Vinnumarkaður - 

19. febrúar 2018

Sveigjanlegur vinnutími eftirsóknarverður

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Sveigjanlegur vinnutími eftirsóknarverður

Það er jákvætt að einstök fyrirtæki og starfsmenn þeirra skoði vinnutilhögun hjá sér og reyni að finna hagkvæmar lausnir sem nýtast báðum aðilum þar sem því verður komið við. Samtök atvinnulífsins eru fylgjandi því að auka sveigjanleika vinnutíma til að auka jafnvægi milli fjölskyldu- og atvinnulífs. SA vara hins vegar við því að 37 stunda vinnuvika verði stytt með einfaldri lagasetningu sem myndi auka launakostnað atvinnulífsins um 25% á svipstundu.

Það er jákvætt að einstök fyrirtæki og starfsmenn þeirra skoði vinnutilhögun hjá sér og reyni að finna hagkvæmar lausnir sem nýtast báðum aðilum þar sem því verður komið við. Samtök atvinnulífsins eru fylgjandi því að auka sveigjanleika vinnutíma til að auka jafnvægi milli fjölskyldu- og atvinnulífs. SA vara hins vegar við því að 37 stunda vinnuvika verði stytt með einfaldri lagasetningu sem myndi auka launakostnað atvinnulífsins um 25% á svipstundu.

„Þessi draumur er ekkert mjög fjarlægur og það þarf ekki að breyta miklu í kjarasamningum til að  finna nýjar lausnir til að koma til móts við ólíkar þarfir starfsmanna.“

Rætt var um hugmyndir um styttingu vinnuvikunnar í Bítinu á Bylgjunni við Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Þar benti hann m.a. á að miklar yfirvinnugreiðslur og langur vinnutími séu séríslenskt einkenni sem megi rekja til ósveigjanlegra kjarasamninga. Á Íslandi eru 15% af launagreiðslum á almennum vinnumarkaði yfirvinnugreiðslur á meðan þær eru hverfandi í nágrannalöndunum aðeins 2% í Noregi og á bilinu 0-1% í Danmörku og Svíþjóð. Sunnar í álfunni í Frakklandi eru þær nánast óþekktar.

„Það þekkjast hvergi svona yfirvinnugreiðslur,“ segir Hannes og að ekki skipti máli hvort það er þensla eða kreppa í þjóðfélaginu. „Þetta er kerfisbundið hjá okkur,“ segir hann og bendir á að hækka megi laun fyrir dagvinnu ef dregið yrði úr yfirvinnu. „Það er klárlega hægt og það er mikið áhugamál hjá Samtökum atvinnulífsins að gera það þannig að við verðum með sambærileg skilyrði hér og á Norðurlöndum.“

Samtök atvinnulífsins kynntu hugmyndir í þessa veru í aðdraganda kjarasamninganna 2015 en ekki reyndist hljómgrunnur fyrir þeim. Þó var gerð ítarleg bókun í samningunum við Flóabandalagið og VR um að þessi leið yrði skoðuð.

„Þetta er flókið mál vegna þess að það þarf að breyta hverjum einasta kjarasamningi en ég held að það sé óhjákvæmilegt að gera þetta,“ segir Hannes sem leggur áherslu á að það sé ekki til nein ein einföld töfralausn þegar kemur að umræðu um sveigjanlegan vinnutíma og styttingu vinnuvikunnar.

„Þessi draumur er ekkert mjög fjarlægur og það þarf ekki að breyta miklu í kjarasamningum til að  finna nýjar lausnir til að koma til móts við ólíkar þarfir starfsmanna.“ Hannes bendir á að aðstæður fólks séu mismunandi, hvort sem fólk er ungt eða gamalt, með börn eða ekki eða jafnvel að sinna öldruðum foreldrum. „Þess vegna þurfa að vera margar og mismunandi lausnir.“

Mikil tregða
Aðstoðarframkvæmdastjóri SA segir að mikil tregða hafi verið við að breyta vinnutímaákvæðum kjarasamninga til þessa. „En ef það eru sameiginlegir hagsmunir starfsfólks og fyrirtækja að breyta þessu þá mun það gerast, það er eingöngu spurning um tíma.“

Það eru ákvæði í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði um svokallaðan fyrirtækjaþátt sem veita heimildir til að gera frávik frá samningunum þannig að fólk fái annað hvort meira borgað eða vinni minna eftir því sem fólk kýs. „Gallinn við þetta fyrirkomulag er að það er neitunarvald hjá stéttarfélögunum og það hefur ekki fengið mikla útbreiðslu þetta form.“

Hannes segir nýleg dæmi um að áform um sveigjanlegan vinnutíma hafi ekki gengið eftir vegna þess að stéttarfélag hafi verið því andvígt.

Þegar dagvinnustundum á viku var fækkað úr 44 í 40 styttist hinn raunverulegi vinnutími ekki neitt. Mælingarnar sýndu að það fjölgaði eingöngu greiddum yfirvinnustundum.

Lærum af sögunni
Samtök atvinnulífisins vilja auka sveigjanleika vinnutíma til hagsbóta fyrir bæði fólk og fyrirtæki. Að hluta til má rekja ósveigjanleika á vinnumarkaði til laga um 40 stunda vinnuviku frá árinu 1972. Hannes segir mikilvægt í umræðunni nú að horft sé til sögunnar og reynslu af fyrri breytingum.

„Ef við lítum á söguna, þegar þessi lög voru sett 1972 þá var dagvinnustundum á viku fækkað úr 44 í 40. Þá styttist hinn raunverulegi vinnutími þó ekki neitt. Það sýna mælingar sem voru gerðar á sínum tíma og voru gerðar ársfjórðungslega af kjarasannsóknarnefnd. Mælingarnar sýndu að það fjölgaði eingöngu greiddum yfirvinnustundum.“

Starfsfólk sem vann áður t.d. til hádegis á laugardögum til að uppfylla 44 stunda vinnuviku, hélt því áfram að vinna jafn lengi eftir „styttingu vinnuvikunnar“ á yfirvinnutaxta eftir að 40 dagvinnustundum var náð.

Hannes segir að ýmis tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar hafi það að yfirlýstu markmiði að fækka dagvinnustundum fólks. „Ég er mjög fylgjandi þessum tilraunaverkefnum, en ég er ekki fylgjandi því markmiði að stytta dagvinnuviku allra með einu pennastriki.“

Ein birting þessarar umræðu eru frumvörp á Alþingi sem koma reglulega fram, og hafa verið flutt og endurflutt í nokkur ár. Efnislega kveða frumvörpin á um að breyta lögum um dagvinnutíma úr 40 tímum á viku í 35 þ.e. að stytta vinnutímann um eina klukkustund á dag. „Ef þetta er gert svona með einu pennastriki, með lagasetningu, þá myndi launakostnaður atvinnulífsins hækka um 25%. Þ.e. ef fólk heldur áfram að vinna jafn lengi og áður.“

Allt uppi á borðum
Hannes segir það mikið áhugamál í atvinnulífinu að bæta jafnvægi milli fjölskyldu og atvinnulífs. Það sé stöðugt viðfangsefni frá degi til dags en verði ekki leyst með lögum. Hann segir skorta á upplýsingar í umræðu um vinnutíma.

„Ég held að það skorti á rannsóknir um þessi mál og mér finnst umræðan markast svolítið mikið af upplýsingaskorti, vanþekkingu og misskilningi. Ég er til dæmis ekki sáttur við það að  það sé talað um að vinnuvikan hér sé 40 stundir, hún er það ekki. Hún er 37 stundir að hámarki og hjá mörgum styttri. Eins og t.d. í kjarasamningi SA og verslunarmanna þá er hún 36 og hálf klukkustund eða 36 stundir og korter hjá sumum. En það er alltaf verið að tala um að þetta séu 40 stundir.“

Ástæðan er sú að á mælingu á vinnutíma hjá nágrannaþjóðunum eru kaffi- og matartímar ekki teknir með í reikninginn eins og gert er hér á landi og því verður samanburðurinn villandi.

Sjá nánar:

Bítið á bylgjunni um vinnutíma – smelltu til að hlusta

Tengt efni:

Að stytta sér leið en lenda úti í skurði

Samtök atvinnulífsins leggja til nýjar leiðir í kjarasamningum – mars 2015

Samtök atvinnulífsins