Þéttum raðirnar

Á þessu ári hefur orðið breyting til batnaðar í verðlagsmálum sem gefur vonir um betri tíð og áframhaldandi stöðugleika í efnahagslífinu. Verðlag er stöðugt og verðbólga hefur verið undir 2,5% frá því í febrúar síðastliðnum og horfur á því að svo verði áfram næstu mánuði. Verðbólgan án húsnæðis er aðeins liðlega 1%. Leita þarf meira en áratug aftur í tímann til að finna sambærilegt dæmi um stöðugt verðlag hér á landi.

Verðbólguvæntingar hafa hjaðnað sem gefur fyrirheit um að fyrirtæki stilli verðbreytingum í hóf á næstunni. Gengi krónunnar hefur styrkst á árinu og er svipað og fyrir fjórum árum. Launabreytingar á árinu hafa vissulega verið of miklar, eða 5,9% síðastliðna 12 mánuði, sem skilað hefur launafólki í heild 3,5% kaupmáttaraukningu. Kaupmáttur launa á almennum vinnumarkaði var 3,4% hærri á 2. ársfjórðungi þessa árs en á sama fjórðungi í fyrra. Störfum hefur fjölgað um 5.000 síðustu 12 mánuði eða um 2,6%. Að öðru óbreyttu ætti þessi árangur að vera tilefni til mikillar ánægju meðal launafólks og samtaka þeirra og mætti ætla að áhersla yrði lögð á að varðveita hann og feta sömu braut áfram.

En það er öðru nær. Að mati ASÍ er frumvarp til fjárlaga 2015 aðför að launafólki og því sé enginn grundvöllur fyrir frekara samstarfi eða samræðu við ríkisstjórnina. Aðildarfélög ASÍ eru hvött til að undirbúa sig og félagsmenn sína fyrir harðari deilur við gerð kjarasamninga en verið hafa um áratuga skeið. Verkalýðshreyfingin muni beina miklum launakröfum að viðsemjendum sínum og jafnframt krefjast breytinga á stjórnarstefnunni.

Ríkisstjórnin áformaði í upphafi margháttað samráð og samstarf við aðila vinnumarkaðarins. Í bréfi forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra til aðilanna fyrir hönd ráðherranefndar um kjarasamninga, dags. 15. nóvember 2013, var þetta samstarf skilgreint. Kveðið var á um reglubundin samskipti, formleg og óformleg, vegna vinnumarkaðsgerða, skattamála, svartrar atvinnustarfsemi, samspil menntakerfis og vinnumarkaðar, aðgerða til að draga úr misnotkun bótafjár og tekjutilfærslna, almannatrygginga og lífeyrismála og menntamála. Þá átti að fara fram samstarf um efnahagsstefnuna í víðum skilningi, s.s. stefnu stjórnvalda í peningamálum og húsnæðismálum. Þá lýsti ríkisstjórnin því yfir þann 21. desember 2013 að endurskoðun á virðisaukaskattskerfinu yrði unnin í samráði við samtök atvinnurekenda og launþega.

Lítið hefur orðið úr þessum áformum stjórnvalda og veldur það miklum vonbrigðum. Reglubundin samskipti aðila hvað varðar efnahagsstefnuna í víðum skilningi hafa ekki verið til staðar frá undirritun síðustu kjarasamninga. Nefnd um mótun nýrrar peningastefnu sem áformað var að lyki störfum fyrir lok júní 2014 var ekki skipuð og engin reglubundin samskipti hvað varðar fjárlagagerðina hafa átt sér stað. Loks var samráð við aðila um breytingar á virðisaukaskattskerfinu í skötulíki. Brýnt er að laga það sem aflaga hefur farið og er ekki annað að skilja að fullur vilji sé til þess hjá stjórnvöldum .

Á undanförnum þremur áratugum hefur þróast uppbyggilegt þríhliða samstarf stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins í tengslum við gerð kjarasamninga. Traust og tíð samskipti hafa byggst upp og skilað ótvíræðum árangri. Víðtæk sátt hefur verið um að tryggja  vinnufrið og efnahagslegan stöðugleika. Forsenda árangursríks þríhliða samstarf er traust milli forystumanna ríkisstjórna á hverjum tíma og forystumanna heildarsamtaka á vinnumarkaði. Þar skortir á nú um stundir og það þarf að laga. Brýnt er stjórnvöld sýni vilja til uppbyggilegs samráðs með skýrum hætti á næstunni. Verkefnin eru enn þau sömu og áður; að auka kaupmátt og bæta lífskjör með hóflegum launahækkunum, lágri verðbólgu og efnahagslegum stöðugleika. Á því má aldrei missa sjónar í kappi dagsins. Það getur vart verið markmið ASÍ að kollvarpa þeim mikla árangri sem náðst hefur vegna óánægju með samstarf við stjórnvöld og forgangsröðun fjárlaga. Uppbygging kaupmáttar á grundvelli stöðugleika hlýtur að vera meginmarkmiðið. Aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld þurfa að þétta raðirnar til að nýta þá bættu stöðu launafólks sem við blasir.

Þorsteinn Víglundsson

Af vettvangi í september 2014