Vinnumarkaður - 

10. Desember 2013

Svigrúm til launahækkana og áhrif krónutöluhækkana

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Svigrúm til launahækkana og áhrif krónutöluhækkana

Svigrúm atvinnulífsins til launahækkana ber lítið á góma í þeirri umræðu sem nú fer fram í tengslum við endurnýjun kjarasamninga. Þá sjaldan það gerist eru nefnd dæmi um einstök fyrirtæki sem ganga vel sem sýni að vel sé hægt að hækka laun verulega. Það er miður að umræður um mögulegar launabreytingar fari ekki fram á grundvelli efnahagslegs bolmagns atvinnulífsins, því svigrúmið er það sem öllu skiptir um það hvort launahækkanir leiði til varanlegra kjarabóta eða gufi upp í verðbólgu.

Svigrúm atvinnulífsins til launahækkana ber lítið á góma í þeirri umræðu sem nú fer fram í tengslum við endurnýjun kjarasamninga. Þá sjaldan það gerist eru nefnd dæmi um einstök fyrirtæki sem ganga vel sem sýni að vel sé hægt að hækka laun verulega. Það er miður að umræður um mögulegar launabreytingar fari ekki fram á grundvelli efnahagslegs bolmagns atvinnulífsins, því svigrúmið er það sem öllu skiptir um það hvort launahækkanir leiði til varanlegra kjarabóta eða gufi upp í verðbólgu.

Kjarasamningar snúast ekki um að skipta því öðruvísi sem þegar hefur verið skipt heldur að skipta þeim auknu verðmætum sem verða til í nánustu framtíð. Svigrúm atvinnulífsins til að taka á sig aukinn kostnað fram í tímann markast fyrst og fremst af því að það takist að auka verðmætasköpunina. Hér er fjallað um áhrif launastefnu síðustu sex ára þar sem hefur verið lögð sérstök áhersla á hækkun lægstu launataxta.

Þegar litið er til þróunar síðustu ára verður ekki séð af helstu efnahagsstærðum að neitt svigrúm hafi verið til kjarabóta, en þrátt fyrir það hefur kaupmáttur launa aukist umtalsvert. Á tímabilinu 2010-2013 hefur verðmætasköpun á hvert ársverk (landsframleiðsla á hvern starfandi mann, að teknu tilliti til breytingar vinnutíma) aðeins aukist um innan við 1%. Þar við bætist að viðskiptakjör þjóðarinnar hafa versnað mikið og hafa þjóðartekjur á hvert ársverk minnkað um rúmlega 4% á tímabilinu.

Á þessu tímabili jókst kaupmáttur launa að meðaltali um 7% og kaupmáttur lágmarkslauna um tæplega 11%. Þessi mikla kaupmáttaraukning átti sér augljóslega ekki rætur í aukinni verðmætasköpun og hefur því verið gengið á hlutdeild atvinnurekstrarins.

Smelltu til að stækka!

Krónutöluhækkanir undanfarinna ára

Í kjarasamningum síðustu ára hafa umsamdir launataxtar á samningssviði SA og ASÍ hækkað um tilteknar krónutölur sem valdið hefur mun meiri hlutfallshækkun launataxtanna en almennar launahækkanir hafa kveðið á um. Frá ársbyrjun 2010 til þessa árs hafa lágmarkslaunin hækkað í fjórum áföngum um 43.000 kr., úr 157.000 í 204.000. Hækkunin nemur 30%. Á sama tíma hafa almennar launahækkanir samtals verið 14,2% (2010: 2,5%, 2011:4,25%, 2012:3,5% og 2013:3,25%). Ef sú launastefna sem í þessum hlutfallshækkunum birtist hefði hlutfallið milli lægstu launa og hæstu launa hækkað verulega. Það gerðist ekki nema í mjög takmörkuðum mæli því laun umfram lágmarkskauptaxta hækkuðu mun meira en sem nam almennum launahækkunum. Launavísitala Hagstofunnar ber vitni um það en hún hækkaði um 26% frá ársbyrjun 2010 til þessa dags.

Í ritinu "Í aðdraganda kjarasamninga" sem gefið var út af heildarsamtökunum á vinnumarkaðnum í október 2013 er að finna umfjöllun um breytingu á launadreifingu milli áranna 2008 og 2013 sem byggð er á gagnasafni Hagstofunnar. Í ritinu er lagður mælikvarði á breytingu launadreifingarinnar sem er hvernig hlutfallið milli lægstu og hæstu tíundarmarka launadreifingarinnar þróaðist á tímabilinu. Nánar til tekið er greint frá því hvernig hlutfallið milli launa þess tíunda lægsta þróaðist miðað við þann tíunda hæsta í eitt hundrað manna hópi. Í maí 2008 var hlutfallið milli lægstu og hæstu tíundarmarka 40% og hækkaði það í 44% í maí árið 2010. Þrátt fyrir krónuhækkanir samninga árin 2011 og 2012 hafði hlutfallið lækkað í 43% í maí árið 2012 en hækkaði á ný og var orðið 45% í maí 2013.

Árangur eða árangursleysi þeirrar stefnu kjarasamninga undanfarinna ára, að hækka laun í neðri enda launaskalans meira en hærri laun, með blandaðri leið krónutöluhækkana og prósentuhækkana, má lesa út úr breytingu þessara hlutfalla. Í stefnunni felst það markmið að lægri laun hækki meira en þau hærri, en alls ekki að hlutfallshækkun lægri launa hríslist upp allan launastigann. Niðurstöðurnar  sýna að markmið um samþjöppun launastigans gengu eftir árin 2009 til 2010.  Kauptaxtarnir verkafólks hækkuðu um 20.000 kr. samtals bæði árin, eða um 12-13%, en almennar launahækkanir voru 6,1% (3,5% og 2,5%). Þessi mismunandi hlutfallshækkun lægri launa og hærri launa hefði átt að hækka hlutfall launa lægstu og hæstu tíundarmarka um 4% og það var einmitt það sem gerðist og fyrr er rakið og sést á meðfylgjandi mynd.

Smelltu til að stækka!

Á tímabilinu frá maí 2010 til maí 2013 hækkuðu kauptaxtar um 34.000 kr., eða í kringum 19%, en á sama tíma voru almennar launahækkanir samtals 11,4% (4,25%, 3,5% og 3,25%). Ef stefna samninganna um hækkun lægri launa umfram þau hærri hefði gengið eftir hefði hlutfall launa lægstu og hæstu tíundarmarka átt að hækka um 4% eins og gerðist milli áranna 2008 og 2010. Það gerðist hins vegar ekki eins og sjá má af myndinni. Hlutfallið hækkaði aðeins um 1%, úr 44% í 45%, vegna þess að hækkunin gekk upp allan launastigann.

Tengt efni:

Í aðdraganda kjarasamninga

Samtök atvinnulífsins