Fréttir - 

20. janúar 2017

Tékklisti fyrir fjármálaráðherra

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Tékklisti fyrir fjármálaráðherra

Á þessu ári vinna Íslendingar ellefu dögum lengur fyrir hið opinbera en þeir gerðu árið 2009. Ísland er háskattaland og það er ekkert svigrúm til skattahækkana á komandi misserum.

Á þessu ári vinna Íslendingar ellefu dögum lengur fyrir hið opinbera en þeir gerðu árið 2009. Ísland er háskattaland og það er ekkert svigrúm til skattahækkana á komandi misserum.

Sporin hræða þegar litið er yfir farinn veg en á síðustu átta árum hafa verið gerðar yfir tvöhundruð breytingar á sköttum landsmanna, yfirleitt til hækkunar, þó svo að á því séu ánægjulegar undantekningar. Ríkið tekur meira til sín en áður, starfsmaður sem vinnur átta tíma vinnudag og hefur störf klukkan átta er til sautján mínútur yfir tíu  að vinna fyrir Benedikt Jóhannesson, nýjan fjármálaráðherra Íslands ef einungis er tekið tillit til launaskatta. 

Örar breytingar á skattkerfinu flækja það og gera fyrirtækjum erfiðara að gera áætlanir um framtíðina en það kemur niður á nýsköpun og dregur úr hagvexti.

Nýjum fjármálaráðherra óska ég velfarnaðar í starfi og hvet hann til þess að einfalda skattkerfið og gera það skilvirkara. Mikil og vönduð vinna hefur átt sér stað, m.a. hjá Samráðsvettvangi um aukna hagsæld, um hvernig má gera skattkerfið betra og lækka byrðar millitekjufólks.

Til þess að hægt sé að lækka skatta þarf hið opinbera að draga úr umsvifum sínum en það þenst því miður stanslaust út og ríkisútgjöld vaxa nú hraðar en á síðasta þensluskeiði. Nánast öllu sem kemur í ríkiskassann er eytt jafnharðan í stað þess að búa í haginn til mögru áranna.

Tryggingagjaldið er enn of hátt þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi minnkað hratt. Stjórnendur fyrirtækja eru orðnir langþreyttir á loforðum allra stjórnmálaflokka á undanförnum árum um að tryggingagjaldið verði lækkað. Gjaldið er vondur skattur sem kemur harðast niður á litlum og meðalstjórum fyrirtækjum.

Ég legg fram tékklista fyrir fjármálaráðherra um brýnustu verkefni kjörtímabilsins. Vonandi verður hakað við sem mest af þessu:

  • Lækka skatta – Ísland þarf ekki að vera háskattaland til framtíðar.
  • Ekki hækka skatta – nema að jafnmikil skattalækkun komi á móti.
  • Ekki byggja útgjaldaaukningu á góðæristekjustofnum – gjaldahlið fjárlaga er tregbreytanleg.
  • Minnka umsvif ríkisins og skapa svigrúm til skattalækkana – agi í ríkisfjármálum er forsenda stöðugleika.
  • Tryggja aukinn fyrirsjáanleika með fáum en jafnframt góðum skattkerfisbreytingum.

Forsendur eru fyrir lækkun skulda ríkissjóðs sem gefur færi á auknum framlögum til mikilvægra verkefna, einkum  ef bjartsýnar spár um lengsta hagvaxtartímabil Íslandssögunnar og þar með mikla og stöðuga tekjuaukningu ríkissjóðs rætast ekki.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Leiðari fréttabréfsins Af vettvangi í janúar 2017

Tengt efni:

Tékklisti fyrir fjármálaráðherra – kynning framkvæmdastjóra SA á skattadegi Deloitte 19. janúar 2017 (PDF)

Samtök atvinnulífsins