höfða til alls almennings, ekki síst ungs fólks. Allir eru hvattir til að fjölmenna á Arnarhól, gleðjast saman og heiðra Vigdísi á merkum tímamótum.

Félagar úr blásarasveitinni Wonderbrass leika, Edda Þórarinsdóttir og Felix Bergsson flytja brot úr sápuóperunni Leitin að Jörundi í tónlistarstjórn Karls Olgeirssonar og Hjörleifur Hjartarson kynnir brot úr Sögu þjóðar.

Þá mun færeyska söngkonan Eivør Pálsdóttir og dönsku og sænsku óperusönvararnir Palle Knudsen og Ylva Kihlberg flytja kveðjur frá frændþjóðum með söng sínum.

Hljómsveitirnar Baggalútur og Samaris leika og syngja og ungt tónskáld, Már Gunnarsson, flytur frumsamið lag til Vigdísar. Sviðshöfundar og leikarar frá Listaháskóla Íslands og Stúdentaleikhúsinu varpa með sínum hætti ljósi á viðtekin viðhorf í þjóðfélaginu og hvernig framboð Vigdísar og forsetakjör breytti hugsunarhætti fólks.

Rithöfundarnir Kristín Helga Gunnarsdóttir og Jón Kalman Stefánsson flytja enn fremur tveggja manna tal. Einar K. Guðfinnsson forseti Alþingis og Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, flytja ávörp.  

Dagskránni verður sjónvarpað beint á RÚV. Listrænn stjórnandi er Kolbrún Halldórsdóttir og stjórnandi útsendingar sjónvarps Egill Eðvarðsson.

Sjá nánar:

Þjóðin sem valdi Vigdísi – dagskrá á Arnarhóli 28. júní 2015

Samtök atvinnulífsins