Efnahagsmál - 

16. maí 2008

Stuðningur við matvælalöggjöf ESB

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Stuðningur við matvælalöggjöf ESB

Samtök atvinnulífsins, Landssamband íslenskra útvegsmanna og Samtök fiskvinnslustöðva styðja eindregið að leidd skuli í lög hér á landi matvælalöggjöf Evrópusambandsins. Meginatriði löggjafarinnar er að ekki er lengur greint á milli sjávarafurða, búfjárafurða og annarra matvæla heldur gilda í meginatriðum sömu kröfur um framleiðslu matvæla. Þetta tryggir jafnari samkeppnisstöðu íslenskrar matvælaframleiðslu gagnvart framleiðslu á EES svæðinu og skapar fyrirtækjum aukna möguleika til að flytja inn hráefni til framleiðslu sinnar, aukna möguleika til nýsköpunar, vöruþróunar og almennra viðskipta. Að auki greiðir löggjöfin leið heilnæmra íslenskra landbúnaðarafurða á innri markaðinn í Evrópu. Þrátt fyrir almennan stuðning sem samtökin veita frumvarpinu gera þau athugasemdir við fjölmörg efnisatriði sem tengjast eftirliti, gjaldtöku og fleiru.

Samtök atvinnulífsins, Landssamband íslenskra útvegsmanna og Samtök fiskvinnslustöðva styðja eindregið að leidd skuli í lög hér á landi matvælalöggjöf Evrópusambandsins. Meginatriði löggjafarinnar er að ekki er lengur greint á milli sjávarafurða, búfjárafurða og annarra matvæla heldur gilda í meginatriðum sömu kröfur um framleiðslu matvæla. Þetta tryggir jafnari samkeppnisstöðu íslenskrar matvælaframleiðslu gagnvart framleiðslu á EES svæðinu og skapar fyrirtækjum aukna möguleika til að flytja inn hráefni til framleiðslu sinnar, aukna möguleika til nýsköpunar, vöruþróunar og almennra viðskipta. Að auki greiðir löggjöfin leið heilnæmra íslenskra landbúnaðarafurða á innri markaðinn í Evrópu. Þrátt fyrir almennan stuðning sem samtökin veita frumvarpinu gera þau athugasemdir við fjölmörg efnisatriði sem tengjast eftirliti, gjaldtöku og fleiru.

Miklir hagsmunir í húfi

Í umsögn samtakanna til Alþingis segir m.a.: "Góð reynsla er af þeim lögum sem tryggja aðgengi sjávarafurða að mörkuðum í Evrópu. Afleiðingar þess að taka ekki upp endurskoðaða matvælalöggjöf ESB yrðu sjávarútvegi mjög þungbærar og geta leitt til þess að íslenskar sjávarafurðir eigi ekki óhindrað aðgengi að mörkuðum í Evrópusambandinu og að Ísland yrði flokkað sem svo kallað þriðja ríki gagnvart ESB. Það myndi leiða til gríðarlegs óhagræðis vegna verulega aukins eftirlits við innflutning inn á evrópska efnahagssvæðið. Því fylgja tafir í kjölfar eftirlits og sýnatöku. Stór hluti útflutnings byggir á því að koma ferskri vöru til neytenda eins hratt og kostur er og því gæti þetta ógnað tilveru fyrirtækja og atvinnulífs víða um land auk þess sem tengdar greinar myndu bíða skaða af."

Ný tækifæri fyrir íslenskan landbúnað

Matvælalöggjöfin leiðir til þess að landbúnaðarafurðir frá ESB eiga greiðari aðgang að íslenskum markaði en þurfa að sjálfsögðu að uppfylla kröfur um gæði og vera lausar við sýkingar eins og lýst er í frumvarpinu og greinargerð með því. Þetta getur skapað innlendum framleiðendum búfjárafurða ný tækifæri til útflutnings afurða á markaði ESB auk þess sem innlendir framleiðendur geta með auðveldari hætti fengið hráefni til framleiðslu sinnar frá ESB en áður. Það er þó mikilvægt að hugað sé rækilega að samkeppnishæfni íslenskrar landbúnaðar- og matvælavinnslu þannig að henni verði ekki ógnað. Auk þeirrar tollverndar sem greinin mun njóta áfram er mikilvægt að gætt verði þess að fyrirtækjunum verði ekki íþyngt meira en nauðsyn ber til með alls kyns ákvæðum um eftirlit, leyfisveitingar og refsingar. Mikilvægt er að tíminn fram að gildistöku ákvæða um búfjárafurðir verði nýttur til þess að meta áhrif þeirra breytinga sem verið er að innleiða, kynna þær fyrir atvinnugreininni og ráðast í þær úrbætur sem nauðsynlegar eru á starfsumhverfinu.

Áhersla verði lögð á hagkvæmni

Frumvarpið líður mjög fyrir það að ekkert samráð var haft við atvinnulífið og aðra hagsmunaaðila heldur einungis sveitarfélög og dýralækna og ber frumvarpið þess sterk merki að vel hafi verið gætt að hagsmunum eftirlitsaðila en ekki hugað að þeim atriðum sem einfalda hlutina gagnvart fyrirtækjum, gera hlutina hagkvæmari og ódýrari í framkvæmd. Í umsögn SA, LÍU og SF kemur m.a. fram að með þeim tillögum sem felast í umsögninni er ekki verið að leggja til að dregið verði úr öryggi matvæla hér á landi heldur fyrst og fremst að þess verði gætt að framkvæmdin verði eins einföld og hagkvæm og frekast er unnt og að ekki verði lögð á fyrirtækin íþyngjandi ákvæði umfram það sem á við um sambærilega starfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu.

Skipulagi heilbrigðiseftirlits verði breytt

Í umsögn samtakanna segir að grunnþáttur í opinberu eftirlitskerfi sé að eftirlitsaðilar séu óhlutdrægir og að engir hagsmunaárekstrar eigi sér stað. Samtökin draga verulega í efa að heilbrigðisnefndir sveitarfélaga standist þessar kröfur sem gerðar eru til eftirlitsaðila og segja afar mikilvægt að skipulagi heilbrigðiseftirlitsins verði breytt og það losað undan sveitarfélögunum. "Skrifstofur heilbrigðiseftirlits geta starfað eins og áður, aflað sér faggildingar og fengið umboð sitt með samningum við Matvælastofnun á sama hátt og aðrar faggiltar skoðunarstofur. Það gæti leitt til sameiningar skrifstofa, aukins hvata til hagræðingar í rekstri og aðhalds að gjaldskrám þeirra og auk þess tryggt samræmt eftirlit um allt land. Í tillögum þeim sem hér fara á eftir er lagt til að faggiltar skoðunarstofur geti annast eftirlit með matvælafyrirtækjum almennt undir yfirumsjón Matvælastofnunar á sama hátt og gilt hefur í sjávarútvegi um hríð."

Sjá nánar:

Umsögn SA, LÍÚ og SFF til Alþingis (PDF)

Samtök atvinnulífsins