Þjóðfélagslýsing 1. maí!

Hún var ófögur lýsingin á þjóðfélagsástandinu í sameiginlegu ávarpi verkalýðshreyfingarinnar 1. maí. Í ávarpinu er því haldið fram að bilið milli ríkra og snauðra fari breikkandi þar sem peningamenn hafi rakað saman milljörðum á undanförnum árum í skjóli stjórnvalda sem bjóði þeim alls kyns fyrirgreiðslu og skattaívilnanir. Á sama tíma og ríkisvaldið gangi erinda efnamanna sé stöðugt þrengt að lágtekjufólki og útgjöld þess vaxi jafnt og þétt. Útgjöld til húsnæðis- og heilbrigðismála hafi margfaldast. Algengt sé að fólk veigri sér við að leita læknisþjónustu og kaupa nauðsynleg lyf vegna fátæktar og fátækt fólk standi í biðröðum við hjálparstofnanir eftir matargjöfum.

Svona ýkjur eru verkalýðshreyfingunni ekki til sóma því þessar lýsingar eiga lítið skylt við íslenskt þjóðfélag nú um stundir. Þótt vissulega séu til dæmi um mikla erfiðleika og jafnvel fátækt hér á landi, stenst þessi almenna heimsósómalýsing illa hlutlæga skoðun á íslensku þjóðfélagsástandi í dag.

Tekjujöfnuður óvíða meiri
Í fyrsta lagi þá er tekjujöfnuður á Íslandi með því mesta sem þekkist í heiminum samkvæmt tekjuskiptingaskýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá sl. hausti.  Jöfnuður var aðeins meiri í einu landi (Slóvakíu) af þeim 94 sem litið var til. 

Milljarðatap "peningamanna"
Í öðru lagi er það sérkennileg fullyrðing að "peningamenn" hafi "rakað saman milljörðum" undanfarin ár. Fall hlutabréfaverðs og gengistap á erlendum skuldum leiddi þvert á móti til þess að margur "peningamaðurinn" tapaði  miklu fé og nam samanlagt tap "peningamanna" af þessum ástæðum mörgum milljörðum króna.  Stærstu fjármagnseigendurnir, lífeyrissjóðirnir, hafa einmitt tapað miklum peningum vegna þróunar undanfarinna ára. Það færi lítið fyrir öflugu atvinnulífi og atvinnustigi ef ekki nyti fjármagns og "peningamanna."

Skattalækkanir meiri til launþega en fyrirtækja
Í þriðja lagi er vísað til breytinga á skattalögum sem koma til framkvæmda á þessu ári og hafa því ekki enn haft teljandi áhrif. Umræddar skattalagabreytingar voru ekki fjandsamlegri launþegum en það að lækkanir skatta á launþega voru meiri í krónum talið en lækkanir á fyrirtæki. Nánar tiltekið námu lækkanirnar 1,7 milljörðum á fyrirtæki en 5,4 milljarðar á launþega. Mörg fyrirtæki urðu fyrir nettóskattahækkun vegna hækkunar tryggingagjaldsins og afnáms verðbólgureikningsskila. 

Bættur hagur lægst launaðra
Í fjórða lagi er það rangt að stöðugt hafi verið þrengt að lágtekjufólki undanfarin ár.  Þvert á móti hefur staða lágtekjufólks verið bætt meira í kjarasamningum á undanförnum árum en nokkru sinni fyrr. Rækilega var sýnt fram á þessa staðreynd í aðdraganda samnings  SA og ASÍ í desember sl. 

Húsnæðisverð svipað og fyrir áratug
Í fimmta lagi er það rangt að útgjöld til húsnæðismála hafi margfaldast. Vissulega hefur húsnæðisverð hækkað mikið á undanförnum árum en þar á undan, raunar mest allan síðasta áratug, fór raunverð íbúðarhúsnæðis lækkandi.  Þegar litið er rúman áratug aftur í tímann er raunverð íbúðarhúsnæðis svipað nú og þá. 

Ódýrari heilbrigðisþjónusta
Loks er það alrangt að lyfjaverð og verð fyrir læknisþjónustu hafi margfaldast. Á fimm ára tímabilinu mars 1997 til mars 2002 hækkuðu lyf um 11,7% skv. vísitölu neysluverðs og læknishjálp um 16,5%. Vísitalan í heild hækkaði hins vegar töluvert meira, eða 24,5% á þessum fimm árum. 

Gamaldags gífuryrði
Sameiginlegt ávarp verkalýðshreyfingarinnar virtist þannig eiga lítið skylt við þann ábyrga málflutning sem verkalýðshreyfingin hefur viðhaft á undanförnum árum. Einhverjum virðist því enn finnast 1. maí gefa tilefni til að dusta rykið af gömlum átakastíl. Innistæðulítil og gamaldags gífuryrði um örbirgð og neyð eru hins vegar ekki viðeigandi lýsing á því þjóðfélagi sem við búum í þar sem kjörin eru betri en nokkru sinni fyrr, kaupmáttur í sögulegu hámarki og full atvinna ríkjandi.