Stóriðjuframkvæmdir geta breytt útlitinu á næsta ári

Áramótaviðtal Morgunblaðsins við Finn Geirsson, formann Samtaka atvinnulífsins:

"Á árinu sem er að líða hefur náðst umtalsverður árangur í því að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja," segir Finnur Geirsson, formaður Samtaka atvinnulífsins. "Verðbólgan hefur hjaðnað, m.a. í kjölfar hækkunar á gengi krónunnar, og viðskipti við útlönd komist í jafnvægi. Þá hafa vextir óverðtryggðra lána lækkað verulega þótt enn séu þeir tiltölulega háir í alþjóðlegum samanburði. Hins vegar er lítil breyting á verðtryggðum langtímavöxtum umhugsunarefni. Í aðalatriðum má segja að væntingar okkar, sem stóðum að endurgerð kjarasamninga í desember 2001, hafi gengið eftir. Þá stendur upp úr að með sölu ríkisbankanna skuli loks sjá fyrir endann á því baráttumáli til áratuga að kostir einkarekstrar fái notið sín í bankakerfinu," segir hann.

"Það liggur hins vegar fyrir, að hægt hefur á umsvifum í atvinnulífinu eins og atvinnuástandið ber með sér. Mörg fyrirtæki hafa þurft að horfast í augu við minni eftirspurn eftir vörum sínum og þjónustu og hafa á sama tíma þurft að glíma við bæði hátt vaxtastig og launastig. Það er óneitanlega umhugsunarefni að hlutur launa í svokölluðum þáttatekjum á Íslandi er kominn upp í tæp 68 af hundraði sem er með því hæsta sem gerist, hvort sem litið er til baka í tíma eða til annarra landa. Þessi tala er í kringum 60 af hundraði í nágrannalöndum okkar og hefur að jafnaði verið nálægt 64 af hundraði hér. Þá er hætt við að umrótstímabil, eins og það sem íslensk fyrirtæki hafa gengið í gegnum á undanförnum misserum, sé til þess fallið að skapa óöryggi, sem aftur getur dregið úr fyrirtækjum þor til að takast á við ný tækifæri til að bæta hag sinn og starfsfólks síns.

Tekjuskattslækkun sú á fyrirtæki sem tók gildi um síðustu áramót er mjög jákvætt innlegg í þessari stöðu og mun áreiðanlega auka mönnum bjartsýni. Þá liggur fyrir að stóriðjuframkvæmdir, ef af þeim verður, munu geta  breytt útlitinu umtalsvert og náð að draga úr þeirri deyfð sem annars blasir við á næsta ári."

"Sóknarfæri íslenskra fyrirtækja liggja þó ekki síst í því," segir Finnur, "að við náum að treysta stöðugt rekstrarumhverfi í sessi samfara því að skapa fólki svigrúm til að spreyta sig og njóta sín. Lykilatriði í því sambandi er að vel takist til með rekstur opinberrar þjónustu vegna þess að ör vöxtur í útgjöldum hins opinbera ýtir undir þenslu og verðbólgu og er til þess fallinn að draga úr möguleikum á lægri sköttum. Fjárlög næsta árs hafa nú verið afgreidd með þeim hætti að ekki ætti að felast í þeim sjálfstæð þensluhætta. Hins vegar er það sérstakt áhyggjuefni hvað samneysla hefur vaxið mikið á síðustu árum umfram það sem menn höfðu ætlað og að ekki skuli ganga betur að taka á þeim vanda.

Mikilvægur þáttur aukinnar samneyslu er launahækkanir opinberra starfsmanna sem virðast því miður lúta öðrum lögmálum en þeim sem almenni vinnumarkaðurinn verður að taka mið af. Á sama tíma liggur fyrir að fyrirtækin hafa ekki sömu möguleika á að auka tekjur sínar til að mæta útgjaldaaukningu með þeim hætti sem hið opinbera getur. Tvískipting vinnumarkaðarins, þar sem hinn opinberi þróast með öðrum hætti en sá almenni, getur ekki gengið upp til lengdar. Það eru miklir hagsmunir í húfi að við megnum að snúa þessari þróun við og jafnframt rík ástæða til að nýta kosti einkarekstrar á hefðbundnum sviðum opinberrar þjónustu," segir hann.

"Á seinni hluta næsta árs fara í hönd viðræður aðila vinnumarkaðarins um nýja kjarasamninga. Við hljótum að ganga út frá því að samningarnir verði ekki til þess að raska stöðugleika í efnahagslífinu og byggist á raunhæfum forsendum sem m.a. taki mið af samkeppnisstöðu fyrirtækja okkar á alþjóðavísu. Það yrði allra hagur, jafnt launafólks sem atvinnurekenda, að þetta takist, og fyrst og fremst þannig megnum við að bæta lífskjör á Íslandi. Á næsta ári fara líka fram samningar við Evrópusambandið í tengslum við stækkun þess sem mikilvægt er fyrir okkur að takist vel. Það verður ekki litið fram hjá því að Ísland er hluti af síbreytilegu og stækkandi markaðssvæði sem við verðum að fylgjast grannt með og vera tilbúnir til að bregðast við þeirri þróun sem þar á sér stað. En við höfum á góðum grunni að byggja og ég hef trú á því að við Íslendingar séum vel í stakk búnir að takast á við fyrirliggjandi verkefni með góðum árangri."