Efnahagsmál - 

16. Maí 2013

Tækifæri til að breyta um stefnu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Tækifæri til að breyta um stefnu

Það er mikilvægt að víðtæk samstaða náist um trúverðuga áætlun sem hefur að markmiði að auka framleiðni og verðmætasköpun í hagkerfinu. Þetta verður að leiða til þess að hagvöxtur á Íslandi verði meiri en í samkeppnisríkjunum og hann verður að ná til allra atvinnugreina og þar er landbúnaðurinn ekki undanskilinn.Þetta sagði Björgólfur Jóhannsson, formaður Samtaka atvinnulífsins m.a. í erindi á umræðufundi Samtaka mjólkur og kjötvinnslufyrirtækja. Þar velti hann fyrir sér möguleikum til að auka framleiðni í íslenskum landbúnaði til að bæta hag neytenda og framleiðenda.

Það er mikilvægt að víðtæk samstaða náist um trúverðuga áætlun sem hefur að markmiði að auka framleiðni og verðmætasköpun í hagkerfinu. Þetta verður að leiða til þess að hagvöxtur á Íslandi verði meiri en í samkeppnisríkjunum og hann verður að ná til allra atvinnugreina og þar er landbúnaðurinn ekki undanskilinn.Þetta sagði Björgólfur Jóhannsson, formaður Samtaka atvinnulífsins m.a. í erindi á umræðufundi Samtaka mjólkur og kjötvinnslufyrirtækja. Þar velti hann fyrir sér möguleikum til að auka framleiðni í íslenskum landbúnaði til að bæta hag neytenda og framleiðenda.

Formaður SA telur brýnt að ný ríkisstjórn kalli bændasamtökin, aðila vinnumarkaðarins og stjórnvöld til samstarfs um úrbætur á landbúnaðarkerfinu með það að markmiði að auka hagræðingu og efla samkeppni, lækka tolla og vörugjöld og þar með verð til neytenda ásamt því að tryggja afkomu bændanna sjálfra.

Erindi Björgólfs í heild má lesa í heild hér að neðan:

"Í lok október síðastliðnum skilaði ráðgjafafyrirtækið McKinsey viðamikilli skýrslu um möguleika Íslands til hagvaxtar. Þar kom fram að undanfarin ár hafi landið verið að falla niður á lista yfir efnuðustu ríki heims. Einnig var bent á að framleiðni er lægri í fjölmörgum greinum íslensks atvinnulífs en í samkeppnislöndum okkar.

Að undanförnu hafa einnig komið fram áhyggjur af því að hagvöxtur hér á landi sé mun lægri en nauðsynlegt er til að bæta lífskjör. Fjárfestingar eru einnig minni en til að mæta því sem úr sér gengur auk þess sem ný uppbygging situr á hakanum á öllum sviðum.

Fari svo fram sem horfir mun það taka Íslendinga langan tíma að ná fyrri efnahagslegum styrkleika. Á meðan margar þjóðir bæta sinn hag jafnt og þétt þá er hættan sú að hér á landi dragist lífskjör enn aftur úr því sem gerist í löndunum í kringum okkur. Þá mun hægt draga úr atvinnuleysi og fólk mun halda áfram að sækjast eftir störfum erlendis. Það er ástæðulaust að draga upp enn gleggri mynd af þessum vítahring enda er nú tækifæri til að breyta um stefnu, taka upp ný vinnubrögð og rjúfa kyrrstöðuna.

Samtök atvinnulífsins hafa kallað eftir stöðugleika í efnahags- og peningamálum, auknum fjárfestingum, endurskoðun skattkerfisins, afnámi gjaldeyrishafta og áherslu á að auka  samkeppnishæfni atvinnulífsins í heild sinni.

Það er mikilvægt, ef takast á að brjótast út úr ferli hnignunar, að víðtæk samstaða náist um trúverðuga áætlun sem hefur að markmiði að auka  framleiðni og verðmætasköpun í hagkerfinu. Þetta verður að leiða til þess að hagvöxtur á Íslandi verði meiri en í samkeppnisríkjunum og hann verður að ná til allra atvinnugreina og þar er landbúnaðurinn ekki undanskilinn.

En stóra spurningin er þessi: Hvernig aukum við framleiðni í landbúnaði?

Á undanförnum áratugum hefur landbúnaðurinn að minnsta kosti tvisvar gengið í gegnum miklar  skipulagsbreytingar. Í bæði skiptin hafa þær verið liður í því að auka hagræðingu við framleiðsluna og bæta hag neytenda.

Í fyrra skiptið voru bændasamtökin fullir aðilar að þjóðarsáttinni árið 1990 en í kjölfar hennar var skipuð nefnd sem lagði fram tillögur sem miðuðu að því að innlend búvöruframleiðsla yrði hagkvæmari og að kostnaður lækkaði á öllum stigum framleiðslunnar. Þar var átt við búreksturinn sjálfan, vinnslu landbúnaðarafurða ásamt sölu- og markaðskerfið. Í seinna skiptið, sem ég hef í huga, skilaði nefnd í janúar 2002 tillögum til landbúnaðarráðherra um aðgerðir til að tryggja framleiðslu íslenskra garðyrkjubænda og lækka verð á afurðum þeirra til neytenda. Í báðum nefndunum áttu sæti fulltrúar aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda auk fulltrúa bændasamtakanna. Í bæði skiptin náðist samkomulag um víðtækar breytingar á því kerfi sem stuðningur við búgreinarnar hafði byggst á. Í bæði skiptin varð árangurinn verulegur. Það þarf ekki að fara víða um sveitir landsins til að sjá hve búin hafa stækkað mikið, sérhæfing aukist og gæðin aukist. Þessar breytingar voru framleiðendum og neytendum til hagsbóta.

Þessi tvö dæmi frá síðustu tveimur áratugum staðfesta svo ekki verður um villst að í sameiningu getum við aukið hagkvæmni, lækkað verð til neytenda og tryggt afkomu stéttarinnar. Það er á þessum grunni sem við eigum að byggja til framtíðar.

Samtök atvinnulífsins telja mikilvægt að hér á landi sé rekinn öflugur landbúnaður þar sem afkoma bænda er tryggð, hvatt er til hagræðingar og opnað fyrir aukna samkeppni eins og kostur er. Að undanförnu hefur skapast mikil umræða um tolla og vörugjöld á landbúnaðarvörur og fram hefur komið að unnt sé að lækka matarreikning heimila um verulegar fjárhæðir verði þessi gjöld lækkuð eða afnumin með öllu. Það er ekki unnt að skella skollaeyrum við þessum röddum sem eiga töluvert til síns máls enda er svokallaður markaðsstuðningur við búgreinarnar talinn í milljörðum ár hvert. Þessi stuðningur er ekki greiddur úr ríkissjóði heldur beint af neytendum að verulegu leyti og kemur fram í hærra vöruverði.

Ég átta mig hins vegar á að umræða af þessu tagi verður oft ruglingsleg.Til að mynda á hreint ekki alltaf við að tala um tolla og vörugjöld í sömu andrá. Við hljótum öll að vera sammála um að það eigi að afnema vörugjöld af matvælum sem allra fyrst. Þau leggjast bæði á innlendar og innfluttar vörur og eiga ekki að hafa áhrif á samkeppnisstöðu, heldur eru bara hugsuð sem aukaskattheimta sem hækkar vöruverð og flækir kerfið. Gjöldin eru oft réttlætt með missannfærandi lýðheilsusjónarmiðum. Í framkvæmd eru gjöldin oft afar ruglingsleg, handahófskennd og ófyrirsjáanleg og geta valdið óvæntri röskun á samkeppnisstöðu.

Tollar eru af öðrum toga. Eðli málsins samkvæmt eru þeir hugsaðir sem vernd fyrir innlenda framleiðslu. Breytingar á þeim varða uppstokkun á stuðningi við landbúnaðinn, samhengi við ríkisstyrki annarra landa, verð á neysluvörum innanlands, samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu við útlönd og innbyrðis styrkleika ólíkra greina í innlendu virðiskeðjunni. Ég veit að allir eru sammála því að menn eiga að auka hagræðingu og nýta sem best þá fjármuni sem veittir eru til stuðnings við landbúnaðinn, hvort sem er beint eða óbeint. Endurskoðun á verndartollum er ekki einfalt mál, það þarf að vanda mjög til verka. Þar þurfa allir hlutaðeigandi að koma að borðinu. En verum viss um að á þessu sviði mun verða þróun og það verða breytingar, sem ekki munu allar falla í kramið. Innlendir framleiðendur eiga að hafa frumkvæðið í þessari þróun og gæta þess að hún verði ekki skrykkjótt og hættuleg, heldur fyrirsjáanleg og aðgengileg fyrir þá sem hagsmuna eiga að gæta.

Samkeppni er grundvöllur framfara í atvinnulífinu. Fyrirtækin keppa hvert við annað um að bjóða nýja vöru og þjónustu. Í öllum greinum leggja nýsköpun og rannsóknir  grunn að hagvexti og nýjum störfum. Það kann því að vera vafasamur greiði við landbúnaðinn að hluti hans skuli undanþeginn samkeppnislögum almennt. Er sá angi landbúnaðar sem lýtur opinberri verðlagningu betur settur við það kerfi? Ég tel vert að hafa í huga að miðstýrð, opinber verðlagning getur skapað falskt skjól fyrir framleiðendur og virkað sem dragbítur á tækniframfarir og nauðsynlega hagræðingu.Ég tel einsýnt að frjáls verðlagning og samkeppni skili betri rekstri og ódýrari vöru til lengri tíma litið.

Í viðtali við forstjóra Mjólkursamsölunnar  sem fjallar um útflutning og birtist í Bændablaðinu 8. maí kom fram að hindranir vegna tolla á skyri í öðrum löndum standi möguleikum Mjólkursamsölunnar til frekari sóknar erlendis fyrir þrifum. Gæði íslenska skyrsins eru mikil og möguleikar til markaðssetningar á grundvelli þess eru vaxandi. Ég tek undir með Einari þar sem hann segir mikilvægt að hasla sér frekari völl erlendis. Það opni á fjölmörg tækifæri, til dæmis aukna framleiðslu og hærra verð fyrir afurðirnar. Við verðum að trúa því að okkar framleiðsla hafi þá sérstöðu á mörkuðum að hún eigi sóknarmöguleika á forsendum gæða.

Það má heldur ekki gleymast í umræðunni að sérstaða og hreinleiki Íslands hefur skipt sköpum í mikilli sókn ferðaþjónustu á undanförnum árum. Ferðamenn sækja mikið í íslenska náttúru en á síðustu árum hefur íslensk menning einnig vegið þungt í þeirra huga. Matarmenning er þar ekki undanskilin og er hluti af upplifun erlendra ferðamanna sem koma til landsins. Þannig er mikilvægt fyrir okkur að við náum að halda þeirri sérstöðu og hlúa að íslenskri matvælaframleiðslu.  Það þýðir að við verðum að leita hagræðingar í okkar framleiðslu í landbúnaði eins og í öllum öðrum greinum. Auðvitað er lang árangursríkast að frumkvæðið komi frá atvinnugreininni sjálfri. Það er ykkar að taka frumkvæðið og leggja fram tillögur að framtíðarskipan þessara mála.

Ég tel það brýnt að ný ríkisstjórn kalli á ný til samstarfs bændasamtakanna, aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um frekari úrbætur á landbúnaðarkerfinu með það að markmiði að auka enn hagræðingu og efla samkeppni, lækka tolla og vörugjöld og þar með verð til neytenda ásamt því að tryggja afkomu bændanna sjálfra. Í þeirri vinnu er mikilvægt að greinin sjálf komi vel undirbúin til að tryggja megi farsæla lausn, landi og þjóð til heilla."

Björgólfur Jóhannsson, formaður SA, á umræðufundi Samtaka mjólkur- og kjötvinnslufyrirtækja, 15. maí 2013.

Samtök atvinnulífsins