Efnahagsmál - 

16. júní 2008

Sveigjanleikaákvæði mikilvægur hluti Kyoto-bókunarinnar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Sveigjanleikaákvæði mikilvægur hluti Kyoto-bókunarinnar

Iðnríkin sem tóku á sig skuldbindingar um að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda á tímabilinu 2008-2012 geta með verkefnum í þróunarríkjunum aflað sér heimilda til útstreymis sem nýtast heima fyrir. Verkefnin sem ráðist er í verða að draga úr útstreymi í þróunarríkjunum frá því sem ella hefði orðið og uppfylla skilyrði sem almennt eru sett til viðurkenningar verkefnanna. Töluverðir möguleikar eiga að geta falist í því fyrir íslensk jarðhitafyrirtæki að huga að þessum möguleikum þegar undirbúin eru verkefni í þróunarríkjunum.

Iðnríkin sem tóku á sig skuldbindingar um að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda á tímabilinu 2008-2012 geta með verkefnum í þróunarríkjunum aflað sér heimilda til útstreymis sem nýtast heima fyrir. Verkefnin sem ráðist er í verða að draga úr útstreymi í þróunarríkjunum frá því sem ella hefði orðið og uppfylla skilyrði sem almennt eru sett til viðurkenningar verkefnanna. Töluverðir möguleikar eiga að geta falist í því fyrir íslensk jarðhitafyrirtæki að huga að þessum möguleikum þegar undirbúin eru verkefni í þróunarríkjunum.

Viðurkenningar aflað áður en framkvæmdir hefjast

Nauðsynlegt er að þeir sem ráðast í verkefni í þróunarlöndunum afli viðurkenningar á undirbúningsstigi áður en framkvæmdir hefjast. Verkefni sem samþykkt hafa verið nú þegar eru á annað þúsund og útstreymisheimildir sem þau skapa eru taldar nema yfir 1280 milljónum tonna til ársins 2012. Að auki eru í pípunum um 3000 verkefni sem áætlað er að veiti útstreymisheimildir fyrir um 2700 milljónum tonna. Hvert verkefni verður að hljóta samþykki þess ríkis þar sem það er unnið og einnig verða yfirvöld í viðtökuríkinu að samþykkja það auk þess sem það þarf samþykki skrifstofu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna.

Aukin viðskipti með útstreymisheimildir

Verð á útstreymisheimildum er mismunandi eftir því á hvaða stigi verkefnið er. Útstreymisheimildir verkefna sem samþykkt hafa verið en hafa ekki náð því að vera komin inn í útstreymisbókhald iðnríkjanna eru talin ganga kaupum og sölum fyrir um  800 - 1200 krónur hvert tonn (7 - 10 evrur/tonn). Þegar útstreymisheimildirnar hafa verið færðar inn í bókhald í iðnríkjunum þá hækkar verðið í tæpar 1800 krónur  fyrir hvert tonn (15 evrur/tonn). Markaðurinn fyrir kolefnisheimildir hefur vaxið hröðum skrefum undanfarin ár og var talinn velta um 40 milljörðum evra á árinu 2007 - þar af er áætlað að 12 milljarðar evra hafi verið vegna verkefna í þróunarríkjunum.

Nýting endurnýjanlegra orkulinda mikilvæg

Langflest verkefni sem hafa hlotið samþykki tengjast nýtingu endurnýjanlegra orkulinda. Þar má nefna vatnsaflvirkjanir, vindorkuver og jarðhitavirkjanir. Þó nokkrar jarðhitavirkjanir hafa hlotið viðurkenningu sem sveigjanleikaverkefni. Eitt slíkt er 110 MW virkjun suðuraf Jakarta í Indónesíu þar sem verða til á tímabilinu 2006 til 2013 útstreymisheimildir sem nema um 4,6 milljónum tonna af CO2. Verðmæti þessara heimilda er allt að 8,3 milljarðar króna. Þannig hefur þetta eina verkefni skapað heimildir sem eru töluvert meiri en allt útstreymi á Íslandi á einu ári og fellur undir Kyoto-bókunina.

Samtök atvinnulífsins