Efnahagsmál - 

05. janúar 2006

Takk fyrir ánægjulegan tíma

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Takk fyrir ánægjulegan tíma

Nú um hátíðarnar tók undirritaður ákvörðun um að söðla um og ráða sig í starf forstjóra 365 fjölmiðla, eftir að hafa gegnt starfi framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins frá stofnun. Ég var ráðinn frá 1. september 1999 og stofnfundur var haldinn 15. sama mánaðar, en stofndagur Samtaka atvinnulífsins var 1. október 1999.

Nú um hátíðarnar tók undirritaður ákvörðun um að söðla um og ráða sig í starf forstjóra 365 fjölmiðla, eftir að hafa gegnt starfi framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins frá stofnun. Ég var ráðinn frá 1. september 1999 og stofnfundur var haldinn 15. sama mánaðar, en stofndagur Samtaka atvinnulífsins var 1. október 1999.

Einföldun á félagakerfi atvinnulífsins

Markmiðið með stofnun samtakanna var ekki síst að einfalda félagakerfi atvinnulífsins og styrkja rödd þess í þjóðfélagsumræðunni, með því að það gæti talað einni röddu í flestum málum. Auk aðildar að SA eiga fyrirtæki aðild að aðildarfélagi tengdu atvinnugrein og voru þau sjö við stofnun SA. Ný aðildarfélög höfðu orðið til á sviði fjármálaþjónustu, ferðaþjónustu og á sviði verslunar og þjónustu, og samtökin höfðu því strax breiðari skírskotun en forverar þeirra, Vinnuveitendasamband Íslands og Vinnumálasambandið. Hafa samtökin síðan haldið áfram að styrkjast, m.a. með innkomu orku- og veitufyrirtækja á síðasta ári. Er gott samstarf og verkaskipting á milli SA og aðildarfélaga en þar skiptir sköpum sameining þessarar starfsemi í hinu glæsilega Húsi atvinnulífsins við Borgartún, árið 2002.

Samningar til ársloka 2007

Eitt mikilvægasta, ef ekki lang mikilvægasta, verkefni samtaka á borð við SA, er að stuðla að vinnufriði, í samvinnu við aðra aðila á vinnumarkaðnum og stjórnvöld. Á því sviði hefur vel farnast á undanförnum árum. Kjarasamningar sem SA eiga aðild að núna hafa gildistíma út árið 2007 eða lengur, en eru háðir forsendu um verðbólguþróun. Nýir heildarkjarasamningar ættu því ekki að verða á dagskrá fyrr en í upphafi árs 2008. Varðandi vinnufrið og verðmætasköpun hefur verið sérstaklega ánægjulegt á síðustu samningstímabilum að fylgjast með þróuninni í samningum um laun sjómanna á fiskiskipum, en þar hefur Landssamband íslenskra útvegsmanna verið í forsvari fyrir hönd vinnuveitenda. Nýlegur samningur við vélstjóra tengir saman samninga fiskimanna til vors 2008, og allt í frjálsum samningum! Er ljóst að hér eru menn að uppskera árangur af langri göngu, þar sem ýmsum kerfislægum hindrunum hefur þurft að ryðja úr vegi, svo sem tengingu launa samkvæmt kjarasamningum við ákvörðun fiskverðs við mismunandi aðstæður. Má telja að samskipti á þessu sviði séu nú í svipuðum farvegi og á öðrum sviðum almenna vinnumarkaðarins, þar sem úrvinnsla á sameiginlegum hagsmunum fólks og fyrirtækja er meginstefið.

Bætt lífskjör

Það hefur reyndar verið bjargföst trú okkar sem störfum fyrir SA, að æðsta markmið samtakanna sé að bæta lífskjör á Íslandi. Auk aðkomu að kjaramálum kemur það fyrst og fremst fram í tillöguflutningi samtakanna um umbætur á ýmsum sviðum þjóðlífsins, sem er ætlað að hafa jákvæð áhrif á samkeppnisstöðu Íslands, auka verðmætasköpun, framleiðni og samkeppni, en vinna gegn óhagkvæmni. Hefur meginstarfsemi skrifstofu SA verið skipt upp í tvö svið; vinnumarkaðssvið og stefnumótunar- og samskiptasvið, til að tryggja að málefnavinna samtakanna geti verið viðvarandi og ótrufluð af hræringum í kjaramálunum. Mikil áhersla hefur líka verið lögð á að allur málflutningur samtakanna hafi góðan hagfræðilegan grundvöll og því verið rekin hagdeild til stuðnings hinum sviðunum og forystu samtakanna.

Auk þess sem ég hef haft framúrskarandi samstarfsmenn á skrifstofu SA, hafa samtökin notið þess að helstu forystumenn í atvinnulífinu á hverjum tíma hafa gefið kost á sér til kjörinnar forystu og sinnt henni af áhuga. Er óskandi að svo verði áfram. Mest hefur auðvitað mætt á formönnunum, sem hafa verið tveir frá upphafi, Finnur Geirsson og Ingimundur Sigurpálsson. Vil ég þakka þeim frábært samstarf.

Ég held af ýmsum ástæðum að nú sé ágætur tími til framkvæmdastjóraskipta hjá SA, bæði fyrir mig og samtökin. Ég hef haft ómælda ánægju af þessu starfi og vil að lokum þakka öllum aðildarfyrirtækjum samtakanna fyrir að hafa fengið tækifæri til að vinna að málefnum íslensks atvinnulífs á þessum skemmtilegu uppgangs og umbrotatímum.

Gleðilegt ár!

Ari Edwald

Samtök atvinnulífsins