Covid-19 - 

25. Mars 2020

Styðja efnahagsaðgerðir stjórnvalda

Efnahagsmál

Efnahagsmál

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Styðja efnahagsaðgerðir stjórnvalda

Samtök atvinnulífsins hafa sent Alþingi umsagnir um efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónaveiru þar sem þau lýsa yfir stuðningi við þær. Aðgerðirnar miða að því að tryggja afkomu fólks og fyrirtækja, verja grunnstoðir samfélagsins og skapa öfluga viðspyrnu fyrir efnahagslífið. SA telja að aðgerðirnar nái almennt vel markmiðum sínum, en leggja þó til nokkrar breytingar sem eru til þess fallnar að ganga lengra í þeirri viðleitni að standa vörð um störf í atvinnulífinu. Betra sé að ganga lengra en skemmra í þessum efnum.

Samtök atvinnulífsins hafa sent Alþingi umsagnir um efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónaveiru þar sem þau lýsa yfir stuðningi við þær. Aðgerðirnar miða að því að tryggja afkomu fólks og fyrirtækja, verja grunnstoðir samfélagsins og skapa öfluga viðspyrnu fyrir efnahagslífið. SA telja að aðgerðirnar nái almennt vel markmiðum sínum, en leggja þó til nokkrar breytingar sem eru til þess fallnar að ganga lengra í þeirri viðleitni að standa vörð um störf í atvinnulífinu. Betra sé að ganga lengra en skemmra í þessum efnum.

Lánsfjárþörf ríkisins vanmetin: Kostnaður ríkissjóðs vegna aðgerðanna er 170 milljarða króna og hefur þá ekki verið tekið tillit til minni skatttekna og aukinna útgjalda ríkissjóðs vegna efnahagssamdráttarins. Miðað við nýja sviðsmyndagreiningu Seðlabankans og möguleg áhrif á hagvöxt má ætla að hallarekstur ríkissjóðs versni um a.m.k. 115 milljarða króna. Í ljósi ofangreinds telja SA að lánsfjárþörf á árinu 2020 sé verulega vanmetin.

Hagræðingarkrafa verði sett á ríkisstofnanir: Ljóst er að starfsemi margra stofnana muni minnka eða jafnvel leggjast af á næstu vikum. Faraldurinn muni hafa mjög slæm áhrif á afkomu ríkisins sem ekki er í boði að fjármagna með auknum sköttum á atvinnulífið. Því sé eðlilegt að finna allar mögulegar leiðir til að draga úr útgjöldum ríkisins og hagræða í rekstri. Hlutastarfaleiðin sé augljós kostur fyrir hið opinbera.

Næsta gjalddaga virðisaukaskatts frestað: Lagt er til að næsta gjalddaga virðisaukaskatts, sem er 5. apríl, verði frestað til næsta árs eins og fleiri sköttum og gjöldum.

Fasteignamat taki mið af breyttum aðstæðum: Samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna þá miðast fasteignamat 2021 við stöðuna eins og hún var í febrúar á þessu ári, áður en efnahagslægðin vegna heimsfaraldursins skall á af fullum þunga. Ljóst er að allar forsendur hafa brostið síðan þá. Gera má ráð fyrir að fasteignaverð með atvinnuhúsnæði hafi lækkað, að minnsta kosti tímabundið. Taka þurfi mið að því.

Aðgerðir nái til fyrirtækja í árstíðabundnum rekstri: Lagt er til að heimildir til að fresta greiðslu opinberra gjalda verði breytt þannig að aðgerðirnar nái betur til fyrirtækja sem er í árstíðabundnum rekstri, svo sem hótela á landsbyggðinni, sem lokuð eru hluta ársins, og sjávarútvegsfyrirtækja sem stunda veiðar á uppsjávarfiski.

Aðgerðir nái til fyrirtæki sem hafa enn ekki lent í vanda: Lagt er til að heimildir til að fresta greiðslu opinberra gjalda verði breytt þannig að þær nái einnig til fyrirtækja sem hafa ekki enn lent í vanda en fyrirséð sé að þau muni lenda í vanda vegna ástandsins.

Áfengisgjald á veitingastarfsemi verði fellt niður út 2021: Lagt er til að áfengisgjald, á áfengi sem selt er á veitingastöðum, verði fellt niður út árið 2021 með sama hætti og gert er um gistináttaskatt. Þetta verði gert til að styðja betur við veitingastarfsemi og ferðaþjónustu.

Hlutaatvinnuleysisbætur nái til fólks með tímabundið atvinnuleyfi: Lagt er til að nýsamþykkt lög um hlutaatvinnuleysisbætur nái einnig til fólks með tímabundið atvinnuleyfi.

Sjá nánar í umsögnum SA:

Aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru

Fjáraukalög 2020 vegna heimsfaraldurs kórónuveiru 

Atvinnuleysistryggingar og minnkað starfshlutfall

Samtök atvinnulífsins