Vinnumarkaður - 

05. mars 2019

„Svigrúm" atvinnulífsins

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

„Svigrúm" atvinnulífsins

Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði og sérfræðingur Eflingar í vinnumarkaðs- og lífskjararannsóknum, skrifaði nýverið pistil á Kjarnanum um kröfur verkalýðshreyfingarinnar og tilboð Samtaka atvinnulífsins. Þar kemur eftirfarandi fram;

Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði og sérfræðingur Eflingar í vinnumarkaðs- og lífskjararannsóknum, skrifaði nýverið pistil á Kjarnanum um kröfur verkalýðshreyfingarinnar og tilboð Samtaka atvinnulífsins. Þar kemur eftirfarandi fram;

„Sam­kvæmt nýj­ustu verð­bólgu­spá Hag­stof­unnar (birt í þess­ari viku) þá verður verð­bólga árið 2019 um 3,8%. Ef svig­rúm til launa­hækk­ana er metið sem verð­bólga að sam­an­lagðri lang­tíma með­al­hækkun fram­leiðni þá getur atvinnu­lífið að öðru óbreyttu borið 5,3% aukn­ingu launa­kostn­aðar án beinna mót­væg­is­að­gerða (t.d. auk­innar hag­ræð­ing­ar).“

Með öðrum orðum er það mat Eflingar að svigrúm atvinnulífsins til launahækkana aukist samfara aukinni verðbólgu. Er þetta viðsjárverð notkun á hugtakinu svigrúm.

Framundan er aðlögun í hagkerfinu; uppsveiflunni er lokið í bili, efnahagsslaki framundan og svigrúm til launahækkana mun minna en áður. Það væri ábyrgðarlaust að skapa væntingar um annað. 

Launakostnaður er almennt stærsti kostnaðarliður fyrirtækja í ferðaþjónustunni, sem nú eru sérstaklega sett í skotlínu verkfallsaðgerða, og sem dæmi er launahlutfall fyrirtækja í rekstri gististaða og veitingastaða í kringum 80%, þ.e. laun og launatengd gjöld sem hlutfall af þáttatekjum[1]. Ef launakostnaður hækkar umfram afköst (framleiðni vinnuafls) hjá fyrirtæki sem býr við svo hátt hlutfall launa af tekjum blasir við að fyrirtækið þarf að bregðast við með uppsögn starfsfólks eða verðhækkunum. Miðað við ofangreinda skilgreiningu á „svigrúminu" eykst hins vegar geta fyrirtækisins til launahækkana eftir því sem verðbólga eykst, sem leiðir til frekari launahækkana starfsfólksins og í kjölfarið verðhækkana fyrirtækisins, og þannig koll af kolli. Í óðaverðbólgu er því „svigrúm atvinnulífsins" til launahækkana mest. Það blasir við að þessi nálgun er ekki líkleg til þess að leiða til raunverulegra kjarabóta.

Til langs tíma er sterk fylgni á milli verðlags og launakostnaðar á framleidda einingu, skilgreint sem hlutfall launakostnaðar og framleiðni vinnuafls. Frá árinu 2010 hefur meðalhækkun launakostnaðar á framleidda einingu verið um 4,8% eða næstum tvöföld hækkun á við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans. Tímabundnir þættir eins og hagstæð viðskiptakjör og mikill útflutningsvöxtur í gegnum uppgang ferðaþjónustunnar, sem svo styrkti gengi krónunnar, eru megin ástæður þess að slíkt leiddi framan af ekki til aukinnar verðbólgu. Nú þegar sú þróun hefur snúist við hefur verðbólga aukist á ný og gera spár ráð fyrir mikilli verðbólgu næstu misseri. Norðurlöndin horfa til svigrúmsins út frá framleiðnivexti að viðbættu verðbólgumarkmiði í hverju ríki og yrði það ekki tekið í mál að launakostnaður hækkaði tvöfalt á við verðbólgumarkmið. Til marks um það hefur launakostnaður á framleidda einingu hækkað um 2,8% í Noregi, 2,2% í Svíþjóð og um 0,9% í Danmörku frá árinu 2010, enda hefur ríkt verðstöðugleiki í þessum ríkjum og samhliða því mun lægra vaxtastigi en hér á landi.

Framundan er aðlögun í hagkerfinu; uppsveiflunni er lokið í bili, efnahagsslaki framundan og svigrúm til launahækkana mun minna en áður. Það væri ábyrgðarlaust að skapa væntingar um annað. Kjörið tækifæri er fyrir Seðlabanka Íslands, sem gegnir ákveðinni fræðsluskyldu, að stíga fram og skýra út hvernig bankinn sjálfur metur svigrúm atvinnulífsins á komandi árum.

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA

Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. mars 2019


[1] Þáttatekjur eru summa launa, rekstrarafgangs og afskrifta

Samtök atvinnulífsins