Efnahagsmál - 

30. September 2005

Stýrivaxtastefna Seðlabankans er í öngstræti

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Stýrivaxtastefna Seðlabankans er í öngstræti

Það er ljóst að Seðlabankinn getur ekki brugðist við versnandi verðbólguhorfum og vaxandi verðbólguvæntingum með öðrum hætti en að hækka stýrivexti, sagði Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við Morgunblaðið. Hann sagði að svo virtist sem bankinn ætti við trúverðugleikavanda að etja, því vextir til lengri tíma hafi hingað til ekki brugðist við hækkunum á stýrivöxtum. Yfirlýst markmið með vaxtahækkuninni nú og frekari boðuðum vaxtahækkunum sé að hafa áhrif á vexti til lengri tíma. Hannes sagði Samtök atvinnulífsins telja að sú stefna að hækka sífellt stýrivexti sé komin í öngstræti.

Það er ljóst að Seðlabankinn getur ekki brugðist við versnandi verðbólguhorfum og vaxandi verðbólguvæntingum með öðrum hætti en að hækka stýrivexti, sagði Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við Morgunblaðið. Hann sagði að svo virtist sem bankinn ætti við trúverðugleikavanda að etja, því vextir til lengri tíma hafi hingað til ekki brugðist við hækkunum á stýrivöxtum. Yfirlýst markmið með vaxtahækkuninni nú og frekari boðuðum vaxtahækkunum sé að hafa áhrif á vexti til lengri tíma. Hannes sagði Samtök atvinnulífsins telja að sú stefna að hækka sífellt stýrivexti sé komin í öngstræti.

"Það er ljóst að raungengi krónunnar er í sögulegu hámarki. Stór hluti fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni hefur ekki rekstrargrundvöll við þessar aðstæður. Stjórnendur fyrirtækja í þessum greinum hafa vonað að það sæi fyrir endann á hágengi krónunnar. Nú virðist sem Seðlabankinn sé að boða að vextirnir og gengið verði hærra til lengri tíma en áður var talið."

Hannes sagði stýrivaxtahækkunina, sem boðuð var í gær, til marks um að Seðlabankinn sé afskaplega einn á báti í baráttunni gegn verðbólgunni. Önnur hagstjórnartæki séu ekki að virka með peningamálastefnu bankans. Hannes nefndi þar jafnt rekstur og fjárfestingar ríkis og sveitarfélaga, sem væru ekki að vega á móti mikilli aukningu á eftirspurn í einkageiranum. "Stýritæki Seðlabankans eru ein og sér ekki nægilega öflug til að koma í veg fyrir að hér verði óviðunandi verðbólga," sagði Hannes.

Verðbólga á fasteignamarkaði helsta orsökin

Helsta orsök hækkunar verðbólgu er verðbólgan á fasteignamarkaðnum, að mati Hannesar. Rætur hennar megi rekja til breytinga sem stjórnvöld gerðu þegar þau hækkuðu lánshlutföll og lánsfjárhæðir íbúðalána. "Þegar þessu var hrundið í framkvæmd hófst samkeppnin milli hins opinbera Íbúðalánasjóðs og bankanna um íbúðalán. Sú samkeppni hefur pumpað upp verðbólgu, valdið mikilli eignaaukningu, aukið veðrými og gert fólki kleift að veðsetja eignir sínar, sem aftur hefur kynt undir eftirspurn. Þetta er ein helsta orsök hinnar miklu framleiðsluspennu sem einkum stafar af miklum vexti einkaneyslu. Það hefur nánast ekki verið nein verðbólga síðustu misserin nema vegna hækkunar fasteignaverðs," sagði Hannes. Taka þarf málefni Íbúðalánasjóðs til endurskoðunar sem fyrst, að mati Hannesar, og reyna að draga úr hinum miklu lánveitingum á íbúðalánamarkaði. En hvað er til ráða?

"Það mætti t.d. frysta uppgreiðslur eldri lána hjá Íbúðalánasjóði í Seðlabankanum í stað þess að veita þeim aftur út í lánakerfið. Síðan ætti ótti manna við mikinn þrýsting á vinnumarkaði að hvetja til þess að hömlur, sem eru á frjálsri för launafólks frá nýjum aðildarríkjum Evrópusambandsins, verði afnumdar."

Samtök atvinnulífsins