Efnahagsmál - 

05. apríl 2001

Tækifæri framundan

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Tækifæri framundan

Samtök atvinnulífsins hafa fagnað ákvörðun Seðlabankans um að lækka vexti og telja að sú ákvörðun hafi verið orðin tímabær. Vaxtalækkunin staðfestir það mat stjórnvalda að íslenskt efnahagslíf sé komið yfir erfiðasta hjallann í þeirri ofþenslu sem við hefur verið að glíma síðustu misseri.

Samtök atvinnulífsins hafa fagnað ákvörðun Seðlabankans um að lækka vexti og telja að sú ákvörðun hafi verið orðin tímabær. Vaxtalækkunin staðfestir það mat  stjórnvalda að íslenskt efnahagslíf sé komið yfir erfiðasta hjallann í þeirri ofþenslu sem við hefur verið að glíma síðustu misseri.

Hægir á í efnahagslífinu
Samtök atvinnulífsins telja nægjanlegar vísbendingar um að það hafi hægt það mikið á efnahagslífinu að rétt sé að taka upp vaxtalækkunarferli fram eftir þessu ári.   Það sem skiptir höfuðmáli er að ekki hægi of hratt á hagvexti og vaxtalækkanir geta stuðlað að því að þróunin verði jafnari en annars. Fleira þarf þó til að koma því verulegar líkur má leiða að því að samdráttur gæti orðið meiri þegar líður á haustið, en menn hafa verið að gera ráð fyrir.

Því til rökstuðnings má nefna að áform fyrirtækja um fjárfestingar og önnur útgjöld munu markast af slæmum rekstrarniðurstöðum síðasta árs, og enn bendir fátt til verulegra umskipta til hins betra á þessu ári. Mörgum stórum framkvæmdum og ýmsum verkefnum í verslunar- og skrifstofuhúsnæði lýkur á næstu sex mánuðum. Erfitt er að meta auðsáhrif fasteignaverðs og hlutabréfaverðs, en fall hlutabréfa og stöðvun verðhækkana á fasteignum hlýtur að hafa mikil áhrif á efnahag og útgjöld fyrirtækja og heimila. Markaðsverðmæti íslenskra fyrirtækja á hlutabréfamarkaði hefur lækkað um u.þ.b. 200 milljarða á einu ári! Gengislækkun síðasta og þessa árs  dregur úr kaupmætti launa og einkaneyslu þar með, og mikil skuldaaukning heimilanna undanfarin misseri mun einnig draga úr neyslu þegar fram í sækir og aukin greiðslubyrði segir til sín.

Umbætur í skattamálum og erlend fjárfesting
Það má þó til sanns vegar færa að Íslendingum veiti ekki af því að draga aðeins andann á þessu ári eftir mikið hagvaxtarskeið, en nú er tími ákvarðana sem skjóta munu stoðum undir væntingar um aukna arðsemi í atvinnulífinu í framtíðinni og tiltrú á efnahagslífið. Tækifærin liggja m.a. í því að skapa fyrirtækjum hagstæðara rekstrarumhverfi, sérstaklega í skattamálum, í einkavæðingu ríkisfyrirtækja og í því að laða erlenda fjárfestingu  að landinu.

Ánægjulegt er að heyra þann jákvæða tón sem forystumenn ríkisstjórnarflokkanna og fleiri stjórnmálamenn hafa sent frá sér um þessi efni, ekki síst í skattamálum. Eins og fram kemur í þessu fréttabréfi er það ekki rétt að skattbyrði fyrirtækja hafi lækkað hér á landi á undanförnum árum, eins og gjarnan er haldið fram í umræðunni. Þar segir tekjuskattsprósenta ekki alla söguna. Íslensk fyrirtæki glíma líka enn við skatta sem að mestu eru horfnir annars staðar, svo sem stimpilgjöld, ýmsa flokka vörugjalda og eignarskatta, sem þyngjast hratt vegna bættrar eiginfjárstöðu íslenskra fyrirtækja.

Skattahópur Samtaka atvinnulífsins vinnur nú að gerð ítarlegrar skýrslu þar sem lagðar verða fram rökstuddar tillögur til úrbóta á starfsskilyrðum fyrirtækja. Skýrslan verður kynnt innan fárra vikna.

Samtök atvinnulífsins