Efnahagsmál - 

13. Febrúar 2009

Stóra U-beygjan

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Stóra U-beygjan

Stór U-beygja gagnvart atvinnulífinu er tekin í fyrstu skýrslu nefndar um endurreisn fjármálakerfisins sem kynnt var á blaðamannafundi 11. febrúar. Meginatriðin í tillögugerð nefndarinnar ganga í veigamiklum atriðum gegn stefnumörkun þáverandi ríkisstjórnar frá 2. desember 2008 um aðgerðir í þágu fyrirtækja sem unnin var í samráði við Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands og fleiri hagsmunaaðila.

Stór U-beygja gagnvart atvinnulífinu er tekin í fyrstu skýrslu nefndar um endurreisn fjármálakerfisins sem kynnt var  á blaðamannafundi 11. febrúar. Meginatriðin í tillögugerð nefndarinnar ganga í veigamiklum atriðum gegn stefnumörkun þáverandi ríkisstjórnar frá 2. desember 2008 um aðgerðir í þágu fyrirtækja sem unnin var í samráði við Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands og fleiri hagsmunaaðila.

Meginatriðin í tillögum nefndar ríkisstjórnarinnar undir formennsku Mats Josefssonar eru að koma á fót eignasýslufélagi á vegum ríkisins til þess að endurreisa stærri fyrirtæki. Ríkinu er ætlað að eiga bankana og þau boð látin út ganga að viðskipti eigi ekki að ganga fyrir sig með sama hætti og áður. Stjórnendum bankanna er jafnframt bent á að gera sér grein fyrir hlutverki sínu við að koma stefnumótun ríkisstjórnarinnar í framkvæmd. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu forsætisráðuneytisins.

Yfirlýsing þáverandi ríkisstjórnar frá 2. desember sl. var um margt niðurstaða af fjölmörgum fundum sem haldnir voru í október og nóvember í samstarfi Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands. Á þessum fundum var farið yfir stöðu mála og kallað eftir aðgerðum eins og við átti. Samstarf var haft við opinberar stofnanir, banka, fulltrúa ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkana, sveitarfélög og fleiri aðila eftir því sem þurfti og fundirnir voru almennt opnir og reynt að ná sem flestum sjónarmiðum að borðinu.

Á þessum fundum var m.a. hvatt til þess að bankarnir settu sér skýrar viðmiðunarreglur um vinnubrögð við uppstokkun fyrirtækja. Haft var náið samráð við Samkeppniseftirlitið um málið og stofnunin gaf út sérstakar leiðbeiningar til bankanna sem byggðu á niðurstöðum úr samvinnu og samráði allra aðila (álit nr. 3/3008). Eitt lykilatriðið í þeim tillögum sem fram komu á fundunum var að bankarnir skyldu stofna sérstök opin umsýslufélög vegna eignarhalds á fyrirtækjum til að tryggja aðskilnað milli hlutverks banka sem eiganda annars vegar og viðskiptabanka hins vegar. Mikil áhersla var lögð á að tryggja að samkeppni gæti haldist í atvinnulífinu og að eignarhald bankanna skapaði ekki tortryggni um  mismunun milli viðskiptavina. Allt þetta rataði með einum eða öðrum hætti inn í yfirlýsinguna frá 2. des.

Ennfremur þróaðist á fundum SA og ASÍ sú hugmynd að lífeyrissjóðirnir settu á laggirnar sérstakan endurreisnarsjóð, Fjárfestingarfélag Íslands, til þess að koma að uppbyggingu atvinnulífsins. Meginhugmyndin var að sá sjóður gæti orðið öflugur samstarfsaðili við umsýslufélög bankanna og tekið virkan þátt í endurreisn hlutabréfamarkaðarins með því að leggja áherslu á fagmennsku, öguð vinnubrögð og góða stjórnarhætti í atvinnulífinu. Á þessu er tekið í yfirlýsingunni frá 2. des.

Nú er tekin U-beygja. Í stað þess að vinna út frá því að dreifa sem mest eignarhaldi á fyrirtækjum miðað við þá þröngu stöðu sem upp er komin og leggja drög að nýrri uppbyggingu á virkum og trúverðugum hlutabréfamarkaði sem er algjör nauðsyn fyrir öflugt atvinnulíf er tekin þveröfug stefna. Eignasýslufélag á vegum ríkisins á að taka yfir stærstu fyrirtækin og stýra endurskipulagningu þeirra. Burt með öll samkeppnissjónarmið á einu bretti. Burt með uppbyggingu hlutabréfamarkaðsins. Burt með fagmennsku og góða stjórnarhætti. Inn með pólitíkina. Þetta er boðskapurinn.

Á fundum SA og ASÍ varð fljótlega ljóst að hinir nýju ríkisbankar yrðu vanmegnugir að þjóna atvinnulífinu með viðunandi hætti (eins og er reyndar sögð ein ástæðan fyrir tillögunni um eignasýslufélag ríkisins). Eins er efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og AGS afar rýr er varðar erlendar skuldir atvinnulífs og heimila og hvernig þær eigi að endurgreiðast. Áform vantar um hvenær og hvernig atvinnulíf og heimili eigi yfirleitt að tengjast alþjóðlegum fjármálamörkuðum. 

Vegna þessara efasemda um getu nýju bankanna komu fram ákveðnar tillögur um að þeir þyrftu að komast í eigu erlendra kröfuhafa sem hefðu afl og vilja til þess að þjóna íslenskum viðskiptavinum. Með ríkið sem eiganda að bönkunum og þar með engan eða afar takmarkaðan aðgang að erlendu lánsfé væri líklegt að lánasafnið myndi þurfa að afskrifast að meira eða minna leyti með tilheyrandi gjaldþrotum og erfiðleikum. Eftir því sem tíminn hefur liðið hefur það æ betur komið í ljós að ríkisbankaleiðin er ekki fær og mun lengja og dýpka niðursveifluna verulega ef hún verður farin.

Jafnvel þetta sjónarmið rataði inn í yfirlýsinguna frá 2. desember þar sem lýst var yfir vilja til þess að greiða fyrir uppgjöri við erlenda kröfuhafa með því að bjóða þeim hlutabréf í bönkunum í því skyni að tryggja endurfjármögnun þeirra. Nú er blaðinu hins vegar snúið við og gefin skýr skilaboð um að ríkisstjórnin taki við hlutverki eigenda bankanna og láti þá vita að viðskipti eigi ekki að ganga fyrir sig með sama hætti og áður.

Og svo koma stóru skilaboðin: "Stjórnendur bankanna geri sér grein fyrir því nýja umhverfi sem þeir starfa í og leggi sitt af mörkum og styðji ríkisstjórnina í því að koma stefnumálum hennar, varðandi endurreisn atvinnulífsins í framkvæmd." Nú skal pólitíkin ráða. Nú vita menn hvert á að hringja ef málin ganga ekki "eðlilega" fyrir sig í bönkunum. Nú vita þeir sem starfa í bönkunum hverjir "húsbændur" þeirra eru. Það rifjast óneitanlega upp gamlir tímar og hvert svona leiðir. Það væri fróðlegt að rifja upp af hverju Alþingi þurfti snemma á tíunda áratugnum að endurfjármagna ríkisbankann Landsbanka Íslands sem hafði á sínum tíma einmitt fengið skýr skilaboð um að leggja sitt af mörkum til að styðja ríkisstjórnina. 

Því verður ekki trúað að það sé ætlan ríkisstjórnarinnar að taka svona tillögugerð alvarlega eins og gefið hefur verið í skyn. Þessi tillögugerð er algjörlega unnin án samráðs við Samtök atvinnulífsins og fær aldrei stuðning þeirra. Framkvæmd þessara tillagna leiðir til mikils ófarnaðar og framlengir erfiðleikana í atvinnulífinu um mörg ár ef ekki áratugi.

Vilhjálmur Egilsson

Samtök atvinnulífsins