Stytting námstímans

Ný könnun Samtaka atvinnulífsins meðal aðildarfyrirtækja bendir eindregið til þess að lenging skólaársins, um t.d. einn mánuð, myndi ekki hafa veruleg áhrif á starfsmannahald í íslensku atvinnulífi. Um 75 % svarenda meta það svo að ekki yrði um veruleg áhrif að ræða.

Aðeins innan ferðaþjónustunnar má ætla að um veruleg áhrif yrði að ræða, en 56% svarenda innan ferðaþjónustunnar telja að svo yrði. Af fyrri athugunum SA má ráða að lenging skólaársins fyrri hluta sumars yrði greininni þó mun auðveldari viðureignar en lenging skólaársins í ágúst. Um þetta vitna m.a. tölur um nýtingu gistirýmis á landsbyggðinni. Ef undan eru skilin Keflavík og Akureyri munar um 20% undanfarin ár á nýtingu gistirýmis í júní annars vegar og ágúst hins vegar. Þá gegnir skólafólk  almennt minnkandi hlutverki í greininni.

Umræða um styttingu námstímans
Að undanförnu hefur verið rætt um lengingu skólaársins, og samhliða um hugsanlega styttingu námstíma, í skólaárum talið, til loka framhaldsskólastigsins, m.a. til stúdentsprófs. Ein ástæða fyrir þessum umræðum er að í langflestum nágrannalöndum okkar er námstími til loka framhaldsskólastigs einu til tveimur skólaárum styttri en hérlendis.

Skoðun SA
Samtök atvinnulífsins hafa ályktað á þann veg að nýta þurfi betur hvert skólaár og stytta grunnskóla- og framhaldsskólastigið um eitt ár hvort, samhliða auknum kröfum til kennara og nemenda. Með slíkum hætti myndu Íslendingar skipa sér í hóp þeirra þjóða sem nýta námstíma þannig með virkustum hætti.

Hér er um mjög mikilvægt samfélagsmálefni að ræða. Verulegir fjármunir fara til skólakerfisins og ævitími uppvaxandi kynslóðar er dýrmætur. Í athyglisverðri skýrslu, sem Verzlunarmannafélag Reykjavíkur lét gera fyrir nokkru, er m.a. sýnt fram á að um talsverðan þjóðhagslegan ávinning yrði að ræða með styttingu grunn- og framhaldsskóla. Ávinningurinn fælist m.a. í aukinni þjóðarframleiðslu og auknum ævitekjum nemenda.

Áhugi menntayfirvalda
Nýlega gekkst menntamálaráðuneytið fyrir sérstakri ráðstefnu um styttingu námstíma til stúdentsprófs og kom þar fram verulegur áhugi margra aðila á málinu. Þar kom ennfremur fram að þörf er á nokkurri lengingu skólaársins ef verður af styttingu námstíma í skólaárum talið. Áhugi menntayfirvalda á málinu virðist skýr og vonandi að skamms sé að bíða breytinga í þessa veru.

Samkeppnishæft menntakerfi
Lykilatriði í áherslum SA um menntamál er samkeppnishæfni menntakerfisins. Ánægjulegt hefur verið að fylgjast með vaxandi samkeppni á háskólastiginu og sú breyting að gera allt landið að einu framhaldsskólasvæði virðist þegar hafa leitt til uppbyggjandi samkeppni framhaldsskólanna á milli. Hluti þessarar þróunar hlýtur að felast í styttingu námstímans. Ekki verður komið auga á rök fyrir því að íslenskir nemendur ljúki t.d. stúdentsprófi einu til tveimur árum síðar en nemendur í nágrannalöndum. Þetta fyrirkomulag felur í sér kostnað fyrir þjóðfélagið jafnt sem nemendur. Upplýsingar benda ekki til að íslenskir nemendur hafi meiri menntun eftir lengri tíma.

Stytting námstímans í árum talið myndi væntanlega hafa í för með sér lengingu skólaársins. Hagsmunir atvinnulífsins af sumarvinnu skólafólks standa ekki í vegi fyrir slíkri lengingu, fyrri hluta sumars. Samtök atvinnulífsins leggja því til að hafist verði handa við styttingu grunn- og framhaldsskólastigsins um eitt ár hvort.

Gústaf Adolf Skúlason.