Stórt skref fyrir Seðlabankann en lítið fyrir atvinnulífið

"Þetta er stórt skref fyrir Seðlabankann en mjög lítið skref fyrir atvinnulífið," segir Þór Sigfússon, formaður SA, í samtali við Fréttablaðið um lækkun stýrivaxta Seðlabankans um 2,5 prósentustig. "Þessi aðgerð kemur ekki í veg fyrir að fyrirtækjunum í landinu haldi áfram að blæða út," segir Þór. Vextirnir þurfi að komast undir tíu prósent sem fyrst og helst lægra."

Þór segir mikilvægt að Seðlabankinn lofi kröftugri lækkun stýrivaxta í júní en vandinn með háa vexti sé sá að þá borgi sig frekar að geyma peninga í banka en að fjárfesta, sem skapi vítahring þar sem fyrirtæki fái ekki fjármagn.

"Ef menn lækka vexti í um það bil fimm prósent er líklegra að þeir sem eigi peninga fari að huga að framkvæmdum, bankarnir eru yfirfullir af fjármunum," segir Þór.

Í Morgunblaðinu í dag bendir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, ennfremur á að þeir háu vextir sem Íslendingar búi við leiði til mikilla afskrifta og eignahruns í hagkerfinu.

Sjá nánar:

Fréttablaðið 8. maí - vefútgáfa