20. maí 2022

Streitustiginn - ertu á svölum vinnustað?

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Streitustiginn - ertu á svölum vinnustað?

Vinnueftirlitið, VIRK og embætti landlæknis buðu upp á örráðstefnu um heilsueflandi vinnustaði með vinnusálfræðingnum Marie Kingston, höfundi bókarinnar Stop stress og Streitustigans, þann 18. maí sl. Á ráðstefnunni var fjallað um leiðir til að stuðla að betri heilsu og vellíðan vinnandi fólks á vinnustöðum, fyrirbyggja kulnun og minnka brottfall af vinnumarkaði. Upptöku af ráðstefnunni má sjá hér.

Streitustiginn er verkfæri sem vinnustaðir geta notað til að búa sér til sameiginlegt orðfæri um álag og streitu á vinnustaðnum og getur hann gagnast við að greina hvort streita er til staðar, hversu alvarleg hún er og til að velja leiðir til úrbóta í framhaldinu ef þarf. Stiginn er hentugt tæki til að fá skýra mynd af því hvernig streita þróast og auðveldar okkur að tala um hana. Gagnlegt getur líka verið fyrir hvern og einn að nýta stigann til að átta sig á hvar hann er staddur hverju sinni. Ef allir á vinnustaðnum þekkja til streitustigans getur það auðveldað samtal um streitu og hjálpað starfsmönnum að gera sig skiljanlega.

Streitustiginn nýtist vinnustöðum til að greina hvort streita er til staðar, hversu alvarleg hún sé og til að velja leiðir til úrbóta í framhaldinu, ef þarf - sjá allt um Streitustigann á velvirk.is.

VIRK var stofnað árið 2008 í framhaldi af kjarasamningum SA og ASÍ sem kölluðu eftir nýju fyrirkomulagi starfsendurhæfingar á Íslandi. Samtök atvinnulífsins eru stofnaðili að VIRK og eiga fulltrúa í stjórn og framkvæmdastjórn sjóðsins.

Samtök atvinnulífsins