29. apríl 2024

Styrkleikar í öndvegi

Heiðrún Björk Gísladóttir

1 MIN

Styrkleikar í öndvegi

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp félags- og vinnumarkaðsráðherra vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfisins. Frumvarpið kemur í kjölfar fleiri breytinga á kerfinu, meðal annars um hækkun frítekjumarks, og er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem lögð er rík áhersla á endurskoðun málefna örorkulífeyrisþega.

Samtök atvinnulífsins hafa talað fyrir breytingum á almannatryggingakerfinu um árabil enda eru þær reglur sem kerfið byggir á komnar til ára sinna og margar gagnrýniverðar. Samtökin hafa lagt áherslu á að við endurskoðun kerfisins verði horft til virkni einstaklinga og getu þeirra til að vinna í stað þess að einblína á skerðingar. Að litið sé til styrkleika fremur en veikleika. Samtökin eru enda stolt af því að hafa komið að stofnun VIRK-starfsendurhæfingarsjóðs þar sem þessi nálgun hefur verið notuð með góðum árangri.

Í dag þurfa einstaklingar að vera metnir til 75% örorku til langframa til þess að öðlast rétt til örorkulífeyris. Fram til ársins 1999 var í lögum talað um vinnugetu einstaklinga en það ár breyttist orðalagið á þann hátt að miðað var við örorku í stað vinnugetu – 75% örorku í stað 25% vinnugetu. Örorkumatið fer fram á grundvelli örorkustaðals sem hefur verið óbreyttur í um 25 ár. Staðallinn er þess efnis að ómögulegt er að nota hann til þess að meta starfsorku eða hlutfall af henni. Á þeim árum sem liðin eru síðan reglugerð um örorkumat tók gildi hefur orðið kúvending á íslenskum vinnumarkaði og fullyrða má að fjöldi fólks sem metið er eftir þessum einfalda staðli gæti unnið störf sem síðar hafa orðið til.

Fyrirhugaðar breytingar á örorkulífeyriskerfinu eru mikið fagnaðarefni. Með frumvarpinu og innleiðingu samþætts sérfræðimats er megináhersla lögð á færni viðkomandi í samspili við umhverfi og aðstæður. Um er að ræða heildrænt mat á getu til virkni á vinnumarkaði sem snýst um valdeflingu og að fólk nýti styrkleika sína. Með frumvarpinu er jafnframt lagt til að þeir sem glíma við skerta starfsgetu eigi rétt á hlutaörorkulífeyri. Þannig er aukinn stuðningur við fólk með skerta starfsgetu að fara út á vinnumarkaðinn að hluta. Með réttum hvötum aukast þannig líkur á því að fólk með skerta starfsgetu verði virkt á vinnumarkaði og þurfi ekki að hafa áhyggjur af framfærslu með sama hætti og í núgildandi kerfi. Á sama tíma er hlúð sérstaklega að þeim hópi sem byggir framfærslu sína að öllu leyti á örorkulífeyrisgreiðslum.

Boðaðar breytingar verða mikið framfaraskref í þessum mikilvæga málaflokki. Þær eru kostnaðarsamar, en þeim peningum verður vel varið ef áhersla á virkni og snemmtæka íhlutun leiðir til aukinnar þátttöku fólks með skerta starfsgetu á vinnumarkaði þegar fram í sækir. Með breytingunum verður stoppað í göt í framfærslukerfinu og fólki gert kleift að einbeita sér að endurhæfingu sinni í stað þess að þurfa að glíma við kerfið.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. apríl.

Heiðrún Björk Gísladóttir

Lögmaður á málefnasviði og varaformaður stjórnar Virk