Vinnumarkaður - 

06. desember 2001

Tafir á umsögnum um atvinnuleyfi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Tafir á umsögnum um atvinnuleyfi

Samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga hafa stéttarfélög fjórtán daga til að veita umsögn vegna atvinnuleyfisumsókna fyrir fólk frá löndum utan EES. Að undanförnu hefur talsvert borið á því að tiltekin stéttarfélög hafi tafið slík mál, t.d. með því að gera síðbúnar athugasemdir við útfyllingu eyðublaða eða tengja veitingu umsagnar við óskyld mál.

Samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga hafa stéttarfélög fjórtán daga til að veita umsögn vegna atvinnuleyfisumsókna fyrir fólk frá löndum utan EES. Að undanförnu hefur talsvert borið á því að tiltekin stéttarfélög hafi tafið slík mál, t.d. með því að gera síðbúnar athugasemdir við útfyllingu eyðublaða eða tengja veitingu umsagnar við óskyld mál.

Skrýtnar uppákomur
Dæmi er um að stéttarfélag geri kröfur um breytingar á kjörum íslenskra starfsmanna viðkomandi fyrirtækis gegn því að gefa jákvæða umsögn um umsókn um útgáfu atvinnuleyfis.  Þá er dæmi um að stöðuhækkun erlends starfsmanns hafi þvælst fyrir Vinnumálastofnun við endurnýjun atvinnuleyfis hans, en þau eru veitt til eins árs í senn. Krafist var umsagnar stéttarfélags, þó að starfsmaðurinn hefði unnið sig upp í stjórnunarstöðu sem var utan samningssviðs stéttarfélaga. Óljóst er um niðurstöðu eftir nokkurra vikna bið.

Flókið og úrelt fyrirkomulag
Leið starfsfólks frá löndum utan EES inn á íslenskan vinnumarkað er flókin. Afla þarf dvalarleyfis frá Útlendingaeftirliti og atvinnuleyfis frá Vinnumálastofnun. Í stað þess að Vinnumálastofnun leiti umsagnar stéttarfélags er viðkomandi atvinnurekanda gert að afla umsagnar stéttarfélags og koma henni til Vinnumálastofnunar. Umsagnarréttur stéttarfélaga miðaðist á sínum tíma við yfirsýn þeirra yfir ástand á vinnumarkaði, en eftir tilkomu svæðisvinnumiðlana árið 1997 hafa stéttarfélögin ekki lengur þessa yfirsýn.

Frumvörp fyrir Alþingi
Samtök atvinnulífsins hafa ítrekað bent á tímaskekkju þá sem umsagnarréttur stéttarfélaga felur í sér eftir tilkomu svæðisvinnumiðlana og lagt til að hann verði afnuminn. Þá hafa samtökin lagt til að gerðar verði breytingar á þessu fyrirkomulagi í heild. Þannig verði einni stofnun, Útlendingaeftirlitinu, falið að gefa út bæði dvalar- og atvinnuleyfi, líkt og gert er á hinum Norðurlöndunum. Loks hafa samtökin lagt til að tímabundin atvinnuleyfi verði gefin út í nafni viðkomandi starfsmanns, eins og gert er á hinum Norðurlöndunum, en ekki á nafni þess fyrirtækis sem hann hyggst starfa fyrir. Fyrir Alþingi liggja nú frumvörp til laga um atvinnuréttindi útlendinga og til nýrra útlendingalaga. Nú er því upplagt tækifæri til að einfalda þetta flókna og úrelta fyrirkomulag.

Samtök atvinnulífsins