Það birtir til

Allt frá því að stjórnvöld kynntu áform sín um losun fjármagnshafta í júní síðastliðnum hafa slitabú gömlu bankanna unnið að því að uppfylla þau skilyrði sem stjórnvöld settu fyrir svonefndu stöðugleikaframlagi búanna ef þau ættu að komast hjá stöðugleikaskatti. Afhendi Glitnir ríkinu allt hlutafé sitt í Íslandsbanka virðist Seðlabanki Íslands geta staðfest að skilyrðin verði uppfyllt sem gerir búunum kleift að ljúka nauðasamningum.

Þetta er afar mikilvægur áfangi við losun fjármagnshafta sem hafa hvílt eins og mara á þjóðarbúinu undanfarin 7 ár. Stjórnvöld eiga hrós skilið fyrir meðferð þessa máls til þessa. Lagður hefur verið grunnur að lausn á málefnum slitabúanna sem ekki mun raska þjóðhagslegum stöðugleika og varða veginn áfram til losunar hafta. Það verður að vera forgangsmál hjá stjórnvöldum að losa um höftin sem fyrst.

Næstu skref eru ekki síður mikilvæg.

Ljúka þarf útboði til að hleypa eigendum svonefndra aflandskróna úr landi. Verðmæti sem koma í hlut ríkissjóðs verður að nýta skynsamlega. Forgangsmál ætti að vera að selja eins hratt og kostur er hlutabréf sem renna til ríkisins og nýta fjármagnið til að greiða niður skuldir. Með mótvægisaðgerðum verður að tryggja að peningamagn í umferð aukist ekki með tilheyrandi þensluáhrifum.

Endurskipulagning bankakerfisins er afar brýn en þegar Íslandsbanki kemst í eigu ríkissjóðs um áramótin verða tveir af þremur viðskiptabönkunum í meirihlutaeigu ríkisins. Jafngildir það að ríkið ráði 70% af þessum markaði auk þess að eiga 13% hlut í Arion banka. Slík ríkisumsvif í fjármálakerfinu eru óþekkt á Vesturlöndum. Áhætta ríkisins af þessum rekstri yrði allt of mikil. Engin ástæða er heldur til að ríkið sé aðalgerandi á samkeppnismarkaði sem bankaþjónusta er. Eðlilegra er að skapa bönkunum rekstrarumhverfi sem dregur úr hættu á áföllum og tryggir almennt öryggi sparifjáreigenda og fjárfesta. Eigið fé bankanna er nú um 30% sem er langt umfram alþjóðlegar varúðarreglur og kenndar eru við Basel. Til þess að skila eigendum sínum viðunandi ávöxtun verður þjónusta bankanna miklu dýrari en hún þyrfti að vera og verður að lækka þetta hlutfall án þess að auka áhættu um of.

Með uppgjöri þrotabúa bankanna skapast loks grundvöllur til losunar gjaldeyrishafta og skref í þá átt verður að stíga sem fyrst. Alþjóðlegri starfsemi íslenskra fyrirtækja hafa verið reistar verulegar skorður með höftunum sem ryðja verður úr vegi eins hratt og kostur er. Fyrirtæki verða að fá tækifæri til að fjárfesta erlendis og nýta tækifæri sem þar bjóðast til að efla nýsköpun, vöruþróun og markaðssókn. Þau verða að búa við sambærileg skilyrði og samkeppnisaðilar í nálægum löndum.

Það er nauðsynlegt að greiða götu lífeyrissjóða til að fjárfesta í erlendum eignum. Höftin hafa grafið undan heilbrigði íslenska lífeyriskerfisins þar sem erlendar eignir sjóðanna í hlutfalli af heildareignum þeirra hafa dregist verulega saman á undanförnum árum. Ávöxtun þeirra er minni en ella og áhætta meiri, og stíga verður mun ákveðnari skref til að heimila þeim fjárfestingar erlendis en gert er í áætlunum sem kynntar hafa verið. Lífeyrissjóðirnir þyrftu fremur að búa við reglur um lágmarkshlutdeild erlendra eigna en núverandi 50% hámarkshlutdeild.

Jafn vel verður að vanda til næstu skrefa við losun hafta og gert var við sköpun stöðugleikaskilyrða þar sem sett voru þröng tímamörk til að ljúka málum. Íslenskt efnahagslíf á mikið undir því að ákveðið verði gengið til verks. Af því ráðast velferð og hagur heimila og fyrirtækja hér á landi til langs tíma.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA.

Leiðari fréttabréfsins Af vettvangi í október 2015.