Efnahagsmál - 

02. maí 2002

Sveigjanleiki á vinnumarkaði og upptaka evrunnar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Sveigjanleiki á vinnumarkaði og upptaka evrunnar

Vinnumarkaður er að ýmsu leyti sveigjanlegri á Íslandi en í öðrum Evrópulöndum. Reglur um ráðningu og uppsagnir eru rúmar miðað við það sem tíðkast víða á meginlandinu. Eftir að dró úr verðbólgu árið 1990 hefur kaupmáttur launa ekki hreyfst eins mikið hér á landi og áður, en ekki verður séð að hagsveiflur valdi meiri breytingum á atvinnuleysi en á níunda áratugnum. Almennt séð virðast sveiflur í landsframleiðslu hafa minni áhrif á atvinnuleysi hér á landi en í grannlöndum. Þetta kemur fram í skýrslu sem hagfræðingarnir Ásgeir Jónsson og Sigurður Jóhannesson sömdu fyrir Samtök atvinnulífsins og dreift verður á aðalfundi samtakanna.

Vinnumarkaður er að ýmsu leyti sveigjanlegri á Íslandi en í öðrum Evrópulöndum. Reglur um ráðningu og uppsagnir eru rúmar miðað við það sem tíðkast víða á meginlandinu. Eftir að dró úr verðbólgu árið 1990 hefur kaupmáttur launa ekki hreyfst eins mikið hér á landi og áður, en ekki verður séð að hagsveiflur valdi meiri breytingum á atvinnuleysi en á níunda áratugnum.  Almennt séð virðast sveiflur í landsframleiðslu hafa minni áhrif á atvinnuleysi hér á landi en í grannlöndum. Þetta kemur fram í skýrslu sem hagfræðingarnir Ásgeir Jónsson og Sigurður Jóhannesson sömdu fyrir Samtök atvinnulífsins og dreift verður á aðalfundi samtakanna.

Þetta er meðal þess sem líta þarf á þegar skoðaðir eru kostir þess og gallar að taka upp evruna eða annan alþjóðlegan gjaldmiðil. Ef krónan verður aflögð verður ekki hægt að bregðast við efnahagslegum áföllum með peningaprentun og verðbólgu, eins og lengi tíðkaðist hér á landi. Þá verður aðeins hægt að gera landið samkeppnishæfara með því að halda kostnaðarhækkunum niðri og auka framleiðni. Í sjálfu sér þurfa laun ekki að lækka, nóg er að laun á framleidda einingu hækki minna en í viðskiptalöndunum. En hversu mikið er hægt að halda aftur af launakostnaði á Íslandi þegar á móti blæs í efnahagslífinu?

Geta laun lækkað á Íslandi?
Með ýmsu móti má draga úr launakostnaði.  Útborguð laun eru yfirleitt talsvert yfir töxtum og því geta fyrirtæki og starfsmenn komist að samkomulagi um launalækkun án þess að stéttarfélög blandist í málið. Auk þess dregst meðallaunakostnaður á unninn tíma saman ef yfirvinna minnkar.

Eina dæmið frá seinni árum um samdrátt í efnahagslífi hér á landi, sem ekki var mætt með mikilli verðbólgu og gengisfellingum, er frá fyrri hluta tíunda áratugarins. Skýrsluhöfundar fengu aðgang að gagnasafni Kjararannsóknarnefndar frá þessum tíma. Á árunum 1992-1994 hækkaði meðaltímakaup verkafólks á höfuðborgarsvæðinu yfirleitt um 2-5% að meðaltali á ári. Meðaltímakaupið endurspeglar launakostnað fyrirtækja - þar eru öll álög, eins og bónusar, fæðis- og ferðapeningar og álög fyrir vaktir og yfirvinnu.  Launin breyttust mjög mismikið hjá fólki á þessu samdráttarskeiði. Þannig lækkaði meðaltímakaup ríflega þriðjungs verkamanna að jafnaði frá sama tíma ársins á undan. Í þeim atvinnugreinum sem keppa við erlenda framleiðslu hækkuðu launin mun minna en í öðrum greinum.  Þar virðast mörg fyrirtæki hafa gripið til þess ráðs að draga úr yfirvinnu og ná kostnaði á unninn tíma þannig niður.  Að meðaltali hækkaði meðaltímakaup í samkeppnisgreinum um ½-1% á einu ári til 2., 3. og 4. ársfjórðungs 1993 og 1. ársfjórðungs 1994. Þá sýna gögn Kjararannsóknarnefndar að kaup hækkaði minna hjá litlum fyrirtækjum en öðrum á mesta samdráttarskeiðinu. Í litlum fyrirtækjum er samband starfsmanna og atvinnurekenda oft nánara en í stórum fyrirtækjum. Starfsmenn gera sér yfirleitt góða grein fyrir stöðu rekstrarins og kaupkröfur þeirra mótast af því. Hjá þriðjungi allra fyrirtækja í úrtakinu lækkaði meðaltímakaup að meðaltali frá 4. ársfjórðungi 1992 til fjórða ársfjórðungs 1993 og frá fjórða ársfjórðungi 1993 til fjórða ársfjórðungs 1994.

Rannsóknin sýnir svo að ekki verður um villst að launakostnaður getur lækkað á Íslandi ef á móti blæs. Sveigjanleiki í launum getur því að hluta komið í stað gengishreyfinga ef Íslendingar leggja krónuna af. Kaupmáttur launa verður þó aldrei jafnsveigjanlegur og hann var á verðbólguárunum fyrir 1990. Rétt er einnig að hafa í huga að þetta er aðeins eitt af því sem þarf að athuga áður en ákveðið er hvort rétt er að leggja af sjálfstæðan gjaldmiðil hér á landi.

Líklegt að evra leiði fyrst um sinn til meiri miðstýringar á vinnumarkaði
Ef evran verður tekin upp, eða annar erlendur gjaldmiðill, og stjórnvöld hér á landi missa völd yfir peningastefnunni, er ekki ólíklegt að reynt verði að efla sveigjanleika á vinnumarkaði á annan hátt. Ein leiðin gæti verið að stuðla að því að kjarasamningar verði sem almennastir, fremur en að hver semji fyrir sig í sínum afkima vinnumarkaðsins.  Samtök stéttarfélaga, sem ná yfir mikinn hluta markaðsins, gera varla kröfur um launahækkanir sem líklegar eru til að leiða til mikils atvinnuleysis. Sennilegra er að slík samsteypa stéttarfélaga taki mið af efnahagsaðstæðum í kröfugerð sinni en félög sem semja á afmörkuðu sviði. Leiða má líkur að því að stjórnvöld láti jafnan til sín taka í slíkum ,,þjóðarsáttarsamningum". Á hinn bóginn hafa áhrif stéttarfélaga farið minnkandi undanfarin ár í mörgum Evrópulöndum. Fólki fækkar í stéttarfélögum, meðal annars vegna breyttra atvinnuhátta, og aukin verslun landa í milli og vaxandi samkeppni frá útlöndum dregur úr afli þeirra.  Þess vegna má gera ráð fyrir því að þegar fram í sækir færist kjarasamningar aftur inn í fyrirtækin, þannig að starfsmenn semji beint við atvinnurekendur um sífellt stærri hluta kjara sinna.

Samtök atvinnulífsins