Efnahagsmál - 

03. nóvember 2011

Svört vinna skekkir samkeppnisstöðu fyrirtækja

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Svört vinna skekkir samkeppnisstöðu fyrirtækja

Samtök atvinnulífsins (SA), Alþýðusamband Íslands (ASÍ) og ríkisskattstjóri (RSK) gerðu með sér samkomulag í júní sl. um tímabundið átak gegn svartri atvinnustarfsemi undir yfirskriftinni Leggur þú þitt af mörkum? Var samkomulagið gert í kjölfar undirritunar nýrra kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í maí en í aðdraganda samninganna urðu miklar umræður um neikvæðar afleiðingar svartrar atvinnustarfsemi og hvernig mætti efla góða atvinnuhætti. Helstu niðurstöður verkefnisins liggja nú fyrir en átakið náði til fyrirtækja með ársveltu undir einum milljarði.

Samtök atvinnulífsins (SA), Alþýðusamband Íslands (ASÍ) og ríkisskattstjóri (RSK) gerðu með sér samkomulag í júní sl. um tímabundið átak gegn svartri atvinnustarfsemi undir yfirskriftinni Leggur þú þitt af mörkum? Var samkomulagið gert í kjölfar undirritunar nýrra kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í maí en í aðdraganda samninganna urðu miklar umræður um neikvæðar afleiðingar svartrar atvinnustarfsemi og hvernig mætti efla góða atvinnuhætti. Helstu niðurstöður verkefnisins liggja nú fyrir en átakið náði til fyrirtækja með ársveltu undir einum milljarði.


Leggur þú þitt af mörkum?Rík áhersla var lögð á að nálgast viðfangsefnið með jákvæðum formerkjum, þar sem meginmark­miðið væri að kanna aðstæður, veita ráðgjöf og fræðslu um viðeigandi reglur og lagaramma og hvetja bæði atvinnurekendur og launafólk til að gera nauðsynlegar úrbætur ef þörf krefði. Alls voru 2.024 lögaðilar heimsóttir á 2.136 starfsstöðvum um land allt og voru 6.167 starfsmenn skráðir. Teymi frá ASÍ, SA og RSK sóttu fyrirtækin heim en samstarf þessara aðila í baráttunni gegn svartri atvinnustarfsemi er nýlunda. Um 45% fyrirtækja reyndust vera með öll sín mál í lagi en 55% fyrirtækja fengu leiðbeinandi ábendingar um það sem betur mætti fara eða beinar athugasemdir. Opinber gjöld um  400 fyrirtækja verða endurákvörðuð í kjölfar verkefnisins.


Það er mat ASÍ, SA og RSK að átakið hafi reynst árangursríkt en það er langtímaverkefni að draga úr svartri vinnu á Íslandi. Markmiðið er að allir launþegar njóti þeirra réttinda sem þeim ber af vinnu sinni, fyrirtæki búi við jafna samkeppnisstöðu og að samfélagið verði ekki af tekjum sem renna í sameiginlega sjóði og fjármagna velferðarkerfið. Ljóst er að tap samfélagsins vegna svartrar vinnu er umtalsvert, en það er mat ríkisskattstjóra að það geti numið um 14 milljörðum króna á ári hjá fyrirtækjum með veltu undir einum milljarði á ári, en ekki er hægt að meta heildarskaðann út frá niðurstöðum átaks ASÍ, SA og RSK. Niðurstöður staðfesta þó að svört vinna er umtalsverð á Íslandi, en 12 af hverjum 100 starfsmönnum sem athugaðir voru reyndust í svartri vinnu.

Helstu niðurstöður verkefnisins má nálgast í skýrslu hér að neðan en niðurstöður voru kynntar á blaðamannafundi í gær. Þar sagði Vilmundur Jósefsson, formaður SA, að nauðsynlegt hafi verið að ráðast í átak sem þetta en umfang svörtu vinnunnar hafi reynst mun meira en hann átti von á. Það sé grafalvarlegt þegar fyrirtæki stundi svarta atvinnustarfsemi þar sem það skekki samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem fari að lögum og reglum.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA sagði við sama tækifæri ólíðandi að ákveðin fyrirtæki búi við heimatilbúin skattalög og taki lögin í sínar eigin hendur. Vilhjálmur sagði margar breytingar á skattkerfinu á undanförnum árum hafi eflaust haft áhrif á skattskil en það afsaki ekki undanskot. Áfram verði að vinna gegn svartri vinnu ásamt því að lagfæra það sem hefur miður farið í skattkerfinu.


Samstarfsaðilar eru sammála um að viðhorfsbreyting gegn svartri vinnu er nauðsynleg svo allir spili eftir sömu leikreglunum en þar leika neytendur ekki síður mikilvægt hlutverk en atvinnurekendur, launþegar og opinberir eftirlitsaðilar, því svört atvinnustarfsemi þrífst ekki nema með þátttöku þeirra. Ríkisskattstjóri mun í kjölfar átaksins efla upplýsingagjöf og fræðslu þannig að efla megi góða atvinnuhætti.

Sjá nánar:

Leggur þú þitt af mörkum -  skýrsla (PDF)

Samtök atvinnulífsins